Íbúar
Eistlands voru aðeins 1,6 milljónir árið 1992 og þar með var landið
minnst Sovétlýðveldanna á sínum tíma.
Í heildina eru aðeins 35 íbúar á hvern ferkílómetra. Lífslíkur frá fæðingu árið 1990 var 68 ár.
Í kringum 62% íbúanna eru Eistlendingar.
Þeir eru skyldir Finnum og tala skylt mál.
Rússar mynda stærsta minnihlutahópinn (30%) og nokkuð er um
Úkraínumenn, Hvítrússa, Finna, gyðinga og Letta.
Áður en landið var innlimað í Sovétríkin 1940 var fjöldi
Rússa aðeins 8,5% þjóðarinnar.
Stærsti hluti þeirra fluttist til landsins á Stalíntímanum,
þegar uppbygging iðnaðar var sem mest og fjöldi Eistlendinga var
fluttur nauðugur til Norður-Rússlands og Síberíu. Flestir Rússanna í landinu vinna í iðnfyrirtækjum og
verksmiðjum. Lúterstrú
er útbreiddust í landinu en þar er líka fólk af öðrum trúarbrögðum
og greinum kristninnar.
Árið
1992 voru sett lög, sem takmörkuðu verulega aðgang að borgararétti
í landinu. Samkvæmt þeim
eru allir, sem bjuggu í landinu fyrir árið 1940 og niðjar þeirra, ríkisborgarar
án tillits til uppruna. Aðrir
borgarar verða að sína fram á tveggja ára stöðuga búsetu og
standast próf í eistlenzku að gamalmennum og þroskaheftum undanþegnum.
Fyrrum starfsmenn sovézku öryggislögreglunnar fá ekki
borgararéttindi og hafa því ekki kosningarétt.
Rússneska ríkisstjórnin kvartaði undan brotum gegn mannréttindum
rússneskra borgara landsins en sendinefnd frá CSCE (Ráðstefnu um öryggi
og samvinnu í Evrópu) hafnaði þessum kvörtunum eftir heimsókn til
Eistlands 1993.
Mikið
er um borgir og þorp í landinu og u.þ.b. 71% íbúanna búa í þéttbýli,
þar af býr u.þ.b. þriðjungur í Tallin.
Aðrar helztu borgir landsins eru Tartu og Pamu.
Íbúar af rússneskum uppruna búa aðallega í austustu héruðum
landsins og borgin Narva er næstum eingöngu byggð Rússum.
Samband Rússlands og Eistlands er enn þá hlaðið spennu vegna
óleystrar deilu um austurlandamærin.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1991 var tæplega hálf milljón. |