Eistland efnahagslífið,


EISTLAND
EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Árið 1991 var verg þjóðarframleiðsla Eistlands US$ 6,088 milljónir (US$ 3.830.- á mann) samkævmt áætlunum Alþjóðabankans.  Iðnaður er aðalatvinnuvegur landsins og stendur undir u.þ.b. helmingi þjóðarframleiðslunnar og nýtir þriðjung vinnuaflsins.  Þungaiðnaður og vinnsla leirs eru mikilvægar greinar.  Leirvinnslan leiðir af sér framleiðslu gass og ýmissa efna.  Einnig er framleitt sement, textílvörur (baðmull, hördúkur og ull), bílahlutar og leðurvörur.  Skógarhögg er stundað til pappírsgerðar, borðviðar og framleiðslu húsgagna.

Framleiðnin byggist mikið á hinum fáu stóru fyrirtækjum, sem eru flest í norðurhluta landsins.  Fimmtungur verksmiðjanna stendur undir tveimur þriðjungum allarar framleiðslunnar.  Árið 1992 minnkaði framleiðslan um 30% vegna hruns markaðanna í fyrrum Sovétríkjunum.  Smygl og endursala hráefna á undirverði frá Rússlandi hefur aukizt mjög.  Landbúnaður og timburvinnsla standa undir u.þ.b. 15% vergrar þjóðarframleiðslu og áttunda hluta vinnutækifæra.  Ræktun búfjár og mjólkurframleiðsla eru meginstoðir landbúnaðarins.  Uppskeran byggist á höfrum, kartöflum og hör.

Snemma á tíunda áratugnum var efnahagslegu sjálfstæði landins ógnað vegna hás orkuverðs frá Rússlandi.  Eistland fær helming orku sinnar frá Rússlandi, sem er reyndar minna en Lettar og Litháar kaupa.  Engu að síður varð efnahagslífið fyrir verulegu áfalli, þegar Rússar fóru að selja olíu og olíuafurðir á heimsmarkaðsverði og nokkrar verksmiðjur urðu að hætta starfsemi.  Eistar fylgdu fordæmi Rússa og fóru að krefjast greiðslu í erlendum gjaldmiðlum frá Lettum og Litháum fyrir raforku, sem þeir seldu til nágrannalandanna.

Eistland varð fyrst Eystrasaltslandanna til að fara að nota eiginn gjaldmiðil, krónuna, sem komst í dreifingu 1992.  Krónan er á gullfæti.  Bretar, Svíar og Frakkar geymdu gullbirgðir landsins á meðan það var undir járnhæl Sovétríkjanna.  Árið 1995 var gengi Bandaríkjadollars 12 krónur.

Áætlanir eru uppi um lagningu gasleiðslu frá Noregi til Eistlands.  Viðskipti landsins við Vesturlönd hafa aukizt verulega síðan landið varð sjálfstætt.  Árið 1991 beindust rúmlega 90% viðskiptanna til Sovétríkjanna og leppríkja þeirra.  Árið 1994 voru þau kominn niður í tæplega 40% og 60% viðskiptanna voru við ESB-löndin.  Fjárfesting erlendra aðila var kominn upp í US$ 139.- á mann, sem var þá þriðji bezti árangurinn í Austur-Evrópu.


STJÓRNSÝSLAN.  Núverandi lýðveldi byggist á hinu fyrra, sem var við lýði á árunum 1918-1940.  Ný stjórnarskrá, sem var samþykkt árið 1992, gerir ráð fyrir þingi í einni deild (Riigikoqu).  Fjöldi þingmanna er 102 og þeir eru kjörnir í beinum kosningum til fjögurra ára í senn svo fremi, að flokkur þeirra fái meira en 5% atkvæða.  Æðsti maður ríkisins er forsetinn, sem hefur takmörkuð völd.  Landið er ekki í Samveldi sjálfstæðra ríkja (CIS), sem flest fyrrum Sovétlýðveldin stofnuðu.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM