Danmörk náttúran,
[Flag of Denmark]


DANMÖRK
NÁTTÚRAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landslag Danmerkur mótaðist aðallega í lok ísaldar (Weichsel).  Landið er láglent og öldótt og meðalhæðin yfir sjó er u.þ.b. 30 m.  Hæsti punktur þess er í 173 m hæð yfir sjó.  Yztu jökulöldur frá ísöld er að finna frá Nissumfjarðar á vesturströnd Jótlands í austurátt til Viborgar.  Þaðan sveigja þær til suðurs í áttina að Åbenrå og þýsku borginni Flensburg.  Vesturströnd Jótlands ber glögg merki framburðar jökulfljóta en austar er frjósamur leirjarðvegur og hæðir.

Limafjörður aðskilur nyrzta odda Jótlands.  Landið er flatt og þakið fúlum mýrum, sem hafa geymt minjar og lík frá bronz- og járnöld mjög vel.  Mýrarnar voru líka mikið notaðar til mótekju áður en þær voru ræstar fyrir beitilönd.  Sums staðar á norður- og suðvesturströndum Jótlands eru saltar mýrar, sem mynduðust við uppgufun stöðuvatna fyrir u.þ.b. 250 milljónum ára.  Kalklög, sem mynduðust fyrir u.þ.b. 100 milljónum ára eru á suðausturhluta Sjálands í Stevn- og Mønbjörgum og í Bulbjerg á Nv.-Jótlandi.  Mikið er numið af 65 milljóna ára kalki suðausturhluta Sjálands.  Bornholm er jarðfræðilega skyldur Suður-Svíþjóð.  Þar er m.a. 570 milljóna ára granít á norðurhlutanum en sandsteinn og leir hylja það á suðurhlutanum.

Lengsta á landsins er Gudenå (162 km), sem á upptök norðvestan Tørring á austanverðu Mið-Jótlandi.  Hún rennur um Silkiborgarvötn og út í Randersfjörð á austurströndinni.  Stærsta stöðuvatnið af mörgum er Arre (40,7 km²) á Sjálandi og mörg lón hafa myndast á vesturströndinni, s.s. við Ringkøbing og Nissumfjörð.  Víðast í Danmörku er jarðvegslag ofan á möl, sandi og leir frá ísöld og þar fyrir neðan er kalksteinn.  Á nýsteinöld var erfitt um vik að rækta jörðina vegna mikils kalks en nú orðið eru u.þ.b. 60% lands í Danmörku velræktanleg og frjósöm vegna hins mikla landbúnaðar í gegnum tíðina. 

Loftslag byggist á breytilegu veðri, þar sem landið er á mótum veðurkerfa Atlantshafsins, heimsskautssvæðanna og Austur-Evrópu.  Oft er stormasamt við vesturströndina en golfstraumurinn dregur úr kuldaáhrifum lægða, sem koma yfir Norðursjó.  Á veturna snjóar og vötn leggur en í heildina tekið eru vetur mildir.  Meðalhiti febrúar er 0°C, sem er 7°C hærri en meðalhiti á þessari breiddargráðu.  Frostdagar eru u.þ.b. 70 við vesturströndina og 120 inni í landi.  Sumrin eru mild, bæði skýjuð og sólrík.  Meðalhiti í júlí er 16°C.  Úrkomu verður vart allt árið en hún er mest síðsumars og í byrjun vetrar.  Meðalúrkoma fyrir allt landið er 635 mm, milli 406 mm, þar sem minnst er og 815 mm á suðvesturhluta Jótlands.

Flóra og fána.  Á forsögulegum tímum, áður en land var brotið til ræktunar, var það vaxið eik, álmi linditrjám og beyki.  Engir þessara upprunalegu skóga varðveittust en víða var gróðursett aftur til að mynda skjólbelti fyrir akra og tún.  Danmörk er á mörkum barrskógabeltisins og því hefur reynzt auðvelt að rækta furu og greni, einkum á Jótlandi, þar sem auðnir og sandöldur hafa verið klæddar trjám.  Nú munu rúmlega 10% lands í Danmörku vera skógi vaxin.

Talsverður fjöldi tegunda spendýra kom sér fyrir í Danmörku eftir ísöldina, s.s. elgsdýr, úruxar, brúnbirnir og villisvín (öll útdauð).  Dádýr eru enn þá í sveitum landsins og stórhyrndu, rauðu dádýrin eru enn þá til í skóglendum Jótlands.  Hérar og broddgeltir finnast líka.  Talið er, að a.m.k. 300 tegundir fugla sé að finna í landinu, þar af er u.þ.b. helmingur varptegundir.  Storkar voru algengir varpfuglar á fyrri hluta 20. aldar en koma nú við sem farfuglar frá vetrarslóðum sínum í Afríku.  Í hafinu umhverfis landið er talsvert af fiski, þorski, síld og kola, sem eru grundvöllur sjávarútvegs.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM