Íbúar
landsins eru að langmestu leyti Danir.
Tiltölulega fáir Færeyingar og Grænlendingar búa í landinu,
þótt þeir séu jafnréttháir Dönum.
Talsvert er um, að Íslendingar dvelji um hríð í landinu eða
stofni til fastrar búsetu.
Fámennir hópar fólks af þýzkum uppruna, gyðinga og Pólverja
hafa verið lengi í landinu.
Vegna mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli á 7. áratugnum kom
margt farandverkamanna til landsins.
Eftir 1980 voru fjölmennustu minnihlutahóparnir frá Tyrklandi,
Júgóslavíu, Íran og Pakistan.
Landnám.
Fólk, sem stundaði landbúnað, settist að í landinu á forsögulegum
tíma.
Allt frá miðöldum fram á 18. öld var um að ræða
samyrkjustarfsemi á opnum ökrum og túnum.
Flestir bændur voru leiguliðar stórbænda.
Þeir bjuggu í smáþorpum, önnuðust akra stórbændanna og höfðu
síðan skika fyrir sig og sína.
Það var ekki fyrr en á 19. öld að betri og léttari tæki
til landbúnaðar komu fram og landinu var skipt milli sjálfseignarbænda.
Þá gátu bændur farið að framleiða meira en einugis til
eigin þarfa og landbúnaðurinn fór að verða mikilvæg tekjulind. Víða
á Jótlandi voru stór landsvæði lengi ónýtt til landbúnaðar þar
til fjölgun íbúa gerði þau meira aðlaðandi, þrátt fyrir lakari
jarðveg.
Iðnvæðing, aukin verzlun og sjávarútvegur stuðluðu að
myndun þéttbýlis, þannig að bændasamfélagið er horfið í þeirri
mynd sem það var.
Tungumálið.
Danska er ríkismálið.
Það var, líkt og sænska og norska, upprunalega sama tungan,
norræna, sem var töluð á Norðurlöndum og víðar, þar sem víkingarnir
settust að og Norðurlandabúar áttu ítök.
Þessar þrjár tungur auk færeysku hafa orðið fyrir mun meiri
áhrifum frá nágrannamálunum en íslenzka og þróast í svolítið
mismunandi áttir.
Íslendingar virðast hafa fundið leið til að gera sig
skiljanlega við þjóðirnar, sem tala enn þá norræn mál, þótt
stundum sé erfitt að eiga við mállýzkur. Danir eru
komnir svo langt frá eigin tungu, að þeir eiga erfitt með að skilja
ríkismálið, sem er m.a. kennt í íslenzkum skólum, þótt það sé talað
skýrt og greinilega.
Trúarbrögð.
Eins og annars staðar á Norðurlöndum ríkir algert trúfrelsi
í Danmörku.
U.þ.b. 90% Dana eru lúterstrúar og áhangendur evangelísku
kirkjunnar, sem tók við af katólsku kirkjunni við siðaskiptin 1536.
Á 19. öld var mótmælendakirkjan orðin mjög formleg og stöðnuð
og ný vakning, Grundtvigismi, kom hreyfingu á málin á ný.
Kristilegir lýðháskólar voru stofnaðir til að tengja
kristnina og danska sveitamenningu.
Heimatrúboðið var líka stofnað á svipuðum tíma (Vilhelm
Beck) og það hefur staðizt tímans tönn.
Áhangendur þess leggja áherzlu á biblíulestur, trú
einstaklingsins, og syndlaust líferni.
Víðast um landið má finna fulltrúa flestra helztu trúarbragða
heimsins.
Mannfjöldi.
Á seinni hluta 20. aldar stóð íbúafjöldi landsins að mestu
í stað.
Fæðingartíðnin var aðeins 1,4 (nú 1,8) og allmargir fluttu úr landi,
aðallega til Bandaríkjanna.
Vegna aðfluttra verkamanna fækkaði íbúunum ekki og afleiðingin
er færra fólk undir 20 ára aldri en yfir 80 ára aldri. |