Danmörk efnahagslífið,
[Flag of Denmark]


DANMÖRK
EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Norðurlöndin státa af beztu lífsskilyrðum í heiminum á flestum sviðum.  Félagsleg þjónusta er hvergi víðtækari og betri.  Þjóðarframleiðsla og -tekjur eru með þeim hæstu og efnahagslífið byggist að mestu á þjónustuiðnaði, viðskiptum og framleiðslu.  Aðeins 6% þjóðarinnar eru háð landbúnaði, fiskiðnaði og skógrækt og fremur lítil fyrirtæki eru yfirgnæfandi. 

Danir gerðust aðilar að Efnahagsbandalagi Evrópu 1973, einir norrænna þjóða, samtímis Englendingum, sem voru og eru mikilvægt viðskiptaland.  Engu að síður hafa Norðurlönd með sér náin viðskipti.  Norðurlandabúar þurfa ekki vegabréf til að ferðast milli landanna og njóta sömu félagslegu þjónustu og í heimalandinu.  Þeir hafa líka kosningarétt í viðkomandi landi, séu þeir búsettir þar.  Norræni fjárfestingarbankinn var stofnaður til að tryggja eðlilegt fjármagsstreymi á milli landanna.  Lagasetning er að mestu leyti byggð á sama grunni, einkum á sviði viðskipta.

Danir búa við blandað velferðarhagkerfi og u.þ.b. helmingur þjóðarútgjalda liggur í einkaneyzlu.  Aðalkostnaður hins opinbera liggur í menntamálum, landvörnum, félagslega kerfinu og niðurgreiðslu landbúnaðarvara.  Stefna hins opinbera er að safna ekki digrum sjóðum og veita ekki almennum rekstri samkeppni.  Aðaltekjulindir þess eru skattar á fasteignir, tekjuskattar og tollar.  Helzta óbeina tekjulindin er virðisaukaskattur.

Samtök vinnuveitenda og launþega eru velskipulögð og aðild að verkalýðsfélögum byggist einkum á fagkunnáttu verkafólks.  Flest verkalýðsfélög eru aðilar að Alþýðusambandi Danmerkur og samtök vinnuveitenda sameinast flest í Danska vinnuveitendasambandinu.

Náttúruauðlindir eru takmarkaðar.  Hátt olíuverð á áttunda áratugnum var þungur baggi á dönsku efnahagslífi, því að innflutt eldsneyti stendur undir 90% af orkuþörf Dana.  Uppgötvun olíu í Norðursjó gerði Dani óháðari verðsveiflum á olíumarkaðnum og jafnaði sveiflur í efnahagslífinu.  Orkuver, sem brenna kolum, framleiða 90% af rafmagni landsins.  Árið 1970 var þetta hlutfall 10% en skömmu síðar var dregið markvisst úr notkun fljótandi eldsneytis og farið að nýta aukaorku til hitaveitu.  Þessi breyting leiddi til tvöföldunar orkunýtingar.

Landbúnaður.  Í efnahagslægðinni í lok 19. aldar urðu miklar félagslegar breytingar í landinu.  Samvinnuhreyfing bænda óx úr grasi og þeir mættu lækkandi kornverði með því að fóðra búfé sitt með því til að framleiða smjör, egg og svínaflesk.  Þeir stofnuðu lýðháskóla, ræktunar- og mjólkurbúasamtök.  Afleiðingin var aukin menntun og hvatning til að mæta aukinni samkeppni.  Samvinnufélögin entust til 1950 og lýðháskólarnir luku hlutverki sínu um svipað leyti. 

Velmenntað verkafólk og jarðargæði eru mikilvægasti grundvöllur dansks efnahagslífs.  Í kringum 60% landsins eru velnýtt til framleiðslu landbúnaðarafurða.  Rúmlega helmingur ræktaðs lands er notað til kornræktar, einkum byggs og hveitis.  Sykurrófur eru líka mikilvægar og á Vestur-Jótlandi, þar sem jarðvegur er ekki eins frjósamur og annars staðar, eru ræktaðir hafrar, rúgur, rófur og kartöflur.  Mikil áherzla er lögð á ræktun nautgripa, svína og hænsna til framleiðslu útflutingsafurða.  Nú orðið eru býlin fremur lítil og fjölskyldurekin.  Framleiðslan krefst nútímaaðferða, mikils áburðar og vísindalegrar nákvæmni í búfjárrækt.  Refa- og minnkarækt hefur allmikið vægi.

Fiskveiðar og vinnsla vega talsvert þungt í efnahagslífinu.  Helztu grundvallafiskistofnar eru síld, þorskur, og flatfiskur (90%).  Áll, lax og djúphafsrækja eru líka mikilvæg.  Danir stunda veiðar í eigin lögsögu og erlendum, þar sem þeir hafa öðlast veiðireynslu í gegnum tíðina og samkvæmt samningum.  Á fjarlægum miðum veiða þeir einkum þorsk, karfa og brisling.

Iðnaður.  Námuvinnsla byggist aðallega á graníti til vegagerðar og húsa og postulínsleir fyrir leirmuna- og pappírsgerð.  Leir er notaður í múrsteina og flísar.  Gúr er notaður til framleiðslu alls konar einangrunar fyrir byggingariðnaðinn og hvítt kalk til sementsframleiðslu.  Stærstu vinnuveitendurnir eru framleiðendur alls konar hluta úr málmum, s.s. vela og tækja, matvælaframleiðendur, pappírs- og grafíkiðnaður og framleiðendur flutningatækja.  Veigamikinn sess skipa líka framleiðendur skófatnaðar, fata, húsgagna og elektrónískra tækja.

Fjármál og viðskipti.  Verzlunarbanki Danmerkur var stofnaður árið 1846.  Verzlunarsparisjóðurinn tók við hlutverki hans árið 1975 og samtímis var erlendum bönkum og fjármálafyrirtækjum veitt leyfi til fullrar starfsemi í landinu.  Öll bankastarfsemi er háð opinberu eftirliti og í stjórnum banka verða ætíð að vera fulltrúar almennings.  Seðlabankinn sér um seðlaútgáfu og er sjálfstæð stofnun undir stjórn ríkistjórnarinnar.  Hagnaður af rekstri hans rennur í ríkissjóð.  Kauphöllin í Kaupmannahöfn var stofnuð árið 1861.

Innflutningur hráefna og eldsneytis jafnaðist fyrrum með útflutningi landbúnaðarafurða auk tekna af vöruflutningum og ferðaþjónustu.  Á síðari hluta 20. aldar breyttist þetta munstur, því að útflutningur ýmiss konar iðnaðarvara jókst stöðugt, s.s. vélar til iðnaðar, elektrónísk tæki og efnavörur.  Fiskur, mjólkurafurðir, kjöt, bjór og skinnavörur eru enn þá mikilvægar útflutingsvörur.  Smám saman hafa unnizt markaðir fyrir innréttingar, leikföng, silfurvörur, leirmuni, vefnaðarvörur, fatnað og aðrar vörur, sem smekkleg hönnun Dana er þekkt fyrir.

Danir urðu meðlimir Efnahagsbandalags Evrópu 1993 (nú Evrópusambandið) vegna viðskiptahagsmuna í Evrópu.  Aðalviðskiptalönd þeirra voru og eru Bretland og Svíþjóð.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM