Valparaíso
er höfuðborg samnefnds héraðs í Mið-Síle við stórar og breiðan
flóa, 140 km norðvestan Santiago.
Borgin er í hlíðum hálfhringlaga strandfjallanna, sem enda á
stórgrýttum Angeles-skaganum.
Hann veitir gott skjól gegn sunnan- og vestanáttum.
Sigurvegarinn Juan de Saavedra stofnaði borgina 1536 og nefndi
hana eftir fæðingarstað sínum á Spáni.
Þar standa fá hús frá nýlendutímanum vegna árása sjóræningja,
fárviðra, eldsvoða og jarðskjálfta.
Mestur hluti borgarinnar var endurbyggður eftir mjög harðan
jarðskjálfta 1906 og mikið tjón varð í jarðskjálftum 1971.
Eftir að Síle fékk sjálfstæði 1818 og einokunarverzlun Spánverja
var aflétt, þróaðist höfnin samhliða stofnun og rekstri sjóhersins
og auknum gufuskipasamgöngum við Evrópu.
Borgin hefur löngum verið meðal stærstu borga landsins en um
miðjan og síðari hluta 20. aldar fjölgaði íbúum hægt og fækkaði
jafnvel um tíma.
Viðskiptahverfi
borgarinnar með hafnarmannvirkjum, vöruhúsum, bönkum og verzlunargötum
er á landfyllingu út í flóann og sömu sögu er að segja um stjórnsýslubyggingar
í kringum Sotomayor-torgið.
Dómkirkjan, garðar, breiðgötur, leikhús, kaffihús og
nokkrar nýlendubyggingar (La Matriz-kirkjan) eru í þessum lægri
hluta borgarinnar.
Herskóli sjóhersins og íbúðahverfi hans eru í bröttum hlíðum
og dölum hæðanna í kring og efst eru fátækrahverfin.
Kapalbrautir, lyftur, tröppur og hlykkjóttar götur liggja á
milli neðri og efri hluta borgarinnar.
Nærliggjandi ferðamannastaður, Vina del Mar, varð smám saman
að einu íbúðarhverfi borgarinnar.
Þing
landsins, sem starfar í tveimur deildum, hefur komið saman í Valparíso
síðan það var stofnað 1990 en engu að síður er borgin fyrst og
fremst miðstöð viðskipta og iðnaðar.
Þar eru málmbræðslur og efnaverksmiðjur, framleiðsla vefnaðarvöru,
sykurs, málningar, fatnaðar, leðurvöru og grænmetisolíu.
Í nágrannabænum Concón er olíuhreinsunarstöð.
Mestur hluti innflutnings landsmanna fer um höfnina í Valparíso.
Þótt aðeins lítill hluti útflutnings landsins fari um höfnina,
er höfnin mjög mikilvæg fyrir samgöngur á sjó og þangað sækir
fjöldi skipa stórra skipafélaga árið um kring.
Valparíso
er miðstöð menningar og setur Tækniháskóla Federico Santa María
(1926), Katólska háskólans (1928) og náttúrugripasafns og
listasafns borgarinnar.
Ríkisjárnbrautirnar
tengja Valparíso við Santiago og allar aðrar mikilvægar borgir og
hafnir frá Pisagua til Puerto Montt.
Góðar hraðbrautir liggja til ferðamannabæjanna í norðri og
suðri og til Santiago.
Önnur hraðbraut liggur yfir Andesfjöllin til Mendoza í Argentínu.
Borgin er einnig tengd innanlandsfluginu.
Áætlaður íbúafjöldi 1995 var tæplega 300 þúsund. |