Páskaeyja
(Isla de Pascua) í Austur-Kyrrahafi er austasti hluti pólinesísku
eyjanna. Hún er kunn fyrir
risavaxnar steinstyttur og er fjarri öðrum eyjum og meginlandi Suður-Ameríku. Pitcaim-eyja er í 1900 km fjarlægð í vestri og Síle rúmlega
3600 km í austri. Eyjar er
þríhyrningslöguð, 23 km löng og 12 km breið, alls 163 km² að
flatarmáli og hæsti tindur hennar er Terevaka (600m).
Innfæddir eyjaskeggjar kalla eyjuna Rapa Nui (Hinn mikli Rapa) eða
Te Pito te Henua (Nafli heimsins).
Fyrstu evrópsku gestir eyjarinnar voru Hollendingar, sem nefndu
hana Páskaeyju eftir komudegi þeirra þangað.
Blandaðir íbúar eyjarinnar eru flestir af pólinesískum
uppruna og búa flestir í þorpinu Hanga Roa við skjólgóða
vesturströndina. Eyjan er
hluti af Valparísohéraði í Síle.
Messy
litla, hæðótta eyja hefur hlaðizt upp við eldgos á sjávarbotni.
Ekkert bendir til þess
að breytingar hafi orðið á sjávarstöðu síðan hún lækkaði síðast
fyrir tæplega 10.000 árum. Útbrunnu
eldfjöllin þrjú eru móbergsfjöll, sem hafa tengzt með hraunflóðum
og myndað þríhyrninginn.
Smágígar
eru víða í veðruðu hraunlandslaginu.
Flest hraunin eru þakin stórum og smáum, holóttum og svörtum
eða ryðrauðum móbergshólum. Líðið
er um ógrýttan jarðveg en hann nýtist til verulegrar ræktunar við
Hanga Roa og Mataveri í suðvesturhlutanum, við Vaihu og á sléttunni
suðvestan eldfjallsins Rano Raraku og á Poike-skaganum austast á
eyjunni, sem var ruddur á forsögulegum tíma.
Vatn safnast í gígvötn Rano Kao, Rano Karaku og Rano Aroi.
Stundum rennur vatn úr Rano Aroi-vatninu niður hlíðar
Terevaka-fjalls og hverfur í greypan jarðveginn.
Vatnsveita Hanga Roa er hið djúpa og tæplega 1 km breiða gígvatn
Rano Kao. Strandlengja
eyjarinnar eru 150-300 m há móbergsþverhnípi sundurskorin af breiðum
hraunum. Hvergi eru náttúruhafnir
en legupláss er utan Hanga Roa við vesturströndina, utan Vinapu og
Hotu-Iti við suðurströndina og Anakena og Bahía la Perouse við norðurströndina.
Stærstu smáeyjarnar í kringum Páskaeyju eru Motu-Nui,
Motu-Iti og Motu-Kaokao við suðvesturskagann.
Eina sandströndin er við Anakena, hinar eru malarstrendur.
Mikið er um hraunhella með fjölda hvelfinga tengdum mjóum gögnum.
Loftslagið
er jaðartrópískt. Heitast
er á tímabilinu janúar til marz (23°C) og kaldast í júní til ágúst
(18°C). Meðalársúrkoman
er 1250 mm. September er þurrasti
mánuðurinn og mest rignir í júní og júlí.
Vindstaða er óregluleg á tímabilinu júní til ágúst en að
örðu leyti ríkja staðvindar úr austri og suðaustri.
Frá september til marz umlykur heitur Perú- eða
Humboltstraumurinn eyjuna (21°C).
Flóra
og fána.
Upprunalegar plöntu- og dýrategundir eru fáar.
Þegar Evrópumenn komu til eyjarinnar, var toromiro-tréð eina
trjátegundin og karólínuúlfaber eina runnategundin.
Aðrar plöntur voru að mestu ýmsar grasategundir.
Tréskurðarmenn eyjarinnar ofnýttu toromiro-tréð og því var
útrýmt á sjötta áratugi 20. aldar.
Norskur fornleifaleiðangur hafði safnað fræju trésins og
plantað þeim í lystigarðinum í Gautaborg og árið 1988 var þeim
komið fyrir aftur á Páskaeyju. Greining
frjóa í jarðvegi eyjarinnar leiddi í ljós, að þar uxu aðrar
tegundir trjáa og runna, þ.m.t. risa-sílepálminn, unz þær eyddust
í miklum eldum eftir að búseta hófst. Nú finnast þar aðeins 31 tegund blómplantna, 14
burknategundir og 14 mosategundir.
Mest er af grasi og smávöxnum burknum í eyðilegu landslaginu
og tvær innfluttar, amerískar tegundir, totorasef (byggingarefni) og
Polygonum acuminatum (lyfjaplanta), þekja umhverfi gígvatnanna.
Fjöldi nytjaplantna var fluttur til eyjarinnar frá Ameríku og
Pólinesíu áður en Evrópumenn komu þangað.
Meðal þeirra var kartaflan, sem var mikið ræktuð og undistaða
í fæðu landsmanna. Innfæddir
fluttu einnig inn grasker, sykurreyr, bananar, taro, jams, asískt pappírsmórberjatré
(börkur notaður til klæðagerðar) og triumfetta semitriloba (amerískt; börkur notaður til kaðalgerðar).
Líklegt má telja, að þeir hafi flutt in smávaxna tegund
ananass og kókospálma.
Fyrir
landnám eyjarinnar voru einu hryggdýrin fiskar og sjófuglar.
Á þurru landi þrifust köngullær, skordýr, ormar, sniglar og
margfætla. Nýlega bættust
við mikill fjöldi flugna, kakalaka og smágerðra sporðdreka.
Áður en Evrópumenn komu til sögunnar voru fluttar inn litlar
og stuttfættar hænur, sem voru sagðar hafa verpt bláum eggjum.
Þær blönduðust síðar evrópskum tegundum.
Evrópskar rottutegundir tóku við af ætum, pólinesískum
rottum. Sauðfé, hestar,
nautgripir og svín komu með trúboðunum, sem komu sér fyrir árið
1864. Fjöldi sauðfjár
var talsverður í heila öld eftir að búskapur var tekinn upp í
atvinnuskyni 1870 en sauðfjárbúskap lauk á miðjum níunda áratugi
20. aldar og nautgripabúskapur var aukinn í staðinn.
Villikattartegund, sem hefst við í hellum, hefur aldrei verið
skilgreind. Eftir 1880 bættust
lyng- og akurhænur og Haukur við fánuna.
Selir og sæskjaldbökur er fáséðar núorðið en fljótakrabbi
og ýmsir fiskistofnar finnast í miklum mæli umhverfis eyjuna.
Íbúarnir.
Upprunaleg tunga eyjaskeggja er týnd að mestu, þótt nokkur orð
hafi fundizt í mállýzku, sem var töluð áður en trúboðar þröngvuðu
hinum fáu íbúunum til að læra og tala tæhítíska mállýzku 1864.
Nú er spænska aðaltungan.
Afkomendur frumbyggjanna eru trúir þeirri hefð, að telja sig
afkomendur annarrar hvorrar ættkvíslar þeirra, langeyringa eða
stutteyringa. Hjónabönd
eru algeng milli þessara hópa og kynblöndun við erlenda
innflytjendur hefur vaxið mjög.
Efnahagslífið.
Afkoma frumbyggjanna byggðist á ræktun kartaflna, hænsnarækt
og strandveiðum en nú er ferðaþjónustan og skyldar greinar aðaltekjulindin. Opnun flugvallar í grennd við Hanga Roa jók streymi ferðamanna
frá miðjum sjöunda áratugnum og nokkur lítil hótel voru byggð í
þorpinu, þar sem margir innfæddir og innflytjendur frá Síle bjóða
heimagistingu. Tengslin við
Síle eru styrkt með áætlunarflugi tvisvar í viku frá Santiago og
byggingu skóla, sjúkrahúsa og íþróttamiðstöðvar.
Þjóðgarðarnir, sem Sílemenn hafa byggt upp og skipulagt vel,
bjóða áhugaverðar ferðir undir handleiðslu heimamanna.
Skógrækt hefur heppnast vel eins og sjá má af öllum tröllatrjánum
við Vaitea og kókospálmunum við Anakena-fjörð.
Sagan.
Hollenzki flotaforinginn Jacob Roggeveen var fyrstur Evrópumanna
til að heimsækja eyjuna í einn dag árið 1722.
Hann og menn hans fundu fólk mismunandi í útliti, sem dýrkaði
stórar steinstyttur með eldi og lagðist flatt á jörðina, þegar sólin
kom upp. Sumir karlmannanna
voru sagðir hvítir, með eyrnasneplana lafandi niður á axlir.
Varakonungur
Spánverja í Perú sendi út leiðangur, sem fann eyjuna á ný 1770.
Spánverjarnir voru fjóra daga á eyjunni og sögðu frá því,
að landsmenn ættu sitt eigið ritmál.
Þeir áætluðu fjölda þeirra í kringum 3000.
Svo
virðist sem stríðsástand hafi ríkt á eyjunni skömmu áður en
brezki sæfarinn James Cook kom þangað 1774.
Þá bjuggu þar 600-700 sárafátækir og illa haldnir pólinesískir
karlar og færri en 30 konur. Þeir sáu líka að stóru steinstyttunum hafði verið velt
um koll. Árið 1786 kom
franski sæfarinn Jean-Francois de Galaup, greifi af Pérouse, og fann
2000 manns á eyjunni. Hann
reyndi án árangurs að færa íbúunum húsdýr til afnota.
Eftir 1792 komu mörg skip til eyjarinnar, þ.á.m. hvalveiðarar.
Um 1860 var Íbúafjöldinn orðinn 3000 en þrælasalar frá Perú
og bólusótt fækkuðu íbúunum í 111 árið 1877.
Í lok 19. aldar fór íbúunum að fjölga á ný.
Eugène Eyraud, franskur trúboði, var fyrsti útlendingurinn,
sem settist að á eyjunni árið 1864. Honum tókst að kristna alla íbúana
fyrir 1868. Innflytjendur
frá Tahítí hófu sauðfjárrækt 1870.
Árið 1888 lögðu Sílemenn eyjuna undir sig og leigðu hana næstum
alla til sauðfjárræktar. Árið
1954 tók sjóher Síle að sér sauðfjárræktina.
Árið 1965 var skipaður borgaralegur landstjóri og íbúarnir
urðu fullgildir borgarar í Síle.
Páskaeyingar aðlöguðu sig að stöðlum og menningu
meginlandsins á einum mannsaldri án þess að glata stolti sínu og
missa sjónar af hefðum og hæfileikum forfeðranna.
Í febrúar ár hvert er ungmennamót, þar sem keppst er um að
endurvekja gamlar listgreinar og hefðir, útskurð, hörundsflúr, sefbátagerð,
dansa og söng.
Fornleifar.
Eyjan er frægust fyrir risasteinstytturnar, sem eru rúmlega 600
talsins, og rústir stórra steinpalla (ahus) með húsagörðum
landmegin, sem eru sumir listilega gerðir.
Fornleifarannsóknir fóru fram árið 1886, 1914 og 1934.
Uppgröftur, sem hófst 1955, leiddi í ljós þrjú greinileg
menningarskeið. Elzta tímabilið, 700-850, einkennist af steinpöllum við
Tahai, Vinapu og Anakena. Cook
skipstjóri lýsti og dáðist að fyrstu tveimur tímaskeiðunum. Veggurinn í Anakena var ekki uppgötvaður fyrr en 1987 og
frekari uppgröftur þar sýndi, að margar mismunandi styttur voru mótaðar
á fyrsta skeiðinu, þ.á.m. fyrirmyndir margra frá miðskeiðinu, sem
eru ólíkar hinum fyrri vegna kúlulagaðs höfuðs to stutts skrokks.
Önnur gerð höggmynda sýnir krjúpandi mann með rasskinnarnar
hvílandi á hælunum og hendur á hnjám í líkingu við styttur frá
Tiahuanaco í Suður-Ameríku, sem eru frá tímanum áður en inkar
komu til sögunnar. Á miðskeiðinu, 1050-1680, voru styttur eyðilagðar og
kastað á glæ og allir steinpallarnir voru endurbyggðir án tillits
til stöðu sólar og hagleiks í steinsmíði.
Aðaltilgangurinn virðist hafa verið að byggja upp nógu
traustar undirstöður fyrir sístækkandi brjóstmyndir, sem voru
einkenni (moai) miðskeiðsins.
Á
miðskeiðinu var grafhýsum komið fyrir í steinpöllunum.
Stytturnar urðu sífellt stærri og hærri og toppi úr rauðu móbergi
var bætt ofan á þær (pukao). Flestar
styttur frá þessu tímabili eru 3-6 m háar.
Stærsta styttan á steinpalli var tæplega 10 m há, úr einum
steini, sem vó 82 tonn með 11 tonna toppstykki.
Stærsta styttan, sem stendur enn þá, er tæplega 11 m há.
Hún stendur hálfgrafin í set fyrir neðan námurnar.
Stærsta ófullgerða styttan, sem er enn þá áföst klettunum
í námunum, er tæplega 21 m há.
Kenningar, sem byggjast á fornleifafræðinni, eru uppi um, að
stytturnar tákni stórmenni, sem voru tekin í guðatölu að þeim látnum.
Stytturnar
á miðskeiðinu voru allar höggnar út úr sérstöku, gulu móbergi
í hlíðum Rano Raraku-gígsins. Innan og utan gígskálarinnar er fjöldi ófullgerðra
styttna og þúsundir ófullkominna steinmeitla liggja þar vítt og
breitt eins og steinsmiðirnir hafi orðið fyrir óvæntri truflun. Ófullgerðu stytturnar sýna, að forhliðar þeirra voru
tilbúnar til slípunar áður en þær voru losaðar frá berginu.
Síðan var styttunum rennt niður hlíðina og stillt upp þar
til að hægt væri að ljúka við bakhlið þeirra áður en þær
voru fluttar á steinpalla sína. Augnatóftir
og höfuðstykki þeirra voru unnin eftir að þær voru reistar upp á
þeim. Rannsóknir hafa
leitt í ljós, að hvítur kórall var lagður í augnatóftirnar og
ofan á þær svartir, kringlóttir steindiskar sem augasteinar.
Á hverjum steinpalli átti að standa ein til tólf styttur í röð
og allar snéru þær andlitunum inn að miðju eyjarinnar.
Tilraunir,
sem voru gerðar á árunum 1955-56, leiddu í ljós, að blágrýtismeitlarnir,
sem voru skildir eftir í námunum, voru nægilega harðir til að vinna
á móberginu. Einnig kom
í ljós, að 12 eyjarskeggjar gátu reist 25 tonna styttu 3 m frá jörðu
og komið henni fyrir á steinpalli.
Verkið tók 18 daga án nokkurra annarra verkfæra en tveggja
trjástofna, sem voru notaðir til að vega hana upp.
Steinum af öllum stærðum var komið fyrir undir styttunni
eftir því sem henni var lyft hærra. Samkvæmt þjóðsögunni áttu stytturnar að hafa gengið
sjálfar á sína staði en í tilrauninni drógu 180 eyjarskeggjar miðlungsstóra
styttu frá námunum til áfangastaðarins.
Önnur tilraun var gerð 1986 og þá kom í ljós, að 15 menn gátu
flutt sams konar styttu í uppréttri stellingu með köðlum einum
saman.
Brjóstmyndir
frá miðskeiðinu þróuðust greinilega frá innlendri fyrirmynd og
eiga sér enga hliðstæður annars staðar.
Annað einkenni miðskeiðsins var fuglaátrúnaður, sem fuglamaður
var í forystu fyrir og hann hélt áfram á þriðja skeiði.
Miðstöð trúarathafnanna var í Orongo-þorpinu á toppi Rano
Kao, þar sem voru steinhús með hvelfdum þökum.
Þau og hringlaga íbúðarhús með inngangi í gegnum þökin
eru einkennandi fyrir miðskeiðið.
Þau voru óþekkt annars staðar í Pólinesíu en fundust á næstliggjandi
svæðum í Suður-Ameríku.
Hefðbundin
menning. Á þriðja skeiði
bjuggu íbúarnir í bátslaga húsum, þöktum strámottum eða dúk. Á þessum tíma geisuðu stríð milli hinna andstæðu
fylkinga með eyðilegginu og menningarlegri hnignun.
Mest áberandi hlutir, sem innfæddir smíðuðu á þessu skeiði
er „mataa”, spjótsoddar úr hrafntinnu.
Tréskurður og litlar, grófgerðar styttur tóku við af stóru
minnismerkjunum. Áritaðar
trétöflur með útskornum merkjum (rongo-rongo) í röðum frá hægri
til vinstri og öfugt á sama hátt og gömul, grísk skrift voru
endurritaðar til trúarathafna. Þýðing þeirra var gleymd og ekki hefur tekizt að lesa úr
þeim enn þá, þrátt fyrir fullyrðingar um hið gagnstæða.
Verðmætir listmunir voru faldir í leynilegum fjölskylduhellum
á sama tíma og ahu-styttunum var velt um koll.
Páskaeyja
var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1995. |