Rangún meira Myanmar,
Flag of Burma


RANGÚN
SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Á miðjum pagódupallinum (275x208 m) rís hin risavaxna, bjöllulaga pagóda, sem er þakin 8688 gull-plötum og hefur 413 m ummál.  Hún teygist upp í mót með tólf stöllum og endar í grannri spíru, sem er prýdd skermi í 112 m hæð.  Mindon Min konungur gaf skerminn, er hann kvæntist árið 1871.  Hann er 4 m í þvermál og er úr gulli og járni.  Á honum hanga 1500 silfurbjöllur.  Þýður ómur þeirra berst víða á kyrrum kvöldum.  Auk bjallanna er skermurinn skreyttur 5488 demöntum, rúmlega 2000 smarögðum, rúbínum og öðrum eðalsteinum.  Allt umhverfis grunn pagódunnar og vítt og breitt um pallinn er fjöldi minni pagóda (68), kapellna (Tazoung) og annarra bænastaða auk gífurlegs fjölda af búddalíkneskjum og annarra glæsilegra myndverka, stórra og smárra innan um pálma og heilög banyantré.

Hér eiga hinar ýmsu þjóðir og aðrir hópar innan búddaheimsins sérstaka helgidóma.  Skreytingarnar eru gyllingar og skærlitar myndir með speglum og marglitu gleri.  Tréskurðarmyndirnar eru stórkostlegar.  Bjöllur af öllum stærðum hanga á grindum.  Singu Min konungur (1776-1782) gaf hina 16 tonna þungu Mahaghantabjöllu árið 1778.  Bretar hugðust taka hana sem herfang og flytja hana til Kalkútta í fyrra Búrmastríðinu.  Í flutningnum rann hún út í Rangúnána. Bretar gáfust upp við að ná henni aftur á þurrt og létu landsmönnum það eftir.  Þeir náðu henni upp með bambusstöngum og komu henni fyrir á sínum stað aftur.  Hin 40 tonna Maha-Tisadda-Ghanta-bjalla (1841) var gjöf frá Tharrawaddy konungi (1837-1846).  Hún er talin búa yfir undrakrafti.  Sé slegið létt á hana með litlum bjöllukólfi munu leyndar óskir rætast.

Það býr helgi og tign yfir þessum bæna- og helgistað, þótt gestum komi hann spánskt fyrir sjónir, þegar litið er yfir sviðið.  Þarna ægir saman aragrúa fólks á gangi eða krjúpandi fyrir framan ölturu, færandi fórnir eða standandi í þögulli íhugun.  Áhrifaríkast er að heimsækja þennan stað að kvöldi til eða þegar haldnar eru hátíðir.  Ofan af pallinum er gott útsýni yfir borgina, einkum af honum suðvestanverðum.  Í skóglendinu umhverfis hana glittir í litlu hvítu húsin á milli trjánna.

Ferðamenn nota síður aðgangana að pagódunni austanverðri (118 þrep; fjölbreyttur basar), norðanverðri (120 þrep; fallegt útsýni upp að helgidómnum) og vestanverðri (175 þrep; endurbyggður 1931 eftir bruna í sviplausari, klassískum stíl).

*Sule-pagódan (48m; ríkulega gullskreytt) stendur í nokkurra gangmínútna fjarlægð frá Strandhótelinu.  Hún stendur á áttstrendum grunni að hætti mon.  Kúpull hennar er fagur og endar í grannri spíru og umhverfis hana standa ýmiss konar kapellur og höggmyndir.  Sagt er að búrm-anskur ráðherra hafi látið reisa hana fyrir 2250 árum og helgað hana hinum mannelska Suleanda. Líkt og í svo mörgum öðrum pagódum eru varðveitt hár af höfði Búdda í henni.  Þessi pagóda er mjög fallegur og rólegur staður í iðu miðborgarinnar.

Þjóðminjasafnið (Pansondan) er við fyrrum Phayre-ötu.  Þar eru m.a. Mandalayinnsiglin, sem síðustu tveir konungar landsins notuðu.  Bretar höfðu tekið þau í sínar hendur en létu Ne Win hershöfðingja fá þau aftur sem tákn um góðvilja milli landanna árið 1964.

Umhverfi Rangún
Kaba-Aye-pagódan
(tileinkuð heimsfriði) er u.þ.b. 12 km norðan borgarinnar.  U Nu for-sætisráðherra lét reisa hana.  Hún var samkomustaður sjötta búddaráðsins (1954-65) í tilefni 2500. endurtekningar hugljómunar Búdda.  Rétt hjá pagódunni er hinn stóri Maha-Pasana- eða Chatta-Sangayana-hellir (Heilagi hellirinn), sem búrmanskir arkitektar hönnuðu og byggðu fyrir samkomur búddaráðsins.  Þarna voru búddakeðjusöngvarnir sungnir og endurtúlkaðir að hluta.  Í húsi nærri hellinum er hinn alþjóðlegi búddaskóli.

Mae-La-Mupagódan er 13 km norðaustan borgarinnar í útjaðri stórra akra.  Hún var skírð í höfuð konunnar, sem stofnaði hana og er sögð hafa fæðst undir Mae-La-Mu-tré.  Hún varð drottn-ing eins konunganna í Rangún og lét byggja pagóduna til minningar um eitt barnabarna sinna, sem dó á barnsaldri.  Kringum aðalpagóduna eru fallegar höggmyndir, sem sýna líf Búdda.  Ekki var hirt um viðhald pagódunnar fram undir hin síðustu ár, þar til Mae-La-Mu birtist konu í Rangún í draumi og fól henni að endurbyggja og viðhalda pagódunni.

Auk pagóda og skrína í og umhverfis borgina er þar einnig að finna klaustur og bústaði ein-setumanna, sem gestir víða að geta fengið að búa í um hríð til að stunda íhugun og lifa rólegu lífi.  Það eru líka mörg hindúahof og helgidómar annarra trúarbragða, moskur, kínversk hof, samkunduhús gyðinga og kirkjur.  Þessi deigla helgidóma er augljóst dæmi um umburðarlyndið, sem ríkir í trúmálum í landinu.

Brönugrasagarðurinn í Mingaladon (2 ha) er 16 km norðan borgarinnar.  Þar vaxa þúsundir tegunda brönugrasa (orkídea), innlend, erlend og blendingar.  Herinn annast umhirðu garðsins, sem er hluti 50 km² þjóðgarðs.

Kyaikpunpagódan við veginn frá Rangún til Pegu er vinsæll útivistarstaður.  Dhamazedi konungur (1472-1493) byggði hana árið 1476.  Þar eru stórar höggmyndir af Búdda og þremur forverum hans úr stórum múrsteinum.  Þær eru 30 m háar og styðjast við hornsúlur.  Sú þeirra, sem snýr til vesturs, skemmdist í jarðskjálfta árið 1930.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM