Sofía,
Serdica eða Sardica í fornöld, er höfuðborg Búlgaríu í samnefndu
héraði. Hún stendur á
sléttu við rætur Balkanfjalla í vesturhluta landsins.
Hún er stærsta borgin og miðstöð viðskipta, iðnaðar,
samgangna og menningar. Iðnaður
borgarinnar byggist aðallega á framleiðslu málma, timburvöru, gúmmívöru,
vélbúnaðar, efnavöru, elektrónískra tækja og samgöngutækja,
matvöru, vefnaðarvöru, fatnaðar, skófatnaðar og batíkvöru. Ferðaþjónustan verður æ mikilvægari tekjulind
borgarinnar.
Sofíuháskóli
var stofnaður 1888. Meðal annarra æðri menntastofnana eru tækniskólar, iðnskólar,
listaskólar, Búlgarska vísindaakademían (1869), Læknaakademían
(1972), Tónlistarskóli ríkisins (1904) og Cyril og Methodius-þjóðarbókhlaðan.
Meðal hinna mörgu og áhugaverðu safna borgarinnar eru Náttúrugripasafn
ríkisins, Forngripasafnið, Þjóðlistasafnið, Mannfræðisafnið, Sögusafn
Sofíu og Byltingarminjasafnið. Meðal
sögulegra bygginga eru kapella hl. Georgs (var áður rómverskt baðhús),
sem er elzta hús borgarinnar, rústir kirkju hl. Sofíu (6. öld), Dómkirkja
Alexanders Nevskys (s.hl. 19. aldar) og Buyuk Dzhamiya-moskan (15. öld).
Skammt
frá núverandi borgarstæði var byggð þrakverja, sem Rómverjar lögðu
undir sig í kiringum árið 29 f.Kr.
Snemma á 2. öld e.Kr. var byggðin víggirt á dögum
Trajanusar keisara og hét þá Serdica.
Húnar rændu og eyddu byggðinni í kringum árið 447 og
endurbygging fór fram á 6. öld, þegar þetta landsvæði tilheyrði
býzanska keisaranum Justinian I. Árið
809 lögðu Búlgarar það undir sig og nefndu það Sredets en það
varð aftur býzantískt á árunum 1018-1185, þegar annað búlgarska
ríkið var stofnað. Ottómanar
náðu völdum árið 1382 og um svipað leyti var nafnið Sofía tekið
upp eftir 6. aldar kirkjunni. Árið
1878 losnuðu Búlgarar undan veldi Ottómana og fengu sjálfstæði.
Næsta ár varð Sofía að höfuðborg landsins.
Í síðari heimsstyrjöldinni varð borgin illa úti en var að
mestu endurbyggð eftir 1975. Áætlaður
íbúafjöldi árið 1990 var tæplega 1,2 miljónir. |