Stærsta á
landsins er Dóná, sem safnar á leið sinni þveránum
Iskar (370 km) og Yantra (290 km). Aðrar stórar ár eru Kamchiya (180
km), sem fellur til Svartahafs, og Struma og Mesta í suðvesturhlutanum,
sem renna til Eyjahafs.
Loftslagið.
Mestur hluti íbúanna býr við meginlandsloftslag, kalda vetur og heit
sumur. Loftslagið er nokkuð harðara en í öðrum Evrópulöndum á svipaðri
breiddargráðu og meðalárshitinn er ívið hærri. Miklir þurrkar, frost,
vindur og haglél eyðileggja stundum uppskerur. Í dalnum í
suðvesturhluta Rhodope-fjalla ríkir Miðjarðarhafsloftslag með þurrum
sumrum og mildum og rökum vetrum. Meðalárshiti í landinu er um 12,8°C.
Meðalársúrkoma u.þ.b. 635 mm, minnst 193 mm í norðausturhlutanum og mest
1905 mm í Rilafjöllum. Úrkomusamasti tíminn er snemmsumars víðast um
landið og á haustin í suðurdölunum.
Náttúruauðæfi.
Náttúruauðlindir landsins liggja að mestu í landbúnaði, járngrýti og
kolum. Aðrar auðlindir eru minni en sumar verðmætar, s.s. magnesíum og
olía.
Gróður
og dýralíf.
Skógar þekja u.þ.b. þriðjung landsins og helmingur hans er hávaxinn og
tilvalinn til skógarhöggs. Hávaxin barrtré eru u.þ.b. 30% þessa
helmings. Í Balkanfjöllum vaxa margar tegundir trjáa. Barrtré, beyki
og eik vaxa á skógarhöggssvæðunum í Rhodope-fjöllum og vesturörmum
þeirra. Villt dýr, birnir, úlfar, elgir, refir og villikettir, finnast
aðeins í fjalllendinu í suðvesturhlutanum.
Jarðvegur
er mismunandi eftir landshlutum. Sumar sléttur eru þaktar frjósömum,
dökkum og gráum jarðvegi, sem er moldarríkur og tilvalinn til kornræktar.
Þrakneska sléttan er þakin brúnum og leirkenndum, frjósömum jarðvegi,
sem er nýttur til margs konar ræktunar. Skóga- og jarðvegseyðing hefur
leitt til hægfara ófrjósemi nokkurra svæða.
Íbúarnir.
Nálægt 85% íbúanna eru skilgreind sem Búlgarar og 9% Tyrkir, sem hafa
orðið fyrir miklum kynþáttafordómum. Meðal íbúanna eru einnig smáhópar
Armena, sígauna, Grikkja og slavar frá Makedóníu. Búlgarar fóru að
flykkjast til borganna að síðari heimsstyrjöldinni lokinni, þannig að
árið 1990 voru 68% þeirra borgarbúar. Íbúafjöldinn 1995 var 8.887.000
en við manntal árið 1985 töldust þeir 8,950.000. Fækkunin er talin hafa
stafað af flótta Tyrja úr landi vegna ofsókna ríkisstjórnar landsins
síðla á níunda áratugnum.
Stjórnsýsla og borgir.
Landinu er skipt í 8 stjórnsýslusvæði, höfuðborgina Sofíu (12 hverfi) og
rúmlega 4000 þorp og sveitarfélög (obshtinas). Sofía er stæsta borgin
(1,141 miljón 1990). Aðrar stórar borgir eru iðnaðarborgin Plovdiv og
aðalhafnarborgin Varna.
Tungumál og trúarbrögð.
Opinber tunga íbúanna er búlgarska, sem 90% þeirra tala.
Kommúnistastjórnir landsins héldu uppi trúleysisáróðri í rúmlega 40 ár
og ofsóttu trúfélög. Árið 1980 voru 65% þjóðarinnar talin til
trúleysingja. Búlgarska rétttrúnaðarkirkjan, sem er kvísl
Austurkirkjunnar, hélt 27% fylgi íbúanna á kommúnistaárunum. Umbætur á
síðari hluta 9. áratugar 20. aldar fólust m.a. í afnámi
trúleysisstefnunnar og snemma á 10. áratugnum voru 90% þjóðarinnar
kominn á lista rétttrúnaðarkirkjunnar. Meðal annarra trúfélaga eru
múslimar, rómversk-katólskir, mótmælendur og gyðingar.
Menntun
og menning.
Á miðöldum, einkum á 10. og 11. öld, var Búlgaría miðstöð slavneskrar
menningar. Öldum saman varð búlgörsk menning fyrir áhrifum frá
Býsantíum, Grikkjum, Rússum og vestrænum menningarsvæðum. Búlgarskar
bókmenntir eru mikilvægt menningarsvið.
Menntun.
Allir skólar í landinu eru fríir og ríkisreknir og byggðir á sovézka
kerfinu. Aðalmarkmið skólakerfisins er að mennta verkamenn til starfa í
þungaiðnaði en ekki er lögð mikil áherzla á menntun á þjónustusviðum. Skólaskylda
hefst við 6 ára og lýkur við 16 ára aldur. Snemma á tíunda áratugi 20.
aldar var rúmlega ein miljón nemenda í barnaskólum og u.þ.b. 263 þúsund
í framhaldsskólum, iðnskólum eða kennaraskólum. Í landinu eru 30 æðri
menntastofnanir, Sofíuháskóli og aðrar. Á sama tíma og ofar getur voru
151.590 stúdentar við nám.
Söfn.
Stór bókasöfn í Sofíu: Miðbókasafn Búlgörsku vísindaakademíunnar,
Háskólabókasafnið og Cyril og Meþódíus þjóðarbókhlaðan. Ivan Vazov
þjóðarbókhlaðan er í Plovdiv. Önnur smærri almenningsbókasöfn eru vítt
og breitt um landið.
Í
landinu eru rúmlega 200 söfn. Í Sofíu er Grasa- og dýrasafn
og garðar. Þar er Forngripasafnið með margs konar minjum (myntsafn;
minjar frá grafhaugum) og Mannfræðisafnið. Önnur söfn landsins eru
helguð sögu, vísindum og byltingarhreyfingunni.
Listalíf.
Þrettándu aldar freskur í Boyana-kirkjunni í grennd við Sofíu eru frábær
dæmi um myndlist á þessum tíma. Búlgarskt handverk nær til
íburðarmikilla skartgripa og útsaums. Fagrar höggmyndir, útskurður,
ætimyndir og málverk byggjast á hefðbundinni menningu. Meðal frægra
listamanna landsins eru Peter Morozov (ætimyndir), Vladimir Dimitrov (listmálari)
og myndhöggvararnir Ivan Lazarov og Christo. Hinn síðastnefndi er
framúrstefnulistamaður, sem hefur komizt í sviðsljósið fyrir að pakka
inn stórum byggingum og landslagi. Hann býr í Bandaríkjunum. Helztu
minnismerki byggingarlistar landsins eru miðaldakirkjur og klaustur.
Hið elzta þeirra er hringlaga kirkja heilags Georgs í Sofíu, sem var
upprunalega heiðið hof. Rilaklaustrið, stofnað á 9. öld, er ægifagurt í
fjallasalnum, sem umkringir það. Elleftu aldar klaustrið Bachkovo
sunnan Plovdiv er heimsóknar virði. Margir legggja leið sína í
nútímakirkjuna Alexander Nevsky í Sofíu.
Tónlist.
Hefðbundin, búlgörsk tónlist nær til þjóðsöngvar og kórverka í grískum
stíl, sem eru notaðir við guðþjónustu. Gaida er sekkjapípa og kaval er
tréflauta. Hefðbundnir þjóðdansar eru afsprengi hora-dansins, sem er
hringkeðjudans, og ruchenitsa, sem er fjörugur tveggjaparadans.
Búlgörsk tónverk hafa stundum náð alþjóðlegri hylli. Meðal helztu
tónskálda landsins má nefna petko Stainov og Pancho Vladigerov. |