Brunei skoðunarvert,
Flag of Brunei

[Flag of the United Kingdom]


BRUNEI
SKOÐUNARVERÐIR  STAÐIR og AFÞREYING

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Bandar Seri Begawan Höfuðborgin hét áður Brunei Town (íb. 55.000).  Hún er 15 km frá mynni Bruneiárinnar (Sungai Brunei), sem fellur í Suður-Kínahafið, og teygist til austurs og norðausturs frá hinni fögru mosku Omar-Ali-Safuddin.

Sunnar og neðan við moskuna er hinn eiginlegi gamli borgarkjarni, *Kampong Ayer (frá 16.öld að hluta).  Þar eru falleg staurahús úti í Bruneiánni og þveránni Sungai Kedayan.  Mjóir timburstígar tengja þau innbyrðis og við land.  Þar ferðast fólk um á bátum og það er gaman að sigla um þetta völundarhús og heimsækja grafhýsi soldánanna á norðurbakkanum í leiðinni.

Vegna þess, hve borgarstæðið er lítið, er auðvelt fyrir gesti að skoða það á eigin spýtur.  Það er rósemdarblær yfir borginni, enginn stórborgarasi eins og í öðrum borgum Suðaustur-Asíu (Singapúr, Hongkong, Kuala Lumpur, Bangkok).

Helztu skoðunarstaðir þessarar nútímaborgar eru *Omar-Ali-Sufuddin-moskan, Mahaligal-steinbáturinn heilagi aðeins vestar, Trúarmálaráðuneytið aðeins norðan moskunnar, Ríkisbókasafnið og þinghúsið (löggjafaráðið og þingið).  Minningarsafn Sir Winston Churchill er u.þ.b. 200 m norðaustan þinghússins.  Þar er safn um brezka nýlendutímann í Sa-Asíu.  Við hliðina á safninu er sædýrasafnið Sultan Hassanal Bolkiah.

Bruneisafnið er 7 km suðaustan borgarinnar (Jalan Kota Batu).  Þar er bæði safn um þjóðlíf og náttúru, kínverska leirmunagerð og jarðolíu.

*Istana Nurul Iman, hin risastóra og íburðarmikla soldánshöll, er á áberandi hæð yfir Brunei-ánni suðvestan borgarinnar.  Hún er stærsta höll, sem búið er í nú á dögum, 1788 herbergi.  Meðal efna, sem notuð voru við byggingu hennar, var ítalskur marmari, mahóní frá Filipseyjum, ónix frá Marokkó og 22 karata gull.  Í krýningarsalnum hanga 12 kristalljósakrónur, sem vega 2 tonn hver um sig.  Höllin er venjulega lokuð ferðamönnum, en það er hægt að fá sérstök leyfi og fylgd hjá ferðamálaráðuneytinu og Ferðamálaráðinu.

U.þ.b. 100 km suðvestan höfuðborgarinnar eru bæirnir Seria (20.000 íb.) og  Kuala Belait (38.000 íb.) umkringdir olíudælum, sem pumpa dag og nótt.  Þeir eru miðstöð olíuvinnslu landsins.

Bátsferðir á ánum Brunei og Tutong eru skemmtilegar.  Það er upplagt að skoða eitthvert hinna fáu langhúsa ibanfólksins, sem eftir eru í landinu, þegar siglt er um árnar. 
Langhús hinna innfæddu dayaka (iban er undirkvísl) eru athyglisverðustu byggingarnar á Borneó.  Þau eru allt að 100 m löng hús á staurum og þar búa margar fjölskyldur.   Skemmtilegt er að skoða upprunaleg þorp og sigla lengra upp árnar til þess.  Siglingin upp árnar er upplifun í sjálfu sér.  Hraðskreiðir bátar, „tampans", eða minni bátar með utanborðsmótor sigla um árnar.  Þegar langhús er heimsótt, er um að gera að hafa nægan tíma og taka með sér gjafir til íbúanna.  Þeir kunna bezt að meta áfengi og tóbak og í stað sætinda fyrir börnin er betra að gefa þeim eitthvað nýtilegt eins og blýanta og stílabækur fyrir skólanámið eða eitthvað sérstakt frá heimalandi gestanna.  Fyrst er beðið um tuai rumah (höfðingjann), sem býður gesti velkomna og býður þeim jafnvel gistingu og mat.  Það er allt í lagi að gauka smápeningaupphæðum að höfðingjanum fyrir hönd fólksins fyrir gestrisnina.  Sé gist hjá innfæddum er nauðsynlegt að hafa vasaljós, flugnanet, flugnafælandi efni og sjúkrakassa (nóg af aspiríni og panodil og imodium) í farteskinu.

Temburong, austurhluti Brunei, er fallegt náttúruverndarsvæði.  Stærsta borgin þar er  Bangar.  Milli hennar og Bandar Seri Begawan er 1½ tíma bátsferð, sem þarf að bóka með fyrirvara.


AFÞREYING
Næturlíf Í þessu islamska ríki er lítið um næturlíf.  Í Mallet Lounge í Sheraton Utama hótelinu kom fram hljómsveitir við og við.   Lifandi tónlist er einungis leikin þar og í einkaklúbbum olíufyrirtækjanna og brezku hermannanna.  Kvikmyndahúsin sýna aðallega kínverskar stríðsmyndir eða (ritskoðaðar) malæískar ástarmyndir.

Íþróttir Knattspyrna, ruðningsbolti, golf og siglingar eru vinsælustur íþróttirnar í Brunei.  Við strönd S-Kínahafsins eru fallegar baðstrendur.  Áhugafólk um köfun getur leigt sér útbúnað í höfuðborginni eða Kuala Belait.  Fólk, sem vill komast í einhvers konar afþreyingu eða íþróttir, ætti að snúa sér til Royal Brunei siglingaklúbbsins í höfuðborginni eða Brunei Shell Petroleum í Seria.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM