Brasilía stjórnsýslan,
Flag of Brazil


BRASILÍA
STJÓRNSÝSLAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Stjórnskipan Brasilíu byggist á 26 fylkjum og einu sambandsfylki.  Stjórnarskrá var samþykkt 17. ágúst 1969, þegar landið var undir herstjórn.  Hún gekk í gildi 1985, þegar borgaraleg stjórn var kominn til valda.  Nokkrar breytingar voru gerðar á henni og stjórnarskrárnefnd var sett á laggirnar.  Ný stjórnarskrá var samþykkt 5. október 1988, hin áttunda í röðinni síðan landið fékk sjálfstæði 1822.  Hún var niðurstaða 559 manna stjórnarskrárnefndarinnar, sem afnam með henni mörg spor herstjórnarinnar.  Í henni er kveðið á um réttindi borgaranna og skyldur framkvæmda-, löggjafar- og dómsvaldsins.  Vald forseta landsins til lagasetningar, ritskoðun bókmennta og lista, pyntingar og útlegðardómar vegna pólitískra skoðana voru afnumdir.  Kosningaaldur var lækkaður úr 18 í 16 ár og undirbúningur forsetakosninga í nóvember 1989 hófst.

Samkvæmt stjórnarskránni fer þjóðþingið með löggjafarvaldið.  Þingið skiptist í fulltrúa- og öldungadeildir.  Það starfar í tveimur lotum á ári, 4½ mánuð í senn.  Stjórnarskráin gefur þinginu vald til að hlutast til um öll mál, sem varða sambandslýðveldið í heild, einkum hvað varðar stjórnmál og stjórnun sambandlýðveldisins og fjármálastefnu þess.  Þingið annast milliríkjasamninga, sker úr um afskipti alríkisstjórnarinnar af málefnum fylkjanna og felur forseta landsins að lýsa yfir stríði, sé þess þörf.  Framkvæmdavaldið getur neitað að fara eftir frumvörpum, sem þingið samþykkir, hvort sem er að hluta til eða að öllu leyti.  Þá hefur þingið 30 daga frest til að hnekkja neituninni með atkvæðum meirihluta þingmanna.

Í fulltrúadeildinni eiga öll fylkin fulltrúa, sem eru kjörnir á fjögurra ára fresti í almennum, leynilegum kosningum.  Fjöldi þeirra er í hlutfalli við íbúafjölda fylkjanna en ekkert þeirra getur fengið fleiri en 70 eða færri en 8 fulltrúa.

Sambandsstjórnin er setin fullrúum fylkjanna (3 frá hverju fylki), sem starfa í 8 ár.  Öldungadeildin er endurnýjuð á fjögurra ára fresti, fyrst þriðjungur og síðan rest að öðrum fjórum árum liðnum.  Þingmenn öldungadeildarinnar eru kjörnir í almennum kosningum.


Framkvæmdavaldið er í höndum forseta og forsætisráðherra.  Á árunum 1945-64 var forsetinn kjörinn til 5 ára í almennum kosningum.  Eftir að herstjórnin tók völdin voru forsetinn og varaforsetinn kjörnir í óbeinum kosningum þingsins og síðar annaðist kjörnefnd þingsins og fulltrúar fylkisþinga skipun þeirra.  Kjörtímabil forseta landsins var lengt í sex ár 1977.  Þegar borgaraleg stjórn var við völd voru beinar, almennar kosningar teknar upp á ný, kjörtímabilið stytt aftur í 4 ár og frekari endurbætur voru gerðar á stjórnmálasviðinu.  Árið 1988 var kjörtímabil forseta aftur lengt í 5 ár.

Framkvæmdavaldið er talsvert mikið, einkum á sviðum efnahags-, utanríkis-, fjár og öryggismála innanlands.  Það getur krafizt þess, að þingið afgreiði frumvörp innan 30 daga.  Verði þingið ekki við þeim tilmælum, er litið svo á, að frumvarpið sé samþykkt og orðið að lögum.  Forsetaráð er forseta landsins til halds og trausts.  Í því eru ráðherrar ríkisins og æðstu embættismenn, sem framkvæmdavaldið skipar í stöður.


Dómsvaldið skiptist í nokkrar deildir.  Hæstiréttur er skipaður 11 dómurum, sem forsetinn skipar og öldungadeildin samþykkir.  Hann annast mál, sem rísa milli erlendra ríkja og stofnana fylkjasambandsins og misklíðarefni milli stjórnmála- og stjórnunarlegra stofnana innanlands.  Rétturinn fer líka með mál, sem rísa vegna aðgerða eða aðgerðarleysis stjórnvalda og annast áfrýjunarmál frá lægri dómstigum.  Hann er líka stjórnarskrárréttur, sem sker úr um lögmæti lagasetninga gagnvart stjórnarskránni.  Gerist forsetinn eða ráðherrar brotlegir við lög, kemur til kasta þingsins og hæstaréttar að fjalla um málin.

Hæstiréttur sambandslýðveldisins er setinn 33 dómurum, sem forseti landsins skipar með samþykki öldungadeildarinnar.  Hann fjallar um mál tengd landstjórum fylkjanna og fulltrúum dómskerfisins.  Hann tekur líka fyrir mál, sem fjalla um misbeitingu löggjafa-, dóms- og framkvæmdavalds.  Hann getur tekið mál upp á ný, sé álitið, að mistök hafi átt sér stað, en slíkt var fyrrum í höndum áfrýjunarréttar.  Samkvæmt stjórnarskránni frá 1988 starfar áfrýjunarrétturinn á sviði almennra dómsmála.  Hvert fylki eða hérað er sérstakt dómssvæði.  Dómarar sambandsríkisins í þeim dæma í pólitískum málum, í málum, sem varða brot gegn verkalýðsfélögum eða verkfallsbrot og brotum gegn opinberum stofnunum.  Kosningadómstólar eru ábyrgir fyrir skráningu stjórnmálaflokka og eftirliti með fjármálum þeirra.  Þeir ákveða líka dagsetningar kosninga og dæma í öllum málum tengdum kosningum.  Launþegadómstólar fjalla um ágreining milli launþega og vinnuveitenda.  Herdómstólar og dómarar þeirra annast mál, sem tengjast hernum.

Fylkjunum og héruðunum er skipt í sveitarfélög.  Sveitarfélögin eru sjálfstæðar sjórnsýslueingingar sé Íbúafjöldinn yfir ákveðnu lágmarki og þau annist sína eigin tekjuöflun.  Þeim er stjórnað af sveitarstjórnum, borgarstjórnum og borgarstjórum (prefeitos), sem eru kosnir í beinum kosningum.  Sambandsfylkið Brasilía er höfuðborg sambandsríkisins.  Forseti landsins skipar borgarstjóra hennar með samþykki öldungadeildarinnar.

Hvert fylki hefur sín eigin lög og stjórnarskrá, sem falla innan ramma stjórnarskrár sambandsríkisins.  Sambandsstjórnin getur haft afskipti af innri málefnum fylkjanna í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar.  Hvert fylki hefur landstjóra og þingmenn, sem eru kosnir í almennum kosningum.

Núverandi kerfi stjórnmálaflokka fór að myndast á fimmta áratugi 20. aldar í stjórnartíð Getúlio Domeles Vargas, forseta, sem stofnaði flokk sósíaldemókrata og brasilíska verkamannaflokkinn til að verja veika stjórn sína áföllum.  Fjöldi annarra flokka var stofnaður á sjötta og sjöunda áratugnum en fæstum þeirra óx fiskur um hrygg.  Herstjórnin, sem komst til valda 1964, bannaði alla stjórnmálaflokka árið eftir.  Í stað þeirra kom einn ríkisstjórnarflokkur, Þjóðlega endurnýjunarsambandið, og stjórnarandstöðuflokkurinn, Brasilíska demókratahreyfingin.  Árið 1979 voru þessir tveir flokkar lagðir niður í stað nýs kerfis, sem leyfði fleiri flokkum að starfa með ströngum skilyrðum.  Eftir að borgaraleg stjórn tók við fengu allir stjórnmálaflokkar að starfa samkvæmt lögum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM