Brasilía samgöngur,
Flag of Brazil


BRASILÍA
SAMGÖNGUR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Þróun samgangna í þessu stóra landi er geysilega mikilvæg.  Héruð og svæði landsins voru tiltölulega einangruð á sögulegum tímum þar til eftir síðari heimsstyrjöldina.  Þá var bætt úr flugsamgöngum og síðan var farið að sinna vegakerfinu, sem annar núorðið mestum farþega- og vöruflutningum í landinu.  Strand- og fljótaskipaflotinn er í öðru sæti hvað vöruflutning snertir.

Vegakerfið
.  Þegar uppbygging nýju höfuðborgarinnar, Brasilíu, hófst á sjötta áratugnum, var fjöldi vega með slitlagi mjög takmarkaður.  Fjögurra akreina þjóðvegir tengdu Rio de Janeiro og Sao Paulo en slíka vegi vantaði til porto Alegre, Curitiba, norðausturhlutans og svæðisins vestan Belo Horizonte.  Á regntímanum röskuðust samgöngur á aðalleiðum landsins í vikutíma eða lengur í einu og þeir, sem voru á ferðinni, urðu strandaglópar á svæðum með fáa möguleika til gistingar og takmarkaðar matarbirgðir.

Nauðsyn þess, að flytja þung og fyrirferðarmikil byggingarefni loftleiðis á regntímanum á meðan á uppbyggingu Brasilíu stóð, opnaði augu manna fyrir slæmu ástandi vegakerfisins.  Þegar herinn tók völdin í landinu 1964, voru endurbætur þess settar á oddinn.  Árangurinn varð gott vegasamband milli helztu staða í landinu, jafnvel inn á norðanvert Amasónsvæðið.

Flugleiðir.  Brasilíumenn voru meðal frumherja í flugi og þeir hafa löngum haldið því fram, að Alberto Santos-Dumont hafi verið á undan Wright-bræðrum í loftið.  Fjöldi flugfélaga spratt upp í landinu og voru síðan sameinuð í þrjú meginfyrirtæki, sem eru í samkeppni á markaði innanlands.  VARIG hefur að mestu verið eign starfsfólksins síðan 1920-30 og stundar flug innanlands og erlendis.  VASP er flugfélag Sao Paulo-fylkis, sem flýgur aðallega innanlands en líka til BNA og Hollenzku Antilleyja.  Transbrasil er einkarekið flugfélag, sem býður aðallega innanlandsflug.

Flugvellir eru nærri öllum stórborgum og flestar smærri borgir gera út flugvelli fyrir þotuflug.  Malarvellir eru víða um land fyrir minni flugvélar.  Áætlunarflug tengir borgir landsins en umferð um flugvelli landsins er mun minni en um sambærilega velli í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu.  Aðalástæðan er há fargjöld og samkeppni við áætlunarbíla.  Mestur hluti millilandaflugsins liggur um Rio de Janeiro og Sao Paulo.

Járnbrautir.  Þetta samgöngukerfi er ekki mjög mikilvægt, ef frá eru taldar farþegaleiðin milli Rio de Janeiro og Sao Paulo og járngrýtislestirnar.  Lítið hefur verið um lagningu járnbrauta eftir síðari heimsstyrjöldina, þegar Rio de Janeiro var tengd við Salvador vegna þess, að þýzkir kafbátar sökktu mörgum skipum undan ströndinni.  Einu framkvæmdirnar á þessu sviði var lagning hliðarspors frá Minas Gerais til Brasilíu og járngrýtisleiðarinnar milli Caraiás Grande-námanna og Porto do Itagui í grennd við Sao Luis.  Flestar járnbrautir landsins eru frá 19. öld, þegar efnahagurinn byggðist á útflutningi hráefna.  Vegna máls sporanna hefur ekki verið hægt að tengja þau við kerfi nágrannalandanna.

Sjóflutningar.  Strandsiglingar voru árum saman í svipuðu lamasessi og járnbrautirnar og sinntu aðeins lágverðsvöru, sem þoldi langar tafir og stundum altjón.  Ríkið hratt af stað áætlun um skipasmíðar á sjöunda áratugnum og flutningar jukust mikið jafnframt því, að þjónusta og stundvísi skipanna batnaði verulega.  Þá jókst flutningur verðmætari farma.  Lloyd Brasileiro er aðalskipafyrirtæki landsins en Rio Doce Valley-fyrirtækið rekur flota sérbúinna skipa.  Nokkur smærri fyrirtæki í þessari grein eru líka á markaðnum.

Endurnýjun og uppbygging samgöngukerfisins á sjó var samfara uppbyggingu hafna, s.s. við Sepetibaflóa vestan Rio de Janeiro og Torot do Itagui járngrýtishafnarinnar.  Áður höfðu verið byggðar Hafnir í Rubarao nærri Vitória fyrir járngrýtið og Sao Sebastiao á strönd Sao Paulo-fylkis fyrir olíuflutninga.  Um höfnina í Sao Sebastiao fer meira en helmingur innflutnings í Sao Paulo-fylki og stór hluti um Santos, sem státar af mestri umferð í heildina tekið.  Aðrar mikilvægar Hafnir eru í Rio de Janeiro, Paranaguá og Recife.

Lengd samgöngukerfisins á hinu gríðarstóra vatnakerfi landsins er u.þ.b. 45.000 km.  Um Amasónsvæðið fara aðalflutningar norðurhluta landsins og alla leið inn í spænskumælandi lönd fyrir vestan.  Tvær aðalhafnirnar á Amasónsvæðinu eru Belém í árósunum og Manaus, u.þ.b. 1650 km inni í landi.  Þær og minni hafnir eru mikilvægir verzlunarstaðir.  Skip og bátar af öllum stærðum og gerðum sigla um meginmóðuna og u.þ.b. 1000 þverár hennar.  Paragvæ-Paraná-Plata-vatnasviðið er illa til siglinga fallið, bæði vegna náttúrulegra og manngerðra hindrana, þótt nokkrir kaflar þess væru notaðir á landnámsárunum.  Þar er enn þá nokkur grunnrist prammaumferð alla leið niður í árósa Río de la Plata í Argentínu.

Sao Francisco-áin er skipgeng u.þ.b. 300 km inn í land, þar sem Paulo Alfonso-fossar hindra för.  Fyrrum var áin mikilvæg samgönguleið en ruðningur skóga og stíflugerð hafa valdið stækkandi grynningum í efri hluta hennar.  Einu prammagengu, stuttu árnar eru Paranaiba í norðurhlutanum og Jacui í Rio Grande do Sul.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM