Brasilía sagan,
Flag of Brazil


BRASILÍA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Indíánarnir á Brasilíusvæðinu skiptust í marga kynþætti eins og þeir gera enn þá.  Við landnám voru hópar arawaka og karíba í norðurhlutanum, tupí-guaraní á austurströndinni og í Amasónlægðinni, ge í austur- og suðurhlutunum og pano í vesturhlutanum.  Flestir voru þeir hálfgildings hirðingjar, sem lifðu á veiðum, söfnun og frumstæðri akuryrkju.  Margir þessara hópa héldu lífsvenjum sínum langt fram á 20. öldina, þegar þeir komust í nánari snertingu við siðmenningu hvíta mannsins.
Landkönnun og landnám Evrópumanna.  Spænski landkönnuðurinn Vicente Yánez Pinzón er talinn fyrsti Evrópubúinn, sem steig á land í Brasilíu. 

Hann lenti nærri núverandi borgarstæði Recife 26. janúar 1500 og sigldi síðan norður að mynni Orinoco-árinnar.  Samkvæmt Tordesillas-samningnum milli Spánar og Portúgals frá 1494 féll þetta landsvæði til Portúgals.  Spánverjar gerðu því ekki tilkall til þess.  Í apríl árið 1500 kom landkönnuðurinn Pedro Álvares Cabral að ströndum Brasilíu og lýsti landið hluta af Portúgal.  Landið var kallað „Terra da Vera Cruz” (Land hins sanna kross).  Leiðangur undir stjórn ítalska landkönnuðarins Amerigo Vespucci var sendur þangað 1501 á vegum Portúgala.  Hann gaf mörgum höfðum og fjörðum nafn, þ.m.t. Rio de Janeiro.  Hann kom heim með farm af brasilíuviði og síðan var landið nefnt eftir þessum verðmæta viði og kallað Brasilía.

Árið 1530 lagði Jóhann III, Portúgalskonungur, á ráðin um skipulagt landnám í Brasilíu.  Hann byrjaði á því að skipta landinu í 15 héruð, sem hann fól gæðingum sínum við hirðina að stjórna.  Þeir voru kallaðir „donatarios” og höfðu víðtæk völd.  Jóhann III svipti þá að mestu völdum sínum, þegar franskir sjóræningjar fóru að valda usla í strandhéruðunum, og skipaði landstjóra yfir allt landið.  Hinn fyrsti þeirra var Thomé de Souza.  Hann tók við embætti 1549 og setti á fót ríkisstjórn í nýstofnaðri höfuðborg landsins, Salvador (Bahia).  Hann kom á víðtækum dómsmála- og réttarfarslegum umbótum og byggði upp varnir meðfram ströndinni.  Mikill fjöldi þræla var fluttur inn frá Afríku til að draga úr skorti á vinnuafli.  Sao Paulo-borg var stofnuð 1554.  Árið 1555 stofnuðu Frakkar nýlendu á ströndum Rio de Janeiro-flóa og fimm árum síðar hröktu Portúgalar þá brott.  Rioborg var stofnuð 1567.


Spænsk yfirráð og hollenzk íhlutun.  Filip II, Spánarkonungur, erfði portúgölsku krúnuna árið 1580.  Englendingar og Hollendingar, sem voru óvinir Spánar, héldu uppi stöðugum árásum á Brasilíu á meðan Spánverjar voru við völd.  Hollenzkur floti náði Bahia undir sig 1624 en sameiginlegur her Spánverja, Portúgala og indíána náði henni aftur næsta ár.  Hollendingar réðust aftur á landið 1630 og leiðangur undir merkjum Hollenzka Vestur-Indíafélagsins náði Pernambuco (Recife) og Olinda undir sig.  Hollendingar réðu mestu á svæðinu milli Maranhao-eyjar og neðri hluta Sao Francisco-árinnar á sama tíma.  Þessi hollenzku svæði blómstruðu í nokkur ár undir stjórn landstjórans Joan Mauitz van Nauuau-Siegen, greifa.  Hann sagði af sér 1644 vegna yfirgangs Hollenzka Vestur-Indíafélagsins.  Skömmu eftir að hann yfirgaf landið hófu portúgalskir landnemar uppreisn með stuðningi frá heimalandinu.  Hollendingar gáfust upp 1654 eftir nærri áratugs baráttu og árið 1661 afsöluðu þeir sér tilkalli til landsvæða í Brasilíu með samningum.

Endurreisn yfirráða Protúgala.  Árið 1640 tókst Portúgölum að binda endi á yfirráð Spánverja í heimalandinu.  Brasilía varð portúgölsk nýlenda á ný og þar var settur varakonungur.  Friður hélzt að mestu milli Spánverja og Portúgala í Suður-Ameríku til 1680.  Þá sendu Portúgalar leiðangur suður að árósum Plataárinnar austanverðum og nefndu svæðið „Colonia”.  Þetta leiddi til deilu um yfirráðaréttinn á þessu svæði, sem leiddi til stofnunar lýðveldisins Úrúgvæ 1828.  Áður höfðu hópar innan úr landi lagt leið sína suður á bóginn.  Trúboðar jesúíta hófu störf í Amasónlægðinni snemma á 17. öld og fyrir miðja öldina voru hópar frá Sao Paulo seztir að við efri hluta Paraná-árinnar.  Þar eð flestir þessara leiðangra voru gerðir út til að handsama indíána til þrælahalds, mæltust búferlaflutningar þessa fólks illa fyrir meðal jesúítanna á þessum slóðum.  Þeir nutu stuðnings krúnunnar til verndar innfæddum og tókst að koma í veg fyrir þessi mannréttindabrot.  Þá snéru þessir fyrrum íbúar Sao Paulo sér að leit að eðalmálmum og steinum og hálfgert gullæði greip um sig.  Árið 1693 fundust auðugar gullæðar í núverandi Minas Gerais-fylki.  Þangað flykktust tugir þúsunda Portúgala frá heimalandinu.  Fundur auðugra demantanáma 1721 jók á hagsæld nýlendunnar og síðar varð ræktun kaffiplantna og sykurreyrs að góðri tekjulind.

Árið 1750 var tilkall Brasilíu til stórra landsvæða vestan viðurkenndra svæða í Tordesillas-samningnum samþykkt af hálfu Spánverja í Madridsamningnum.  Hann var síðar felldur úr gildi en helztu ákvæði hans voru staðfest í Ildefonso-samningnum 1777.  Á valdatíma Josephs Emanuels, konungs Portúgala, komu utanríkis- og forsætisráðherra hans miklum umbótum á í Brasilíu.  Þeir afnámu þrælahald innfæddra, efldu landnám, lækkuðu skatta, drógu úr viðskiptaeinokun krúnunnar, einfölduðu stjórnsýsluna og fluttu stjórnsetur landsins frá Bahia (Salvador) til Rio de Janeiro árið 1763.  Pombal forsætisráðherra rak jesúítana brott 1760 vegna vaxandi áhrifa þeirra á innfædda og efnahagsveldið, sem þeir höfðu í sínum höndum.

Dvöl portúgölsku hirðarinnar í Brasilíu.  Napóleonstyrjaldirnar ollu varanlegum breytingum á sögu Brasilíu.  Snemma í nóvember 1807 fór Napóleon með her yfir landamæri Spánar og Portúgals.  Jóhann prins og lunginn úr hirð hans lagði úr höfn í Lissabon skömmu áður en franski herinn kom til borgarinnar og stefndi til Brasilíu.  Prinsinn gerði Rio de Janeiro að stjórnarsetri Portúgals og kynnti ýmsar umbætur í Brasilíu, s.s. afnám viðskiptahindrana, stuðning við landbúnað og iðnað og stofnun æðri menntastofnana.

Árið 1816 erfði Jóhann prins portúgölsku krúnuna og var krýndur sem Jóhann VI konungur í marz.  Brasilíubúar misstu trúna á hann og stjórn hans á þeim fimm árum, sem hún sat í landinu.  Konungsstjórnin var spillt og gagnslaus.  Lýðræðishugsjóninni hafði vaxið fiskur um hrygg eftir frönsku stjórnarbyltinguna (1789) og hún efldist í landinu, þegar spænsku nýlendurnar umhverfis fóru að lýsa yfir sjálfstæði sínu.  Árið 1816 lét Jóhann konungur her sinn skerast í leikinn í Banda Oriental (Úrúgvæ) og lagði það undir sig.  Hann barði niður uppreisn í Pernambuco árið eftir.  Banda Oriental var innlimað í Brasilíu 1821 og nefnt Cisplatine-hérað.  Áður en hann fór frá Brasilíu 1821, gerði hann næstelzta son sinn, Dom Pedro, að konungi landsins.  Heima fyrir höfðu ráðstafanir konungs mælzt illa fyrir.  Portúgalska þingið, Cortes, samþykkti lög, sem gerðu Brasilíu aftur að nýlendu og Dom Pedro var skipað að koma heim.  Árið 1822 neitaði hann að yfirgefa Brasilíu að ósk reiðra Brasilíumanna.  Hann kallaði saman þing í júní og í september lýsti hann yfir sjálfstæði landsins.  Efri deild þingsins lýsti hann keisara Brasilíu sama ár.  Í árslok 1823 höfðu allir herir Portúgala verið neyddir til uppgjafar.


Brasilíska keisaradæmið.  Einvaldurinn týndi mestum stuðningi sínum á fyrsta valdaárinu.  Hann leysti upp þingið 1823 vegna ágreining innan þess og kynnti nýja stjórnarskrá í marz næsta ár.  Argentínumenn hvöttu og studdu íbúa Cisplatine-héraðs til uppreisnar 1825 og Brasilíumenn sögðu þeim stríð á hendur.  Árið 1827 lutu Brasilíumenn í lægra haldi og brezk málamiðlun leiddi til stofnunar sjálfstæðs ríkis, Úrúgvæ.  Almenn andstaða gegn Dom Pedro jókst á næstu árum og árið 1831 lagði hann niður völd, sem féllu til fimm ára sonar hans, Pedro II.  Ríkisráð stjórnaði landinu næsta áratuginn, sem einkenndist af fjölda uppreisna í mörgum héruðum landsins.  Í lok þessa áratugar náðist almenn samstaða um að koma keisaranum unga til valda og í júlí 1840 lýsti þingið yfir, að hann hefði náð lögaldri til ríkiserfða.

Pedro II reyndist einn öflugasti einvaldur sins tíma.  Á valdatíma hans, sem náði yfir tæpa hálfa öld, urðu miklar efnahagslegar framfarir og íbúum fjölgaði.  Þjóðarframleiðslan jókst um rúmlega 900%.  Járnbrautakerfi voru lögð og á sviði utanríkismála var keisarastjórnin andsnúin einræðisherrum nágrannaríkjanna.  Keisarinn studdi velheppnaðar byltingu gegn einræðisherra Argentínu, Juan Manuel de Rosas, á árunum 1851-52 og barðist til sigurs við hlið Argentínu og Úrúgvæ gegn Paragvæ 1865-70.

Umrót í stjórnmálalífinu í Brasilíu byggðist á sívaxandi kröfum um afnám þrælahalds.  Innflutingur afrískra þræla var bannað árið 1853.  Fáum árum síðar var hafin barátta fyrir frelsi hinna 2,5 milljóna þræla í landinu.  Andstæðingar þrælahaldsins unnu sinn fyrsta sigur árið 1871, þegar þingið samþykkti lög um frelsi barna kvenþræla.  Ýmsar ástæður leiddu til þróunar umræðu um stofnun lýðveldis í kjölfar stríðsins í Paragvæ.  Næstu 15 árin óx þessari umræðu fiskur um hrygg.  Öllum þrælum, sem voru 60 ára og eldri, var gefið frelsi árið 1885.  Þremur árum síðar var öllum þrælum gefið frelsi.


Fyrsta lýðveldið.  Afnám þrælahaldsins var framkvæmt án þess, að voldugir landeigendur fengju bætur fyrir, sem leiddi til þess, að þeir hættu að styðja ríkisstjórnina.  Ýmis öfl innan katólsku kirkjunnar voru andsnúin mörgum aðgerðum Pedros II, margir háttsettir menn í hernum voru honum ótrúir og fjölmennir hópar þegna hans studdu lýðræði.

Fonseca og Peixoto.
Í nóvember 1889 gerði herinn uppreisn undir stórn Manuels Deodoro da Fonseca hershöfðingja og neyddi Pedro II til að segja af sér.  Lýst var yfir stofnun lýðveldis með Foseca í fararbroddi bráðabirgðastjórnar.  Ýmsum umbótum í lýðræðisátt var komið á, s.s. aðskilnaðir ríkis og kirkju.  Uppkast að stjórnarskrá var tilbúið í júní 1890.  Því svipaði til stjórnarskrár BNA og var samþykkt í febrúar 1891.  Brasilía var að lýðveldi, sem var kallað Bandaríki Brasilíu, og Fonseca var kjörinn fyrsti forseti þess.

Stjórnmálaólga, sem skapaðist einkum vegna reynsluleysis á lýðræðisbrautinni, markaði fyrstu ár hins nýja lýðveldis.  Árið 1891 olli einræðisleg hegðun Fonseca forseta mikilli andstöðu í þinginu.  Hann leysti upp þingið í byrjun nóvember og tók sér einræðisvald.  Sjóherinn gerði uppreisn gegn honum og neyddi hann til að segja af sér og Floriano Peixoto, varaforseti, tók við.  Hans stjórn var upp á sömu bókina í einræðisátt, en hann stóð af sér uppreisnir land- og sjóhers 1893-94 og margar uppreisnir í suðurhluta landsins.


Borgaraleg stjórn
Smám saman tókst að koma á reglu í landinu í stjórnartíð Prudente José de Moraes Barros, sem var fyrsti borgaralegi forseti landsins.  Í ársbyrjun 1898 var gert verulegt átak til endurreisnar efnahaglífsins í stjórnartíð Manuels Ferraz de Campos Salles, sem var kjörinn forseti eftir að hafa þjónað sem landstjóri í Sao Paulo-fylki.  Hann tryggði landinu hátt erlent lán og styrkti þannig fjármálaástandið og efldi verzlun og iðnað.  Framleiðsla kaffis og gúmmís hafði stöðugt aukizt.  Á árabilinu 1906-10 olli lækkandi heimsmarkaðsverð á kaffi talsverðri kreppu.  Gúmmíverðið lækkaði líka á tímabilinu.  Þessi þróun olli ólgu víða um land á valdatíma Hermes da Fonseca forseta, sem var íhaldssamur og hlynntur hernum.  Næsti forseti varð Wenceslau Braz Pereira Gomes (1914-18), iðnjöfur, sem var kjörinn án mótframboðs.

Fyrri heimsstyrjöldin bætti efnahaginn talsvert, því að eftirspurn eftir kaffi, gúmmíi og sykir jókst verulega.  Brasilía lýsti yfir hlutleysi sínu í stríðsbyrjun en sleit stjórnmálasambandi við Þýzkaland í ágúst 1917 vegna ítrekaðra árása þeirra á brasilísk skip.  Herskip voru send á bardagasvæði og matvæli og hráefni frá Brasilíu styrktu bandamenn verulega í stríðinu.

Í efnahagskreppunni 1922 varð að grípa til varnaraðgerða í iðnaði og skera niður opinber útgjöld.  Í júlí 1924 urðu miklar óeirðir, einkum í Sao Paulo.  Stærstur hluti hersins var hliðhollur Artur da Silva Bemardes forseta, sem varð forseti 1922, og uppreisnin var bæld niður eftir rúmlega sex mánaða baráttu.  Bermardes stjórnaði með herlögum það, sem eftir lifði stjórnartíðar hans.  Efnahagskreppan jókst í stjórnartíð eftirmanns hans, Washington Luiz Pereira de Souza.  Verkföll voru tíð og róttækni jókst.  Verkföll voru bönnuð með lögum í ágúst 1927 og ströngum viðurlögum var beitt gegn kommúnisma.


Vargas tímabilið
Eftir forsetakosningarnar í marz 1930 var frambjóðandi stjórnarinnar, Julio Prestes, lýstur sigurvegari.  Andframbjóðandi hans var Getúlio Dornelles Vargas, þekktur stjórnmálamaður og þjóðernissinni frá fylkinu Rio Grande do Sul.  Vargas vann sér stuðning fjölda yfirmanna í hernum og stjórnmálaleiðtoga og leiddi stjórnarbyltingu í október.  Eftir u.þ.b. þriggja vikna blóðuga bardaga, sagði Souza forseti af sér og Vargas tók sér alræðisvald sem bráðabirgðaforseti.

Vargas lét draga úr kaffiframleiðslunni og keypti umframbirgðir, sem hann lét eyða til að draga úr efnahagskreppunni í landinu.  Útgjöldin samfara þessum aðgerðum juku fjárhagsvandann og Brasilía gat ekki greitt af erlendum lánum.  Árið 1932 barði Vargasstjórnin niður öfluga byltingu í Sao Paulo eftir þriggja mánaða blóðbað.

Vargas lægði öldurnar mikið með því að kveðja saman þingið árið 1933.  Nýjar greinar í stjónarskránni, sem þingið samþykkti næsta ár, skertu rétt fylkjanna, tryggðu konum kosningarétt, lögbundu almannatryggingar og fólu þinginu útnefningu forseta landsins.  Vargas var kjörinn forseti landsins 17. júlí 1934.  Hann mætti talsverðri andstöðu úr röðum róttæklinga í verkamannaflokknum fyrsta árið.  Kommúnistar gerðu misheppnaðar uppreisnir í Pernambuco og Rio de Janeiro í nóvember 1935.  Herlög voru sett og Vargas stjórnaði með tilskipunum.  Fjöldi róttækra og aðrir andstæðingar stjórnarinnar voru hnepptir í fangelsi.  Óánægja og ólga kraumuðu undir niðri og nýstofnaður nýnasistaflokkur (Integrasista) fékk mikinn stuðning miðstéttanna.  Þessi flokkur varð fljótlega miðstöð aðgerða gegn ríkisstjórninni.  Vargas leysti upp þingið í nóvember 1937 og tók sér einræðisvald í skjóli nýrrar stjórnarskrár.  Hann endurskipulagði ríkisstjórnina að fyrirmynd Ítala og Þjóðverja, bannaði alla stjórnmálaflokka og kom á ritskoðun fjölmiðla og póstsendinga.


Nýja ríkið
Vargasstjórnin lýsti því yfir, að hún sæti þar til kosið yrði um nýja stjórnarskrá, en engin dagsetning kosninga var tilkynnt.  Samkvæmt tilskipun Vargas var almenna tryggingakerfið látið ná til verkamanna á plantekrunum.  Þessi aðgerð tryggði honum fylgi stórra þjóðfélagshópa.  Eina ógnunin við veldi hans var bylting nýnastista árið 1938, sem var bæld niður á nokkrum klukkustundum.  Vargas hélt uppi vinsamlegum samböndum við BNA og önnur lýðræðisríki.  Stjórn hans var opinberlega fjandsamleg þýzka þriðja ríkinu, aðallega vegna mikillar virkni þýzkra njósnara í Brasilíu.  Sannanir fengust fyrir beinum stuðningi Þjóðverja við byltingu nýnastistaflokksins og ýmsar hömlur voru lagðar á þýzka ríkisborgara í landinu.  Þessi ágreiningur milli Brasilíu og þriðja ríkisins leiddi til tímabundins rofs stjórnmálasambands ríkjanna í október 1938.

Vargasstjórnin var hliðholl bandamönnum í síðari heimsstyrjöldinni.  Bandaríkjamenn studdu hana fjárhagslega til að efla iðnaðinn, einkum framleiðslu gúmmís og annarra áríðandi hráefna til styrjaldarrekstursins.  Flotastöðvar og flugvellir á hernaðarlega mikilvægum stöðum urðu mikilvægar miðstöðvar bandamanna í hernaði gegn kafbátum Þjóðverja á Atlantshafinu.  Brasilísk herdeild barðist með bandamönnum á Ítalíu 1944-45.

Samtímis þessu jókst óánægjan innanlands með einræðisstjórn Vargas.  Áhrifaríkir ritstjórar knúðu ríkisstjórnina til að aflétta ritskoðun í febrúar 1945.  Hinn 28. febrúar tilkynnti forsetinn, að þing- og forsetakosningar yrðu haldnar síðar á árinu.  Smám saman var slakað á banni við starfi stjórnmálaflokka og tilskipun um náðun allra stjórnmálalegra fanga var gefin út í apríl.


Dutrastjórnin
Í kosningaslagnum gaf Vargas út margar óvinsælar tilskipanir og fólkið óttaðist, að hann ætlaði að viðhalda einræðinu.  Stjórnarbylting hersins í október 1945 neyddi hann til að segja af sér.  José Linhares, forseti hæstaréttar, var tilnefndur forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar landsins í kjölfarið.  Eurico Gaspar Dutra sigraði í forsetakosningunum í desember með miklum meirihluta.  Hann tók við embætti í janúar 1946.  Nýkjörið þing landsins samdi nýja stjórnarskrá, sem var samþykkt í september sama ár.

Sumarið 1947 var Ameríska ráðstefnan um frið og öryggi haldin í Petrópolis.  Rio-samningurinn um gagnkvæma samvinnu og aðstoð Ameríkuríkja var undirbúinn á ráðstefnunni og staðfestur af Brasilíu í september.  Eitt ákvæði hans kveður á um sameiginlegar varnir allra ríkja, sem undirrita hann, verði eitt þeirra fyrir árás.

Í október 1947 sleit Brasilíustjórn stjórnmálasambandi við Sovétríkin vegna greinar í sovézku tímariti, sem líkti Dutra forseta við strengjabrúðu BNA.  Nokkrum mánuðum síðar ákvað þingið að reka alla kommúnista úr embættum sínum.  Einn þingmaður var rekinn úr öldungadeildinni og 14 úr fulltrúadeildinni.


Síðara stjórnartímabil Vargas
Getúlio Vargas komst aftur til valda 1951 eftir að hafa sigrað tvo andstæðinga sína í kosningum í október árið áður.  Hann stofnaði samsteypustjórn úr allra stærstu stjórnmálaflokkanna.  Þessi stjórn hóf strax að vinna að efnahagsmálum, lækka verðlag, hækka laun og stuðla að félagslegum umbótum.  Verðbólagan og dýrtíðin héldu þó áfram öll eftirstíðsárin og kynti undir neðanjarðarstarfsemi kommúnista og endurfæðingu þjóðernissinna.  Þessi ólga leiddi m.a. til þjóðnýtingar olíuauðlinda landsins í september 1952.  Niðurskurðaraðgerðir og áætlanir Vargasstjórnarinnar ollu líka vaxandi gagnrýni úr röðum íhaldsamra afla í landinu.  Í kosningabaráttunni í ágúst 1954 var flugliðsforingi drepinn við morðtilraun eins ritstjóra stjórnarandstöðupressunnar.  Þessi atburður kom stjórninni á kné.  Herforingjar kröfðust afsagnar Vargas.  Hann féllst á að fela varaforsetanum, Joao Café Filho, völdin og framdi sjálfsmorð nokkrum klukkustundum síðar.

Stjórnir Kubitscheks, Quadros og Goularts
Juscelino Kubitschek, fyrrum landstjóri Minas Gerais, hafði fylgi stuðningsmanna Varga og kommúnista og sigraði í forsetakosningunum í október 1955.  Hann tók við embætti í janúar næsta ár og kynnti metnaðarfulla fimm ára efnahagsáætlun.  Hann fékk rúmlega 150 milljónir US$ lánaðar hjá bandaríska Inn- og útflutningsbankanum og í september voru áætlanir hans um byggingu nýrrar höfuðborgar, Brasilíu, samþykktar.  Lækkun kaffiverðs á alþjóðamarkaði upp úr miðjum sjötta áratugnum dró úr uppbygginu iðnaðarins.  Verðbólgan hélt sínu striki og olli félagslegri ólgu, tíðum verkföllum og uppreisnum verkamanna og stúdenta.

Janio da Silva Quadros, fyrrum landstjóri Sao Paulo-fylkis, varð forseti landsins í janúar 1961.  Hann tók strax til hendinni í efnahagsmálum með 30% niðurskurði útgjalda og lofaði að ráðast gegn spillingunni, sem var talin hafa viðgengizt í tíð Kubitscheks.  Hann sagði skyndilega af sér í ágúst 1961 og gaf engar skýringar aðrar en að öfl í þjóðfélaginu hefðu hindrað framgang áætlana hans.  Forystumenn hersins lýstu andstöðu sinni við valdatöku varaforsetans, Marques Goulart, og héldu því fram, að hann væri hlynntur stjórn Kastrós á Kúbu.  Málamiðlun náðist, þegar þingið samþykkti að draga verulega úr stjórnarskrárbundnum völdum forsetans.  Forsætisráðherra skyldi fara með framkvæmdarvaldið og þingið með löggjafarvaldið.  Goulart var settur í embætti í september 1961.

Ári síðar olli hann kreppu í þinginu með beiðni um almennar kosningar til að kanna stuðning við endurreisn forsetalýðveldisins.  Kosningarnar voru haldnar, tillögur hans voru samþykktar og þingið breytti stjórnarskránni eina ferðina enn í janúar 1963.  Síðar á árinu gekk Goulart hart eftir grundvallarbreytingum og gaf út tilskipun um verðlagseftirlit tengt húsaleigu, þjóðnýtingu olíuhreinsunarstöðva og ónýtts lands og takmörkunar útflutnings hagnaðar snemma árs 1964.  Þessar aðgerðir virtust einungis magna ólæknandi verðbólguna.  Herinn ýtti Coulart úr sessi í marz og hann flúði til Úrúgvæ.  Humberto Castelo Branco, yfirmaður herráðsins, var kosinn forseti.


Herstjórn
Nýja stjórnin tók sér alræðisvald með lögum í apríl, bældi alla andstöðu niður og fangelsaði u.þ.b. 300 manns af pólitískum ástæðum.  Sumar fyrri umbótatillögur voru framkvæmdar að hluta til, barizt var gegn verðbólgunni með verð- og launastöðvun og innheimta skatta var hert.  Lög frá 1965 drógu úr almennum mannréttindum, juku völd ríkisstjórnarinnar og fluttu kosningu forseta og varaforseta til þingsins.

Marshal Artur da Costa e Silva, fyrrum hermálaráðherra og frambjóðandi stjórnarflokksins ARENA, var kosinn forseti 1966.  Brasilíski lýðræðisflokkurinn, sem var eini löglegi stjórnarandstöðuflokkurinn, neitaði að bjóða fram á móti honum í mótmælaskyni vegna þess, að stjórnin svipti alla vænlega andframbjóðendur borgararéttindum.  ARENA sigraði líka í þingkosningum.  Costa forseti stýrði herstjórninni, sem einbeitti sér að efnahagsmálum.  Árið 1968 einkenndist af uppreisnum stúdenta og aðgerðum gegn stjórnvöldum, en samtímis vænkaðist efnahagur landsins smám saman.  Costa tók sér alræðisvald í desember.  Hann hreinsaði til í röðum andstæðinga stjórnarinnar, herti á efnahagsaðgerðum og kom á ritskoðun.  Hann fékk hjartaáfall í ágúst 1969 og herinn valdi Emilio Garrastazú Médici, hershöfðingja, í hans stað.  Þingið staðfesti valið skömmu síðar.  Médicistjórnin jók kúgunina og byltingaröflunum óx styrkur.  Þegar stjórnin hvatti til þróunar og nýtingar van- eða ónýttra svæða inni í landi, leið þjóðin fyrir allt of hátt orkuverð, óstöðvandi verðbólgu og gífurlegan viðskiptahalla.  Katólska kirkjan gerðist háværari í mótmælum vegna vanrækslu stjórnarinnar í málefnum fátækra

Ernest Geisel, hershöfðingi og forstjóri olíueinkasölu ríkisins, varð forseti landsins 1974.  Fyrst í stað var stefna hans fremur frjálsleg.  Hann afnam ritskoðun fjölmiðla og leyfði stjórnmálaflokkum að starfa.  Árin 1976 og 1977 voru tökin hert á ný fyrir forsetakosningarnar, sem leiddu til embættistöku Joao Baptista de Oliveira Figueredo 1979.


Borgaraleg stjórn á ný
Árið 1985 var Tancredo Neves kosinn forseti í fyrstu borgaralegu kosningunum í 21 ár.  Hann dó áður en hann var settur í embætti og José Sarney varð forseti.  Sarney beið barátta gegn verðbólgunni og miklum erlendum skuldum.  Hann byggði aðgerðir sínar á miklum niðurskurði og skipti um gjaldmiðil (cruzado).  Stjórnarskránni var enn þá breytt í þá átt 1988, að forsetar yrðu kosnir í almennum kosningum.  Fernando Collor de Mello kosinn forseti í desember 1989.  Harðar aðgerðir hans til að sigrast á verðbólgunni ollu mesta samdrætti, sem Brasilíumenn höfðu upplifað í 10 ár, og ásakanir um fjármálaspillingu í stjórn hans drógu úr vinsældum hans.  Umhverfismál í Brasilíu komust í hámæli á alþjóðavettvangi seint á níunda áratugnum, einkum eftir morð Chico Mendes umhverfisverndarsinna og stöðugan ruðning skóga til ræktunar.

Brasilía hýsti umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í júní 1992 (Rioráðstefnuna), þar sem rúmlega 100 þjóðarleiðtogar sátu.  Collor forseti sætti ákærum rannsóknarnefndar þingsins í september. Itamar Franco, varaforseti, tók við völdum.  Collor sagði af sér 29. desember, rétt áður en mál hans var dómtekið, og Franco sór embættiseið.  Í apríl 1994 var hrundið af stað áætlun, sem stefndi að endurskipulagningu erlendra skulda og í júlí var tekinn upp gjaldmiðillinn „real”, og eitthvað dró úr verðbólgunni.  Fernando Henrique Cardoso sigraði í forsetakosningunum síðla árs 1994 og tók við embætti 1. janúar árið eftir.  Stjórn hans kynnti áform um umbætur í skatta- og félagsmálum og áframhald baráttunnar gegn verðbólgunni.  Árið 1996 tók til starfa nefnd, sem átti að breyta stjórnarskránni þannig, að kjörnir forsetar mættu starfa í tvö kjörtímabil.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM