Menning
indíána, negra og Portúgala hefur orðið að deiglu daglegs lífs í
Brasilíu. Hin portúgalska
er ríkjandi, enda eru tunga, ýmsir siðir og trúarbrögð landsmanna
af henni sprottin. Áhrif
innfæddra og negra eru samt augljós.
Tunga flestra indíána, tupi-guaraní, var útbreidd og trúboðar
16. aldar notuðu hana til að boða trúna.
Hún var einnig töluð víðast hvar í norðurhlutanum.
Nú á dögum er brasilíska talsvert skotin orðum úr indíánamálinu
og mest áberandi á Amasónsvæðinu.
Afrísk áhrif á lífsvenjur landsmanna eru greinilegust á
plantekrusvæðum norðurhlutans í strandhéruðunum frá Rio de
Janeiro. Þeirra gætir í
matargerð í Bahia-fylki, s.s. vatapá (úr hrísgrjónamjöli), kókosolía,
fiskur og rækjur, rauð paprika og margar kryddtegundir.
Víða í borgum landsins iðka margir hópar trúarbrögð, sem
eru blönduð afrískum áhrifum. Afrískra
áhrifa gætir í tónlistinni, einkum í samba.
Opinber
afskipti á flestum sviðum mannlífsins hafa ekki dregið úr frumkvæði
fólksins. Það stendur
fyrir skrautlegum hátíðarhöldum, styður listir og knattspyrnulið,
þrátt fyrir öll félagsleg og efnahagsleg vandamál.
Brasilía er vagga evrópskrar listar vestanhafs en fólkið er
samt opið fyrir nýungum á sviði listanna.
Daglegt
líf.
Hröð þéttbýlismyndun í landinu eftir síðari heimsstyrjöldina
hefur breytt lífsmunstri flestra íbúanna.
Brasilískar borgir eru líkar öðrum borgrum í Vesturheimi að
flestu leyti en fjölda fólksins á götum úti má líkja við borgir
í Kína.
Fjölskyldubönd
eru yfirleitt sterkari en í Norður-Ameríku.
Skyldmenni búa yfirleitt í grennd hvert við annað og hittast
reglulega. Styrkur þessara
banda er háður efnahag og stöðugleika fjölskyldnanna og er nú orðið
ekki sambærilegur við fyrri tíð vegna fátæktar, fjarlægðar milli
ættingja og hinnar hröðu þéttbýlismyndunar.
Algengt er að stórfjölskyldur búi saman í litlu húsnæði,
fremur af efnahagsástæðum en ættrækni.
Listir.
Landið
hefur alið marga heimsfræga bókmenntajörfa, sem eru jafnvel taldir
standa starfsbræðrum sínum í Portúgal framar vegna fjölbreyttara
mannlífs og umhverfis. Meðal
aðalverka brasilískra rithöfunda á 19. öld voru rómantískar smásögur
eftir Joaquim Machado de Assis. Á
tuttugustu öldinni rituðu margir höfundar í norðausturhlutanum frábær
skáldverk, s.s. Gilberto Freyre, sem skrifaði um líf þræla,
Graciliano Ramos, sem ritaði um lífið á þurrkaferhyrningnum og
Jorge Amando, sem ritaði léttar og liprar sögur um lífið á kakóræktarsvæðunum
í Bahia. Sögur Érico Veríssimos
um Suður-Brasilíu hafa verið þýddar á fjölda tungumála.
Landslagsarkitektinn
Roberto Burle Marx hefur vakið borgarbúa til meðvitundar um nýtingu
innlendra plantna til garðskreytinga í stað innfluttra, evrópskra
tegunda. Sumar hugmyndir
hans hafa verið nýttar með mannvirkjum hins heimsfræga arkitekts
Oscar Niemeyers. Hann hannaði
fjölda opinberra bygginga í nýju höfuðborginni, Brasilíu, í
samstarfi við Lúcio Costa, sem gerði upprunalegu skipulagsteikningar
borgarinnar. Víða er að
finna fagrar byggingar frá nýlendutímanum, hús með tígulsteinaþökum
og skrautlegar kirkjur í Salvador og hallir og opinberar byggingar í
Rio de Janeiro. Meðal hinna áhugaverðustu er 18. aldar kirkjur í Minas
Gerais með skreyttum forhliðum, myndum úr biblíunni og styttur eftir
Antonio Francisco Lisboa, sem er betur þekktur undir nafninu
Aleijandinho (Litli krypplingurinn).
Listmálarar
komu til skjalanna á 18. öld en þessi listgrein fór ekki að þróast
að nokkru marki fyrr en á 19. öld með verkum Belmiro de Almeida, sem
beindu listamönnunum í raunsæisátt. Á 20. öldini skapaði Candido Portinari einstakan, brasilískan
stíl með því að blanda saman óhlutstæðum aðferðum Evrópumanna
og landslagi Brasilíu. Klassíska
tónskáldið Heitor Villa-Lobos var leiðandi í sköpun brasilískrar
tónlistar með því að tvinna saman þjóðlög og hrynjandi portúgalskrar,
indíána- og afrískrar tónlistar.
Joao Gilberto er frumkvöðull nútímatónlistar, s.s. bossa
nova, og Sergio Mendes tvinnaði samba, norðurameríska og brezka tónlist
saman með góðum árangri.
Brasilískar
borgir eru vettvangur alls konar tónlistarviðburða og í Rio de
Janeiro, Sao Paulo, Belo Horizonte og víðar laða útitónleikar gífurlegan
fjölda hlustenda. Leik- og
óperuhús eru vinsæl. Þar
eru m.a. færðir upp innlendir og
svæðisbundnir gleðileikir og klassísk verk. Listsýningar eru tíðar í söfnum og listasöfnum, s.s. á
listahátíð í Sao Paulo, sem er haldin annað hvert ár síðan 1951,
og laðar til sín listamenn frá rúmlega 50 löndum hverju sinni.
Meðal fjölda listasamtaka er Brasilíska bréfaakademían, sem
er talin standa í fararbroddi. |