Brasilía íbúarnir,
Flag of Brazil


BRASILÍA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landnám landsvæðisins, sem heitir Brasilía á okkar dögum, hófst fyrir þúsundum ára, þegar fyrstu ættkvíslir indíána komu úr norðri.  Upphaflega voru þeir líklega af asísku bergi brotnir, því að löngum var landbrú milli álfanna þar sem nú er Beringsund.  Þetta voru líklega veiðimenn, sem lifðu hirðingjalífi og komu sér fyrir á öruggum svæðum fjarri ám og fljótum.  Þegar Evrópumenn komu til skjalanna, hafði þróast sérstakur hópur indíána, sem dreifðist eftir ættkvíslum um skóglendi landsins.  Þeir voru orðnir fleiri en ættkvíslirnar, sem lifðu enn þá hirðingjalífi og kunnu tökin á ræktun og fiskveiðum.  Þessir skógaindíánar voru aðallega á beztu landsvæðunum við Amasón- og Paragvæfljótin og á strandsvæðunum, sem voru þá skógi vaxin.  Þeir voru lunginn úr íbúafjöldanum, sem var áætlaður 2 milljónir, þegar hvíti maðurinn fór að setjast að í landinu.

Landnámið í strandhéruðunum.  Fyrstu Evrópumennirnir fóru að koma sér fyrir í Brasilíu í upphafi 16. aldar.  Þeir settust aðallega að milli indíánaþorpanna á ströndinni og við verzlunarstaðina, sem voru stofnaðir í Salvador og Cabo Frio.  Þeir stunduðu vöruskipti við indíánana, sem fengu ýmiss konar tól, áhöld og glingur fyrir „brasilíuvið” (rauðleitur viður, sem gefur af sér litunarefni).  Á síðari hluta 16. aldar varð sykurreyr allsráðandi í efnahagi nýlendunnar.  Þá breyttist búsetumunstrið talsvert og fleiri þéttbýli mynduðust.  Á þessu stigi var búið að útrýma indíánunum og negrar frá Afríku voru komnir til starfa á sístækkandi plantekrum.

Suðausturhlutinn.  Námugröftur og kaffi.  Þessi landshluti er hinn þéttbýlasti í landinu.  Fyrstu tvær nýlendualdirnar gáfu landnemarnir og portúgölsk yfirvöld brasilíska hálendinu engan gaum, því að þau voru illaðgengileg og ekki álitin arðvænleg.  Landkönnuðir (bandeirantes) fóru þar um af og til, fönguðu indíána til þrælasölu og leituðu að eðalmálmum og steinum.  Þeir fluttu með sér nokkra nautgripi, sem fjölgaði síðan í heilar hjarðir.  Þær voru grundvöllur efnahagsins á svæðinu milli „caatinga” og Pantanal fyrir suma landkönnuðina, sem settust þar að til að vera nær leitarsvæðunum, þar sem þeir bjuggust við að finna verðmæti í jörðu.  Fyrsti fannst gull 1695, þar sem Minas Gerais er nú, og þar fundust síðan demantar 1729.  Margir plantekrueigendur frá norðausturhéruðunum komu í kjölfarið með þræla sína til að freista gæfunnar.  Þeir eyddu stórfé til bygginga fallegra bæja og borga, s.s. Ouro Preto og Diamantina, og fjárfestu í smáiðnaði til að sinna þörfum námanna og búgarðanna, sem fóru fljótlega að framleiða umfram innanlandsþarfir til útflutnings.  Lagning vega yfir Serra do Mar-fjöllin til strandar og höfuðborgarhlutverk Rio de Janeiro 1763 olli því, að miðstöð viðskipta og stjórnmála fluttist frá norðausturhluta landsins til suðausturhlutans.  Tekjurnar af kaffiræktinni í Paraíba do Sul-danlum styrkti stoðir suðausturhlutans á nítjándu öldinni.

Þróun sléttunnar.  Íbúafjöldi Rio de Janeiro var kominn yfir hálfa milljón, þegar þrælahaldið var afnumið 1888.  Samtímis var íbúafjöldi Sao Paulo einungis 65.000, þótt borgin væri viðskiptamiðstöð suður- og vesturhluta Minas Gerais.  Þessi hlutföll breyttust, þegar Evrópubúar flykktust til Brasilíu.  Sumir gerðust leiguliðar á kaffiplantekrunum, sem stækkuðu stöðugt við Sao Paulo go í norðurhluta Paraná en aðrir reyndu að koma undir sig fótunum á eigin spýtur á suðurströndinni og í skógunum.  Síðarnefndi hópurinn var bæði landfræðilega og menningarlegar einangraður fram yfir síðari heimsstyrjöldina en hinir stóðu í stórræðum við lagningu járnbrauta og uppbyggingu iðnaðarins, sem gerði bæði borgina og fylkið að veigamesta hlekknum í efnahagslífi alls landsins.

Landnámið inni í landi.  Á meðan suðurhlutar landsins voru að ná sér á strik efnahagslega jókst stöðnun og offjölgun íbúa í norðausturhlutanum, þar sem öll beztu svæðin voru í höndum valdamikilla landeigenda.  Þessi þróun hrakti frumbýlingana af blönduðu kyni indíána og Evrópumanna (mestizos) lengra inn í óbyggðir (sertao).  Þeir settust fyrst að í „agreste” og síðan á „caatinga”-svæðunum, þar sem vatn eða rakan jarðveg var að finna.  Miklir þurrkar á áttunda og níunda áratugi nítjándu aldar neyddu marga þessara landnema til að yfirgefa heimili sín.  Flestir fengu vinnu við að tappa kvoðu af gúmmítrjám á Amasónsvæðinu vegna vaxandi eftirspurnar eftir gúmmíi.  Síðan leið hálf öld áður en ný tækifæri sköpuðust fyrir fleiri til að komast brott frá þessum fátæku þurrkasvæðum í norðausturhlutanum.  Eftir síðari heimsstyrjöldina var mikil þörf fyrir vinnuafl við að byggja upp borgir í suðausturhluta landsins, sem lauk með byggingu nýrrar höfuðborgar, Brasilíu.  Samtímis settist fólk í norðausturhlutanum í auknum mæli að á afskekktum skógasvæðum meðfram jaðri Brasilíuhálendisins, m.a. í Rondonia og Acre.  Þangað fluttust líka margir frá suðurhlutanum, þegar vélvæðing kom til sögunnar í landbúnaði.

Strjálbýlasti hluti landsins er norðurhluti Amasónsvæðisins, þar sem umhverfið er mjög erfitt til landnáms og nýtingar, þrátt fyrir mikla viðleitni ríkisstjórna landsins til að ýta undir slíkt.  Fámennið þar hefur engu að síður valdið verulegum umhverfisspjöllum.  Bæði skógarhögg og nautgriparækt á þessum slóðum er mikil ógnun við lífríki regnskóganna og Amasónsvæðisins.  Um miðja 19. öld var Íbúafjöldinn á öllu Amasónsvæðinu í kringum 40.000 en í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar var hann kominn upp í 1,4 milljónir, aðallega vegna ágangsins í gúmmítrén og flótta úr norðausturhlutanum.  Þorpin Belém og Manaus urðu að nútímaborgum á undraskömmum tíma.  Seint á sjötta áratugi tuttugustu aldar varð nokkur uppgangur á Neðra-Amasónsvæðinu, þegar japanskir innflytjendur hófu að rækta böstung og svartan pipar.  Mikið var grafið upp af magnesíum í Amapá og ný landnemabyggð sprat upp við þjóðveginn milli Belém og Brasilíu.

Þróun borga.  Þegar skipulag landnáms í sveitum landsins var komið í fastar skorður að lokinni seinni heimsstyrjöldinni, steyptu Brasilíumenn sér út í iðnvæðingu, sem breytti þjóðskipulaginu úr bændasamfélagi í 75% borgarsamfélag.  Árið 1940 bjó tæplega þriðjungur þjóðarinnar (42 milljónir) í borgum og í lok 20. aldar bjuggu jafnmargir á Sao Paulo-svæðinu einu.  Rio de Janeiro er næstfjölmennust og önnur stór borgarsamfélög eru Belo Horizonte, Salvador, Fortaleza og Brasilía.  Recife, Curtiba, Porto Alegre og Belém eru skammt á eftir í röðinni.  Þessi öra fjölgun hefur leitt til vandamála á sviðum skipulags- og félagsmála, því að eftirspurn eftir húsnæði hefur hækkað lóðaverð gífurlega.  Miðstéttarfólk hefur orðið að sætta sig við mun minna húsnæði í háhýsum og þeir, sem minna mega sín, í fátækrahverfum (favelas) eða félagslegum íbúðarblokkum, sem eru í margra klukkustunda fjarlægð frá vinnustað.

Kynþættir.  Blöndun kynþátta í Brasilíu hefur verið mikil og hreinstofna fólki fækkar.  Landið hefur löngum verið deigla fjölda kynstofna og menningar.  Samskipti kynstofnanna hefur ekki alltaf verið árekstralaus og mismunun hefur átt sér stað.  Umburðalyndi portúgölsku íbúanna hefur þó dregið verulega úr árekstrum og portúgalskan og katólskan sameinuðu fólkið.  Blöndun kynþáttanna hefur verið mismikil eftir aðstæðum á hverjum stað án þess að aðskilnaðarstefna hafi ráðið ríkjum, heldur byggist þróunin fremur á samheldnum hópum, sem blanda meira geði innbyrðis.  Hópur 200 þúsund indíána hefur t.d. haldið fast við forna siði og venjur og afþakkað tilboð Indíánastofnunar ríkisins um aðstoð.

Indíánar.  Indíánar Brasilíu hafa ekki náð því að aðlagast „siðmenningunni” og efnahagskerfi hvítu landnemanna á líkan hátt og kynbræður/systur þeirra í Andesfjöllum og í Mið-Ameríku.  Skógaindíánarnir voru og eru engu að síður sérstaklega vel aðlagaðir umhverfi sínu.  Þeir kenndu portúgölsku kaupmönnunum og landnemunum að rækta maís og „cassava” í frumskóginum.  Þeir lærðu að sofa í hengirúmum eins og margir gera enn þá í norðurhlutanum, smíða eintrjáninga og sigla flekum (jangadas), sem eru enn þá notaðir við norðausturströndina.  Líklega hefur þriðjungur landsmanna indíánablóð í æðum.  Þessir kynblendingar eru mest áberandi í héruðunum norðan og vestan norðausturhlutans.

Friðsamlegri sambúð Protúgala og indíánanna lauk, þegar þeir voru neyddir til erfiðisvinnu.  Þeir gátu ekki sætt sig við ánauðina og dóu eða flúðu til illaðgengilegustu hluta regnskógarins milli ánna á Amasónsvæðinu eða inn á steppur Mato Grosso.  Þeim fannst þeir ekki nægilega öruggir á þessum slóðum, því að Portúgalar sendu ráns- og könnunarleiðangra (bandeiras) frá Sao Paulo eða borgunum í norðausturhlutanum til að elta indíánana uppi og hneppa þá í þrælahald.  Þessir leiðangrar ollu útrýmingu indíánanna, því að þeir voru mótstöðulausir gegn evrópskum sjúkdómum (flensu, mislingum, rauðum hundum o.fl.).

Negrar.  Þrælasalar fluttu 3 – 4 milljónir þræla frá Afríku til Brasilíu á tímabilinu 16. – 19. öld.  Flestir þeirra komu frá Vestur-Afríku og Angola.  Ólíkt indíánunum löguðu negrarnir sig að erfiðisvinnunni og þjónustustörfum á heimilum nýlenduherranna, þótt sumir þeirra flýðu inn í land.  Á 16. og 17. öldum voru flestir þrælanna fluttir til norðausturhlutans til að vinna á sykurekrunum.  Frá 18. öld, þegar gull og demantar fundust í jörðu, voru þeir fluttir til Minas Gerais til að vinna í námunum.  Þegar þrælahaldið var afnumið 1888, flutti fjöldi negra frá svæðunum, þar sem þeir höfðu unnið, annaðhvort til annarra landbúnaðarhéraða eða til borganna.  Þannig dreifðust þeir um allt landið, þótt mestur fjöldi þeirra væri sem fyrr í norðausturhlutanum.

Negrarnir og afkomendur þeirra hafa haft mjög djúp áhrif á kynþátta- og menningarþróun þjóðarinnar.  Kynblöndun var tekið með meira umburðarlyndi í Brasilíu en í flestum öðrum þrælahaldslöndum, þannig að kynblendingar eru víða fleiri en fólk af hreinum stofnum, einkum á austurströndinni.  Afrísk tónlist, dansar, matur og trúariðkanir hafa bundizt brasilískri menningu órjúfandi böndum.  Hvað sem öllu umburðarlyndi líður, eru negrar neðarlega í virðingar og tekjustiganum, þar sem hvítir tróna efstir.  Þessi staða er skýrð á þann hátt, að þeldökku fólk hafi fjölgað náttúrulega á landsvæðum, þar sem tekjumökuleikar og félagsleg þjónusta séu lakari en annars staðar.  Samkeppni þess og innflytjenda frá Evrópu og Asíu, sem settust að í landinu frá 19. öld, hefur ekki bætt úr.

Evrópumenn og aðrir innflytjendur.  Evrópsk arfleifð, sem er ríkjandi í þjóðarmunstri landsins, er afleiðing stöðugs aðstreymis Portúgala til allra landshluta.  Um þriggja alda skeið voru þeir næstum einu innflytjendurnir frá Evrópu og aðstreymi þeirra hefur aldrei verið hindrað.  Þá er að finna meðal allra stétta þjóðfélagsins og metnaður þeirra stóð og stendur til að ná skjótum árangri á plantekrunum og í viðskiptalífinu.

Innflytjendur af öðru en portúgölsku þjóðerni voru fáir þar til landið varð sjálfstætt (1822).  Flestir evrópskra innflytjenda voru frá Ítalíu, sem settust gjarnan að í Sao Paulo og norðurhluta Rio Grande do Sul og samlöguðust þjóðfélaginu auðveldlega.  Færri komu frá öðrum Miðjarðarhafslöndum, s.s. Spáni og Miðausturlöndum (Sýrlandi og Líbanon), og þeir löguðu sig líka fljótt að aðstæðum í nýja landinu.  Ítölsku innflytjendurnir hafa lagt margt af mörkum á sviði iðnaðar, fjármála, stjórnmála og lista.

Fjölbreytni þjóðfélagsins jókst á 19. og 20. öld, þegar Þjóðverjar bættust í hópinn, og eftir síðari heimsstyrjöldina komu Japanar til skjalanna.  Þessum tveimur þjóðum tókst ekki að verða Brasilíumenn fyrr en tvær til þrjár kynslóðir voru gengnar.  Auk menningargjárinnar, sem skildi þær frá þjóðinni, kusu báðar að halda hópinn í mörg ár á tiltölulega afskekktum svæðum í sveitum landsins.  Menningarleg einangrun þessara hópa var af völdum þýzku og japönsku ríkisstjórnanna, sem höfðu styrkt byggðir þeirra og sent kennara og námsbækur á gamla móðurmálinu til þeirra.  Eftir síðari heimsstyrjöldina aðlöguðust afkomendur þessa fólks þjóðfélaginu.  Slavar voru meðal annarra þjóðerna, sem settust að í Brasilíu og í lok tuttugustu aldar fátt um innflytjendur, þannig að tæplega 1% íbúanna var fætt á erlendri grund.

Tungumál.  Portúgalskan hefur tekið talsverðum breytingu, bæði á heimavelli og í Brasilíu, þar sem tungan barst fyrst á land á 16. öld.  Samstarf milli landanna um stafsetningu málsins hefur ekki dugað til að viðhalda sama tungumálinu í báðum löndunum.  Mismunurinn, sem  felst aðallega í framburði, orðaforða og merkingu orða, er orðinn svo mikill, að Brasilíumenn eiga auðveldara með að skilja spænskumælandi kvikmyndir frá öðrum löndum Latnesku-Ameríku en hinar portúgölsku.  Ný orð og orðasambönd í brasilískun eru rakin til ítölsku, þýzku, japönsku og annarra innflytjenda auk áhrifa frá spænskunni, sem er töluð í nærliggjandi löndum.  Margar breytingar tungunnar má rekja til erlendra vörutegunda og alþjóðlegra orða tengd tækniþróun og tízku.

Margar kenningar eru líka uppi um áhrif tungu indíána á portúgölskuna allt frá upphafi landnáms.  Aðaltungan, sem indíánar í regnskógum Brasilíu og portúgalskir kaupmenn, kristniboðar, ævintýramenn og opinberir embættismenn notuðu sín á milli, var tupian (tupi-guarani).  Þetta samskiptamál var svipað á Amasónsvæðinu og Vestur-Brasilíu fram á 19. öld.  Áhrif þess á staðarnöfn er augljóst og víst er, að þúsundir orða úr indíánamáli hafi kryddað portúgölskuna.  Tupian hafði þau áhrif, að brasilíska málið varð nefmæltara en upprunalega portúgalskan og Brasilíumenn tala almennt hægar og bera alla sérhljóða orðanna fram.

Trúarbrögð.  Næstum 90% þjóðarinnar eru rómversk-katólsk, þannig að hvergi eru fleiri í neinu landi heims, sem játa þessa trú.  Þegar lýðveldið var stofnað í landinu 1889, losnaði um böndin, sem tengdu ríkið og kirkjuna.  Engu að síður eru tengsl fólksins og kirkjunnar sterk, aðallega vegna latnesks uppruna meirihluta innflytjenda á 19. og 20. öld.  Önnur trúarbrögð í landinu er helzt að finna meðal strangtrúaðra katólikka og gyðinga.  Litlir hópar aðhyllast rétttrúnaðarkirkjuna, búddatrú, Shinto, islam og fleiri trúarbrögð.  Fjöldi þeirra jafnast á við þá, sem halla sér að guðspeki, en sú trú skarast við andatrú indíána o.fl.

Margir Brasilíumenn blanda kristinni trú og trúarbrögðum frá Afríku (Macumba, Candomblé, xango og Umbanda).  Candomblé var meðal áhrifamestu trúarbragðanna af þessum meiði og varð ráðandi í Bahiafylki.  Nago Candomblé-trúin, sem er rakin til Yourba-þræla, átti mikilli hylli að fagna og margir trúarhópar tóku hana upp.  Macumba og Umbanda njóta mestrar útbreiðslu í Rio de Janeiro-fylki og xango í Pemambuco-fylki.  Guðir þeirra eru jafnan sambærilegir við dýrlinga rómversk-katólskra.  Dýrafórnir eru algengur hluti trúariðkana þessara hópa.  Prestar af báðum kynjum eru að mestu negrar en áhangendur eru af öllum kynstofnum og stéttum, einkum í borgum landsins.

Skipting landsins.  Yfirvöld hafa skipt landinu í fimm aðalsvæði eftir búsetu og af tölfræðilegum ástæðum.  Í norðurhlutanum eru fylkin Acre, Rondonia, Amazonas og Pará og héruðin Roraima og Amapá.  Í norðausturhlutanum eru Maranhao, Piauí, Ceará, Rio Grande co Norte, Paraiba, Pernambuco, Alagoas, Sergipe og Bahia auk eyjanna Femando de Noronha, u.þ.b. 370 km undan landi.  Í suðausturhlutanum eru Minas Gerais, Espírito Santo, Rio de Janeiro og Sao Paulo.  Í suðurhlutanum eru Goiás, Mato Grosso, mato Grosso do Sul og Tocantins og Sambandshéraðið, sem varð til, þegar nýja höfuðborgin, Brasilía, var stofnuð.

Búsetumunstur.  Brasilíska þjóðin er ung líkt og flest þróunarlönd en hlutfall yngri en 20 ára fór niður fyrir 50% á áttunda og níunda áratugi 20. aldar og hinum eldri fjölgaði.  Nútímavæðing þjóðfélagsins hefur breytt myndinni, aukið lífslíkur og dregið úr fæðingatíðni.  Barnadauði er engu að síður algengur en er talsvert mismunandi milli dreifbýlis og þéttbýlis, þar sem hlutfallið er lágt.  Mestur er hann í norðausturhluta landsins.

Dregið hefur úr fjölda barna á hverja kynþroska konu (15 ára og eldri) en slík tölfræði er líka mismunandi milli landshluta.  Á fimmta áratugnum var meðalfjöldinn rúmlega sex en 8½ víðast í dreifbýli.  Lægst var hlutfallið 4½ í Rio de Janeiro-fylki en á níunda ártugnum var það orðið lægra.  Aukin og bætt heilsugæzla er talin vera meginástæða þessarar þróunar auk meðvitaðrar skipulagningar fjölskyldustærðar og minnkandi áhrifa katólsku kirkjunnar. 

Búferlaflutningar.  Miklir búferlaflutningar hafa ætíð einkennt brasilískt þjóðfélag, einkum þegar ný svæði hafa verið numin eða betri tækifæri til framfærslu hafa boðizt.   Seint á 20. öldinni var mestur straumur f+olks til höfuðborgarinnar og Rondonia-fylkis.  Meðal markmiða stofnunar og byggingar nýju höfuðborgarinnar var að stuðla að fjölgun íbúa fjær ströndinni.  Suðausturhlutinn hefur líka fengið sinn skerf af nýjum íbúum en þeir hafa dreifzt ójafnt.  Fjölgun hefur orðið mikil í Sao Paulo og Rio de Janeiro en fólki hefur stöðugt fækkað í fylkjunum Minas Gerais og Espiríto Santo.  Fækkunin í norðausturhéruðunum hefur verið mun jafnari nema í Piauí-fylki, hjarta þurrkasvæðanna, og Maranhao, þar sem minna bar á henni.   Vesturhluti Maranhao-fylkis nær yfir regnskógasvæði Amasónsvæðisins en austurhlutinn er þurrkasvæði, þannig að fólksflótti þaðan jafnast að mestu við fjölgun í hinum síðarnefnda

Fólksfjölgunin er mest á norður- og miðvestursvæðunum og þróunin er svipuð í suðurhlutanum vegna búferlaflutninga og fleiri innflytjenda.  Suðurhlutinn er auðugastur, bezt tækni- og iðnvæddur og líflegasta svæði landsins.  Þangað stefnir stærstur hluti fólks á faraldsfæti í landinu.  Erlent fagfólk hefur oftast getað komið sér vel fyrir þar.

Aðalástæður búferlaflutninganna eru lækkun tekna í dreifbýlinu vegna úreltra vinnuaðferða og mikill munur á loftslagsskilyrðum í landinu.  Fátækar fjölskyldur og bændur frá mata- og agreste-svæðunum flytjast til borganna.  Þær bólgna út af atvinnulausu og ófaglærðu verkafólki, sem býr við bágborin skilyrði.  Þessi þróun hraðar blöndun kynstofna í þjóðfélagi, sem er að verða æ meira borgarsamfélag en áður.  Hún veldur því líka, að hinir fátækustu gera sér æ betri grein fyrir efnahagslegu og félagslegu ójafnvægi og misrétti.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM