Brasilía heilbrigðismál,
Flag of Brazil


BRASILÍA
HEILBRIGÐISMÁL

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Þótt samhljómur ríki á menningarsviði og opinberum menningarstofnunum Brasilíu, er gífurleg gjá á milli fámenns hóps auðkýfinga og langflestra landsmanna, sem lepja dauðann úr skel.  Á milli þessara stétta er tiltölulega fámenn miðstétt.

Laun eru sett upp sem margfeldi af lágmarkslaunum vegna ríkjandi verðbólgu.  Tveir þriðjuhlutar verkamanna fá tvöföld lágmarkslaun eða minna.  Þriðjungur verkamanna í norðausturhlutanum fær aðeins hálf lágmarkslaun eða minna.  Verð matvæla og laun hækka ekki samstiga og kaupmáttur lægstu launanna gerir launþeganum ekki kleift að kaupa meira en einn brauðhleif og hálfan lítra af mjólk á dag.

Verkamenn njóta ýmiss konar fríðinda, s.s. sjúkra- og atvinnuleysistrygginga, eftirlauna, skyldusparnaðar og orlofs.  Vinnuveitandinn sér um að skila þessum upphæðum til Tryggingarstofnunar ríkisins og þær auka launakostnað þeirra talsvert.  Útgjöld ríkisins til félagsmála eru meiri en vegna hermála.  Þrátt fyrir það, eru flestir hundóánægðir með lágar greiðslur frá ríkinu.  Flestir verkamenn og fjölskyldur þeirra lifa fátæklegu lífi og ná varla endum saman.  Húsnæði í borgum er dýrt og vegalengdir miklar í og úr vinnu.

Mörg vandamál heilbrigðiskerfisins eru til kominn vegna vannæringar og landlægra sjúkdóma, s.s. malaríu, gulu, hitasótt (dengue), niðurgangi, berkla, ormatæringar og hinnar óttalegu chagas-veiki.  Flestir þessara sjúkdóma gera lítið vart við sig á hálendari landsvæðum og á jaðarsvæðum hitabeltisins.  Oswaldo Cruz stofnunin í Rio de Janeiro er aðalrannsóknarstöð hitabeltissjúkdóma.

Tekizt hefur að mestu að útrýma þessum sjúkdómum í borgum landsins, en þeir berast stöðugt þangað aftur með fólki, sem tekur sig upp af landsbyggðinni og flyzt til borganna.  Skorti á hreinlæti og lélegu húsnæði í fátækrahverfunum hefur aðallega verið kennt um.  Frumstæðar heilsugæzlustöðvar, bæði á vegum ríkisins og hjálparstofnana, hafa lagt áherzlu á að bæta heilsufarið í þessum hverfum, einkum með því að sinna verðandi mæðrum og ungabörnum. 

Flestir brasilískir spítalar eru reknir af hinu opinbera og u.þ.b. fimmtungur er einkarekinn.  Hlutfallslega fjölgar læknum verulega frá norður- og norðausturhlutum landsins suður á bóginn og um miðvesturhlutann og flestir eru þeir í suðausturhlutanum.  Langflestar heilsugæzlustöðvar eru í borgum.   Mikill munur er á þjónustu við hátekjufólk, sem leitar gjarnan til einkarekinna stöðva, eða fátæklinganna, þótt flestir læknar starfi að hluta til frítt á stöðvum, sem þeir leita til.  Fjöldi opinberra stofnana rekur heilsugæzlustöðvar en starfsemi þeirra er háð fjárveitingum og er því víðast mjög takmörkuð.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM