Brasilía efnahagslífið,
Flag of Brazil


BRASILÍA
EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Gífurleg náttúruauðæfi Brasilíu skipa landinu í flokk fremstu landa á þessu sviði, þrátt fyrir, að tækniþróun sé takmörkuð.  Landbúnaðurinn er mikilvæg atvinnugrein og landið er þekkt fyrir mestu kaffiframleiðslu heims.  Mikið er af ónýttum tækifærum til jarðefnavinnslu og orkuframleiðslu.  Nýting harðviðarskóga og lands til akuryrkju er takmörkuð.  Iðnaður er vaxandi atvinnugrein og landið hefur þegar skipað sér í flokk iðnríkja.  Járnframleiðsla er á heimsmælikvarða.  Sao Paulo er talin meðal helztu iðnaðarborga og viðskiptamiðstöðva heimsins.

Efnahagsþróunin hefur einkennzt af blómaskeiðum og djúpum dýfum, þrátt fyrir stærð landsins og náttúruauðæfin.  Helztu ástæður þessara sveiflna voru einhæf framleiðsla, sem byggðist á heimsmarkaðsverði.  Landið býr yfir slíkum forða auðæfa í jörðu og ofanjarðar, að þau næga kynslóðum saman, ef þær verða nýttar skynsamlega.  Bættar samgöngur hafa gert sum þeirra aðgengilegri, bæði til útflutnings og uppbyggingar iðnaðar í landinu sjálfu.

Málmar og önnur jarðefni.  Mikið er um járngrýti í Minas Gerais og Pará, þar sem eru einnig miklar birgðir báxíts.  Kunnugt er um magnesíum í Mato Grosso og Amapá.  Lágæða kol finnast í Rio Grande do Sul og Santa Catarina en aðeins hluti þeirra eru vinnsluhæf í síðarnefnda fylkinu.  Önnur jarðefni vítt og breitt um landið eru veigamikill grundvöllur útflutnings.  Olíu- og gaslindir hafa fundizt, m.a. á landgrunninu, þar sem þær hafa verið nýttar.  Ríkisstjórnir landsins og einkafyrirtæki eru stöðugt á höttunum eftir arðvænlegum tækifærum á þessum vettvangi.

Lífrænar auðlindir.  Skógar landsins þekja u.þ.b. tvo þriðjunga Brasilíu en það samsvarar u.þ.b. 14% af skógum jarðar.  Harðviðartré eru algengust á Amasónsvæðinu og Atlantshafsströndinni.  Vegleysur hafa hindrað nýtingu regnskóga Amasónsvæðisins.  Ræktanlegt land er af tiltölulega skornum skammti miðað við stærð landsins.  Rúmlega 7600 km löng Strandlengjan, fljót og ár, sem eru iðandi af lífi, bjóða aðgang að góðum fiskimiðum.  Þessi auðlind er vannýtt og framleiðni hennar í lágmarki.

Vatnsorka.  Landið býr yfir einhverju stærsta vatnasviði jarðar og úrkoma er mikil víðast í landinu nema í norðausturhlutanum, þannig að þar eru mökuleikar til nýtingar vatnsorkunnar geysimiklir.  Núverandi vatnsorkuver landsins eru í suður- og suðausturhlutunum, þar sem orkuþörfin er mest.  Orkuframleiðslan hefur aukizt gífurlega frá 1950, einkum með byggingu vatnsorkuvera.  Ríkið hefur lagt mikla áherzlu á virkja hin gríðarmörgu vatnsföll landsins, m.a. vegna þess að gæði kola úr námum landsins eru ekki nægileg til hagkvæmrar orkuframleiðslu.  Fyrsta kjarnorkuver landsins í grennd við Rio de Janeiro, Angra I, var ræst árið 1982 og Itaipú-vatnsorkuverið við Paraná-ána var hið stærsta sinnar tegundar, þegar það var ræst árið 1984.

Landbúnaður.  Hlutur landbúnaðar í vergri þjóðarframleiðslu hefur minnkað síðan 1950 og minna en þriðjungur vinnuaflsins er bundinn í honum.  Landið er sjálfu sér nægt með helztu landbúnaðarafurðir og er í fararbroddi útflutnings ýmissa hitabeltisafurða.  Hvergi annars staðar í Latnesku-Ameríku hefur verið brotið meira land til ræktunar eftir síðar heimsstyrjöldina en í Brasilíu.  Nærri 9% landsins er notað til ræktunar og u.þ.b. 20% til ræktunar búfjár.

Vélvæðing á víðast langt í land og er einna lengst kominn í suður- og suðvesturhlutunum.  Lítið er um dráttarvélar í norðausturhlutanum, þótt þar sé u.þ.b. helmingur býla landsins.  Flest þeirra eru ekki stærri en fimm hektarar.  Þar hefur ríkið látið byggja stór og dýr áveitukerfi, sem gagnast því miður aðeins takmörkuðum fjölda bænda.

Brasilía er heimsins mesti kaffiframleiðandi.  Mest er ræktað af kaffi í fylkjunum Sao Paulo go Ninas Gerais og minna í Paraná og Espírito Santo.  Sojabaunir og afurður úr þeim, einkum dýrafóður, eru mikilvæg útflutningsafurð og mest var ræktað af þeim í Paraná og Rio Grande do Sul.  Vélvæðing og áburðarnotkun á steppum Mato Grosso do Sul hafa skotið fylkinu í fyrsta sæti þessarar framleiðslu í landinu. 

Eldri greinar landbúnaðarins hafa líka svarað kalli tímans.  Ræktun sykurreyrs breiddist út til að mæta þörfum innanlands fyrir etanól sem eldneyti á bíla.  Sykurreyrinn er unninn á hagkvæman hátt og flestir nýir bílar, sem eru framleiddir í landinu, eru gerðir fyrir brennslu etanóls.  Brasilía er stærsti framleiðandi cassavaróta og hluti þeirra er notaðut til framleiðslu etanóls.  Oftast er landið í fremsta sæti í framleiðslu ætra bauna, castorbauna, kakós og banana og mesta hrísgrjónaland í Vesturheimi.  Stærsti markaðurinn fyrir þessar afurðir er innanlands, þótt ýmislegt sé flutt út, s.s. böstungur og svartur pipar frá Amasónsvæðinu, pálmaolía frá norðausturströndinni, hvítlaukur frá Minas Gerais, jarðhnetur, appelstínur og te frá Sao Paulo og tóbak frá Santa Catarina og Rio Grande do Sul.  Síðastnefnda fylkið er líka miðstöð kjötframleiðslu og vinnslu.  Þar og annars staðar eru geysistór beitilönd, sem hafa gert Brasilíu að einhverju stærsta kjötframleiðslulandi heims.

Timburvinnsla og fiskveiðar.  Grózkumikil flóra og fána landsins er sérstaklega bundin Amasónsvæðinu.  Smáhluti timburframleiðslunnar kemur frá norður- og norðausturhlutanum og að mestu notaður sem eldiviður.  Skógarnir í Vestur-Maranhao og Suður-Bahia eru mikilvæg uppspretta viðarkola líkt og í Tocantins og Austur-Minas Gerais, þar sem mest er framleitt af þeim.  Stærsti hluti timburframleiðslunnar er á suður- og suðvesturlandinu.  Þar er u.þ.b. helmingur „eucalyptus”-ekranna.  Þessi trjátegund var flutt inn frá Ástralíu og nokkrar tegundir voru fluttar inn frá Hondúras, s.s. fura.  Lunginn úr timbrinu er nýttur til framleiðslu trénis og pappírs.

Ferskfiskafli landsins er talsverður.  Allt að fjórðungur hans kemur á land á Amasónsvæðinu.  Mikið er veitt eða alið í norðausturhlutanum.  Fiskiræktin þar byggist aðallega á tegundinni „tilapia”, fiski frá Afríku, sem stækkar hratt í eldinu.

Víðast um landið annast einstaklingar þessar ferskfiskveiðar en rúmlega tveir þriðju úthafsveiða eru á vegum stórra fyrirtækja í sjávarútvegi, sem gera aðallega út frá höfnum í suður- og suðvesturhluta landsins.  Svipaðar útgerðir í norðausturhlutanum færa minni afla á land, aðallega humar og rækjur, sem eru veiddar til útflutnings.  Í Fortaleza eru framleiddir skór, fatnaður og aðrir hlutir úr roði „cambulu”, sem er saltvatnsfiskur, og „tilapia”.  Fyrrum var talsvert framleitt af fatnaði, töskum o.fl. úr skinnum krókódíla en þeir eru nú á skrá yfir tegundir í útrýmingarhættu.

Iðnaður.
Námugröftur.  Næstum öll fylki landsins njóta góðs af auðæfunum í jörðu.  Í Minas Gerais er mestur námugröftur en engin olía eða gas.  Þar hefur löngum verið grafið upp mest af járngrýti fyrir innan- og utanlandsmarkaði.  Járnið finnst hreinast í forkambrískum lögum, sem ná frá Belo Horizonte til austurs að Járnfjallinu í Itabria, efst í Rio Doce-dalnum.  Stóra Carajás Grande-náman hefur keppt við járngrýtið frá Minas Gerais á útflutningsmarkaði.  Carajás Grande er vestan Araguaia-árinnar í Pará og þaðan liggur sérlögð, 500 km löng járnbraut til hafnar nærri Sao Liís.  Rio Doce Valley-fyrirtækið, sem er risastórt og ríkisrekið, sér um meginhluta útflutnings járngrýtisins.  Ríkið rekur fjölda annarra námufyrirtækja.  Einkavæðing í þessum geira hófst um miðjan níunda áratuginn.

Nám  báxíts og magnesíums á Amasónsvæðinu og járngrýtis er nægt til að anna innanlandsþörfinni og líka til útflutnings, en önnur jarðefni eru að mestu notuð innanlands.  Þar er helzt um að ræða magnesíum, króm og kvars frá Bahia, kopar og blý frá Bahia og Rio Grande do Sul, asbest frá Goiás og nickel frá Goiás og Minas Gerais, þar sem er líka grafið eftir sínki og grafíti, sem nægir að mestu innanlandsþörfinni.  Nægilegt tingrýti finnst á svæði meðfram sunnanverðu Amasónfljóti.  Næstum allt tungsten kemur frá Rio Grande do Norte og silfur frá Bahia og Paraná.  Kolaframleiðslan, sem er aðallega í Santa Catarina, stendur undir u.þ.b. helmingi innanlandsþarfa.  Aðalgull- og demantanámurnar eru í Minas Gerais en magnið þaðan er sveiflukennt milli ára og staða, því að það tekur tíma að finna nýjar æðar, þegar aðrar eru fullunnar.  Minas Gerais, Bahia og Espírito Santo eru aðaluppsprettur tópasa, ametýsts, ópalla, aquamarines, tourmalies, emeralda og annarra eðalsteina.  Hvergi annars staðar í heiminum er framboð hálfeðalsteina meira en í Brasilíu.

Hráolía og gas.  Flestar olíu- og gaslindir landsins, sem eru á mismunandi þróunarstigi, eru meðfram Klettabeltinu mikla (myndaðist, þegar Suður-Ameríka og Afríka aðskildust).  Lindirnar á landgrunninu eru arðbærastar.  Fyrstu 25 árin eftir að olíuframleiðsla hófst í landinu árið 1940, var hún takmörkuð við Bahia-lægðina rétt norðan við Salvador.  Svæðið stækkaði hratt og fljótlega var farið að huga að leita að lindum á ströndinni og á landgrunninu frá Fortaleza að Santos.  Árið 1987 voru fyrstu holurnar, sem voru boraðar á Amasónsvæðinu, u.þ.b. 740 km suðvestan Manaus, teknar í notkun.

Rúmlega helmingur olíuframleiðslu landsins kemur frá Campos-lægðinni á landgrunninu utan Rio de Janeiro-fylkis.  Ríkisfyrirtækið Petrográs, sem var stofnað 1953, hefur nýtt tækilegustu borunaraðferðir, sem hafa boðizt hverju sinni.  Það hefur staðið að borunum á 300-600 m sjávardýpi.

Iðnaður.  Iðnaðurinn hefur skipað æ stærri sess í þjóðarframleiðslunni síðan 1967, þegar hann fór fram úr landbúnaðnum, og er orðinn veigamesti þáttur atvinnulífsins.  Aðalmarkaðir framleiðslunnar eru innanlands, þótt mikið sé flutt út af ýmsum vörum.

Þróun iðnaðar í kjölfar heimskreppunnar á fjórða áratugi 20. aldar var á stefnuskrá ríkisins og stofnana þess.  Fjármagn var af skornum skammti í fyrstu nema erlend áhrif fylgdu og stjórnir landsins vildu forðast.  Því tók ríkið að sér flest hinna stærstu verkefna í samvinnu við eitt eða fleiri fyrirtæki innanlands eða erlendis.  Lögum var breytt til að ríkið mætti selja einstaklingum og fyrirtækjum hlutabréf í iðnaðnum.

Mörg iðnfyrirtæki eiga ríkisstuðningi velgengni sína að þakka, þótt háværar og réttmætar gagnrýnisraddir hafa fordæmt aðild ríkisins að þeim og fjölda annarra.  Þessi gagnrýni hefur aðallega byggzt á misnotkun í pólitískum tilgangi, skriffinnsku og seinagangi.  Auk beinna fjárfestinga ríkisins hafa mörg fyrirtæki notið skattaívilnana, verndartolla, innflutningshafta og jafnvel innflutningsbanns.

Einn hinna grózkumiklu þátta iðnaðarins er bílaframleiðslan, sem var stofnað til á sjötta áratugnum til að draga úr innflutningi frá BNA og Þýzkalandi og starfsemi verksmiðja fyrirtækja þessara landa í Brasilíu.  Síðla á níunda áratugnum var framleiðsla farartækja kominn yfir eina milljón á ári og útflutningur var hafinn.

Fullvinnsla olíuafurða telst líka til velheppnaðra ríkisafskipta.  Hvergi annars staðar í Suður-Ameríku er framleiðsla þeirra meiri og þær nýtast vel í öðrum iðnaði landsins.  Petrobrás var upphafið en þetta ríkisfyrirtæki opnaðist brátt innlendum og erlendum fjárfestum.  Ríkið stóð líka að stofnun skipasmíðastöðva og deildi eignarhaldi með einkafyrirtækjum.  Þar voru og eru smíðuð skip af ýmsum gerðum fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings.  Fyrirtækið Embraer, sem ríkið kom á fót, smíðaði litlar flugvélar á dögum mun verri samgangna á landi en flytur nú út margar gerðir flugvéla.  Verndaraðgerðir ríkisins hafa líka dugað ýmsum fyrirtækjum vel, s.s. fyrirtækjum í elektrónískum og tölvuiðnaði.

Vopnaiðnaður landsins beinist helzt að útflutningi og er því í sérflokki, hvað það snertir, og gerir landið að einhverjum stærsta vopnasala heims.  Fyrirtæki í þessari grein eru bæði ríkis- og einkarekin.  Framleiðsla þeirra er í háum gæðaflokki og verðlag er sanngjarnt, þannig að lönd þriðja heimsins eiga mikil viðskipti við Brasilíu. 

Mörg fyrirtæki hafa komizt á fót án ríkisafskipta.  Vefnaðariðnaður landsins, sem fyrst var stofnað til í Hahia árið 1814 og byggðist á baðmullarframleiðslunni í nágrenni verksmiðjanna, er aðallega í Sao Paulo.  Fata- og skóframleiðsla er jafnfætis honum að mikilvægi og aðalmiðstöðvar skógerðar til útflutnings eru í Rio Grande do Sul.  Þessi iðnaður hófst í kringum 1820 í litlum leðuriðjum, sem byggðu afkomu sína á umframframleiðslu húða, sem kjötvinnslan lagði til.  Núna verður þessið iðnaður að flytja inn hluta af hráefnunum frá Argentínu og Úrúgvæ.  Málmvinnslan og verktækniiðnaðurinn komust á fót í Minas Gerais og Rio de Janeiro-fylkjum á 18. öld, þegar námugröfturinn komst á hástig.

Undantekningalítið eru stærstu og beztbúnu iðnfyrirtæki landsins í suðausturhlutanum.  Þar eru flestir iðnverkamenn að starfi.  Þeir njóta hæstu meðallauna verkamanna og skila verðmestu afurðum landsins.  Sao Paulo-fylki framleiðir u.þ.b. helming iðnaðarvara.  Í suðurhlutanum starfa u.þ.b. 20% vinnuaflsins í iðnaði.  Í norðausturhlutanum eru u.þ.b. 10% iðnverkafólks að starfi en það hefur talsvert lægri laun en verkafólkið í suðaustur- og suðurhlutanum.  Þegar á heildina er litið, eru verksmiðjur landsins ekki stórar.  Aðeins lítill hluti þeirra hefur fleiri en 100 starfsmenn. 

Þjónusta.  Þjónustugeirinn, bæði einka- og ríkisrekinn, er mannfrekasta atvinnugreinin með rúmlega fjóröung vinnuafls landsins og hann er í stöðugum vexti.  Einkarekin þjónusta hefur vaxið hraðar en hin opinbera.

Ferðaþjónustan er í örum vexti í Brasilíu en skilningur á uppbyggingu sérstakra ferðamannastaða er ekki vaknaður enn þá.  Nokkur lúxushótel hafa sinnt þörfum ferðamanna, einkum í Rio de Janeiro auk nokkurra gróinna heilsubótarstaða, sem eru flestir á hálendi Minas Gerais, og hótels við hina afskekktu Iguacu-fossa.  Flestir Áhugaverðir staðir eru í eða nærri borgum og eru því aðgengilegir.  Stórborgir landsins bjóða alls konar gistiaðstöðu.

Viðskipti og fjármál.  Fjármálaráð landsins starfar undir stjórn efnahagsráðherrans sem æðsta fjármálastofnunin.  Það stjórnar seðlabankanum, sem gefur út seðla og stjórnar framboði peninga, lánum, erlendum gjaldeyri og öðrum mikilvægum fjármálum.  Sambandsstjórnin notar líka aðrar fjármálastofnanir til að koma stefnu sinni á framfæri, s.s. Brasilíubanka, sem er stærsta bankastofnun landsins með fjölda útibúa innanlands og erlendis.  Hann veitir einstaklingum og fyrirtækjum flest langtímalán.  Efnahaga- og félagsmálabankinn annast lánsfjármál ríkisins í tengslum við þróunarverkefni á svið iðnaðar, námugraftar, landbúnaðar og uppbyggingu í fylkjum landsins, sem þau geta ekki fjármagnað sjálf, s.s. neðanjarðarlestirnar í Sao Paulo og Rio de Janeiro.  Húsnæðisbankinn annast lán til húsbygginga og Efnahagsbanki sambandsríkisins lánar einstaklingum til skamms tíma.

Hvert fylki hefur sinn ríkisbanka.  Minnihluti fjármálaviðskipta atvinnulífsins er í höndum einkabanka, sem veita skammtímalán og stunda innlánsviðskipti, s.s. Carnets de Poupanca, sem lofar vöxtum yfir verðbólgu.

Mikil verðbólgan, sem hefur staðið nokkuð óhögguð á síðari hluta 20. aldar, hefur hrjáð alla anga efnahagslífsins, sem býr líka við hvikulan og hálfstjórnlausan verðbréfamarkað.  Fjöldi óstöðugra vörumarkaða starfar í mörgum borgum.  Utan markaðanna eru nær öll viðskipti verðtryggð miðað við verðmæti ríkisskuldabréfa.  Slíkar aðferðir eru líka notaðar við bankainnistæður og skattgreiðslur, verðmæti eigna, skuldabréf, verð í verzlunum og laun, sem notuð eru til viðmiðunar eftirlauna.  Þessi mikla verðbólga stafar að hluta til af mikilli fjárfestingu ríkisins í uppbyggingu iðnaðar, vaxtaniðurgreiðslum lána til uppbyggingar á öðrum sviðum, og gífurlegum lántökum erlendis vegna þess að sífellt erfiðara er að fá lán innanlands.  Ýmsar áætlanir ríkisins til að draga úr og minnka verðbólguna hafa ekki virkað sem skyldi.

Viðskipti við útlönd hafa ævinlega verið geysimikilvæg.  Tekjur ríkisins byggjast að vísu aðeins að litlum hluta á útflutningi en eru samt mikilvægar vegna innflutnings hráefna fyrir iðnaðinn og sér í lagi hráolíu.  Sögulegt mikilvægi landbúnaðarvara í útflutningi hefur breytzt, því að matvörur í neytendapakkningum hafa orðið sívinsælli eftir miðja 20. öldina.  Það hefur verið erfitt að halda viðskiptajöfnuðinum hagstæðum en á níunda áratugnum tókst það eftir langvinnan halla.  Þessi árangur féll þó í skuggann fyrir risaafborgunum erlendra lána, sem landið er á kafi í.

Veigamestur er innflutningur olíu frá Mið-Austurlöndum, sem kaupa lítið í staðinn frá Brasilíu.  Aðalviðskiptalandið er BNA og þaðan kaupa Brasilíumenn fyrir svipaðar upphæðir og þeir eyða í olíukaupin.  Annar innflutningur kemur frá ESB, öðrum löndum Suður-Ameríku, Asíu og Afríku.  Brasilía flytur út vörur til BNA, ESB, Asíu og annarra landa í Ameríku.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM