[Previous Flag of Bosnia and Herzegovina]


SARAJEVO
BOSNÍA-HERZEGOVINA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Sarajevo er höfuðborg og menningarmiðstöð Bosníu-Herzegovínu.  Hún er í þröngum dal Miljackaárinnar við rætur Trebevicfjalls.  Yfirbragð hennar er múslimskt með fjölda moskna, timburhúsa, skreyttum að innan og gömlum, tyrkneskum markaði (Bascarsija).  Flestir íbúanna eru múslimar.  Helztu moskur borgarinnar eru  Gazi Hureff-Bey eða Begova Dzamija (1530) og Ali Pasha (1560-61).  Husreff-Bey byggði líka Madrasah, íslamska guðfræðiskólann, Imaret, frían matstað fyrir fátæka og Hamam almenningsbaðhúsið.  Við hliðina á Begova Dzamija-moskunnni er klukkuturn frá síðari hluta 16. aldar.  Meðal safna í borginni er Mlada Bosna (Unga Bosnía), sem er deild í Borgarsafninu, Byltingarsafnið, sem segir sögu Bosníu og Herzegovínu síðan 1878 og Gyðingasafn.  Háskólinn í borginni var stofnaður 1949.  Þar er deild fyrir námu- og tækniverkfræði, vísindadeildir og listadeild.  Auk þess eru nokkur sjúkrahús tengd háskólanum.  Nokkrar götur af hinum upprunalegu 37, sem voru nefndar eftir ýmsum iðngildum, standa enn þá, s.s. Kazandzviluk (Koparsmiðabasar).

Skammt frá Sarajevo eru rústir byggðar nýsteinaldarmanna af butmirætt.  Rómverjar komu sér upp hvíldarstað við Ilidza, þar sem Bosnaáin á upptök sín, og þar er enn þá heilsubótarstaður, sem byggir aðallega á náttúrulegum brennisteinsgufum.  Vísigotar, sem komu í kjölfar slava, námu land á Sarajevosvæðinu í kringum árið 700.  Árið 1415 var Sarajevo getið sem Vrhbosna og eftir að Tyrkir gerðu innrás síðla á 15. öld, varð borgin að verzlunarstað og miðstöð íslamskrar menningar.  Kaupmenn frá Dubrovnik byggðu Latínuhverfið (Latinluk) og flökkugyðingar settust að í sínu hverfi (Cifuthani).  Prins Eugene af Savoy brenndi borgina 1697 og 18. öldin var líka  ófriðleg.  Samtímis geisuðu pestir og önnur óáran.

Hið hnignandi veldi Ottomana gerði Sarajevo að stjórnsýslumiðstöð Bosníu og Herzegovínu árið 1850.  Þegar Austurríska keisaradæmið hrakti Tyrki á brott 1878, hélt borgin hlutverki sínu og var byggð um næstu áratugina.  Samtímis varð borgin miðstöð andspyrnuhreyfingar Bosníuserba, Mlada Bosna, sem myrti ríkiserfingja keisaradæmisins, Francis Ferdinand, og konu hans 28. júní 1914 og olli upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar,  Morðinginn hét Gavrilo Princip.  Austurríska keisaradæmið vígbjóst gegn Serbíu og Evrópuríkin flykktu sér bak við báða aðila og styrjöldin hófst. Ríkisþingið í Sarajevo lýsti yfir samstöðu Júgóslavíu.  Andspyrnuhreyfing Sarajevo gerði hernámsliði Þjóðverja erfitt fyrir í síðari heimsstyrjöldinni, þannig að Þjóðverjar urðu að halda þar uppi stærri her en þeir vildu.  Eftir síðari heimsstyrjöldina var unnið hörðum höndum að viðgerðum í borginni.  Eftir sjálfstæðisyfirlýsingu Bosníu-Herzegovínu 1992 varð Sarajevo að miðpunkti í borgarastríðinu, því að serbar hröktu þúsundir múslima úr dreifbýlinu þangað.  Sarajevo skemmdist talsvert í umsátri serba 1993.

Sarajevo er samgöngumiðstöð og þaðan liggur járnbraut að Adríahafinu.  Gamalt handverk er enn þá í heiðri haft, s.s. járnvörugerð og teppavefnaður.  Vetrarólympíuleikarnir voru haldnir þar 1984.  Fyrir borgarastríðið byggðist iðnaður m.a. á vinnslu sykurrófna, bjórframleiðslu, húsgagnagerð, tóbaksframleiðslu, prjónalesi, samtökum landbúnaðarins og framleiðslu bílavarahluta.  Íbúafjöldinn var áætlaður 525.980 árið 1991.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM