Bosnía Herzegovína efnahagur,
[Previous Flag of Bosnia and Herzegovina]


BOSNÍA HERZEGOVINA
EFNAHAGUR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Náttúruauðlindir.  Í kringum Banja Luka og í kringum Kozarafjöll er mikið járnnám.  Báxít er unnið í grennd við Mostar, brúnkol og bik í kringum Sarajevo, Zenica, Tuzla og í Kozarafjöllum.  Sínk, kvikasilfur og mangan finnst í smáum stíl.  Furu-, beyki- og eikarskógarnir eru mikilvægar tekjulindir.  Vatnsorkuframleiðsla og framtíðarmöguleikar eru áhugaverð.  Fiskveiðar eru mun minna stundaðar en tilefni gefst til.

Landbúnaður.  Bosnía-Herzegovína er fyrst og fremst landbúnaðarland með 15% ræktað land.  Á þessum vettvangi starfa bæði einkabú og samyrkjubú.  Frjósamasti jarðvegurinn er í norðurhlutanum, meðfram Savaánni.  Þar sem land er hæðóttara, er það bæði nýtt til ræktunar og sem beitiland.

Uppskeran byggist aðallega á maís, byggi, sojabaunum og kartöflum.  Í Herzegovínu og skjólgóðum hlutum Bosníu er ræktað tóbak.  Kvikfjárræktin byggist aðallega á sauðfjárbúskap en nautgripir og svín eru líka ræktuð í talsverðum mæli.  Helmingur landsins er skógi vaxinn og framleiðsla timburs, húsgagna og annarra trévara er mikilvæg tekjulind.


Iðnaður.  Iðnvæðing landsins er á byrjunarreit en iðnframleiðslan er þegar orðin mikilvæg fyrir hagkerfi landsins.  Útflutningur iðnvara er rúmlega helmingur þjóðartekna nú þegar.  Mest er nýtt af járngrýti, kolum og báxíti í iðnaði landsins.  Vefnaðarvörur, sement, vopn, matvæli, efnavörur, byggingarefni, sellulósi og pappír eru framleidd víða um landið.  Fjöldi vatns- og hitaorkuvera er 12.

Samgöngur.  Fjalllendi landsins hefur ætíð verið hindrun í samgöngum.  Járnbrautakerfið, sem hefur verið í uppbyggingu síðan á dögum Austurríska keisaradæmisins (1878-1918), tengir Sarajevo við aðrar aðalborgir landsins í norðri, Zagreb og Belgrad.  Önnur braut liggur til Mostar og áfram þaðan til Ploce á Adríahafsströnd Króatíu.  Fáar járnbrautir bjóða beintengingar, þannig að mestur hluti fólks- og vöruflutninga fer fram á misgóðu vegakerfi landsins.  Áætlunarflug er á milli Sarajevo, Belgrad, Zagreb og Podgorica (Svartfjallaland).  Samgöngukerfi landsins var að mestu lagt í rúst í stríðinu eftir að landið varð sjálfstætt.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM