Potosi Bólivía,


POTOSI
BÓLIVÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Potosi er einhver hæstliggjandi borg í heimi (4050m) 90 km suðvestan Sucre í Bólivíu.  Hún stendur á kaldri og hrjóstrugri hásléttu í skugga hins fræga Potosifjalls (Cerro Rico = Ríkafjall) sem er eins og maðksmogið af námugöngum.  Samkvæmt þjóðsögunni er nafn þess dregið af potoichi (potoisi eða potocsi), sem er úr máli quechua-indíána og þýðir ógnarhávaði eða skellur.

Árið 1545 fannst silfur á þessum slóðum og borgin fór að byggjast og varð loks víðfræg fyrir auðlegð sína.  Innan þriggja áratuga fór fjöldi íbúa yfir 120.000 og Potosi varð stærsta borgin í nýja heiminum.  Íbúafjöldinn náði hámarki í kringum 1650 en þá fór að draga úr honum vegna samdráttar í silfurframleiðslunni og taugaveikifaraldurs 1719, sem dró 22.000 manns til dauða.  Snemma á 19. öld var Íbúafjöldinn kominn niður fyrir 20.000 en aukinn afrakstur af námunum hratt af stað nýju blómaskeiði.

Flóð og jarðskjálftar hafa tekið sinn toll en Potosi býður samt af sér góðan þokka.  Göturnar út frá Miðtorgi eru mjóar og oft hlykkjóttar.  Umhverfis torgið eru helztu opinberu byggingarnar og dómkirkjan.  Aðrar áberandi byggingar eru San Lorenzo-kirkjan (16.öld) með skrautlegri barokforhlið og Santa Teresa-klaustrið (1691).  Casa de la Moneda (ríkisféhirzlan) var byggð á áttunda tugi 16. aldar og endurbyggð á 18. öld.  Þar er nú sögusafn (m.a. námusafn), mannfræðisafn og Listasafn.  Hinn sjálfstæði Tomás Frías-háskóli (1892) er í borginni.  UNESCO setti borgina á heimsminjaskrá sína árið 1987.

Potosi er þjónustumiðstöð tinnámanna og minna rekstrar við nám blýs, antímonís, kopars og silfurs.  Hún er í þjóðbraut og Sucre-Potosi-járnbrautin tengir hana við Antofagasta (Síle)-La Paz-brautina.  Áætlaður íbúafjöldi 1992 var 112 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM