La
Paz er höfuðborg framkvæmdar- og löggjafarvalds Bólívíu, 68 km suðaustan
Titicaca-vatns. Þessi stærsta
borg landsins er í 3250-4100 m hæð yfir sjó og er því líka hæsta
höfuðborg heims. Við
komuna til borgarinnar finna gestir hennar mismikið fyrir súrefnisskorti.
Miðborgin er í djúpu og breiðu gljúfri La Paz-árinnar
(Choqueyapu). Borgin er u.þ.b.
430 m neðan Altiplano-sléttunnar í skjóli fyrir köldustu
fjallavindunum. Undanfarin
ár hefur borgin byggzt upp gljúfurveggina og alla leið að jaðri
Altiplano.
Alonso
de Mendioza, höfuðsmaður og sigurvegari, stofnaði hana á grunni inkaþorps árið 1548 og nefndi hana Nuestra Senora de La Paz.
Árið 1825 var borgin nefnd La Paz de Avacucho til minningar um
síðustu varnarorrustu í sjálfstæðisstríðunum.
Hún varð aðsetur ríkisstjórnar landsins 1898 en Sucre varð
höfuðborg dómsvaldsins. Murillotorg
norðaustan árinnar er hjarta borgarinnar með stórri dómkirkju og
byggingum ríkisstjórnarinnar og þingsins.
Fáar nýlendubyggingar hafa staðizt tímans tönn en gömlu, þröngu
og bröttu göturnar, rauðu tígulsteinaþökin, mörg háhýsi og litríkir
búningar háfjallaindíánanna með Nevado Illimani-fjall (6322m) og önnur
snævi þakin fjöll í bakgrunni setja sérstakan svip á borgina.
Iðnaðurinn byggist aðallega á matvælavinnslu og framleiðslu
neyzluvara. San Andrés-háskólinn
(1830), Katólski Bólivíuháskólinn (1966), Þjóðlistasafnið og Þjóðminjasafnið
eru meðal margra mennta- og menningarstofnana.
Borgin
er tengd perúskum og síleskum höfnum með skipum um Titicaca-vatn og
járnbrautum og hraðbrautum og Argentínu og Brasilíu.
Millilandaflugvöllurinn er ofan borgarinnar á sléttunni.
Áætlaður íbúafjöldi 1988 var rúmlega 1 miljón. |