Wyoming land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
WYOMING

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál fylkisins er 253.349 ferkílómetrar (10. í stærðarröð BNA).  Sambandsstjórnin á 46,5% landsins.  Fylkið er næstum ferhyrnt í laginu, 445 km frá norðri til suðurs og 585 km frá austri til vesturs.  Hæð yfir sjó er frá 945 m meðfram Belle Fourche-ánni í norðausturhlutanum upp í 4.207 m á toppi Gannett Peak í Vindárfjallgarðinum.  Meðalhæð yfir sjó er 2.043 m.

Wyoming er skipt í fjórar landfræðilegar einingar:  Mið-Klettafjöll, Suður-Klettafjöll, Wyoming-lægðina og Slétturnar miklu.  Fjallgarðar Klettafjalla teygjast frá norðvesturhorni landsins.  Meðal hinna mest áberandi þeirra eru hrjúfur Teton-fjallgarðurinn meðfram vesturlandamærunum, Vindárfjallgarðurinn með granítkjarna sínum, sem teygist í suðaustur frá Yellowstone-hásléttunni og Bighorn-fjöll í miðnorðurhlutanum, austan Bighorn-lægðarinnar.  Laramie-fjöll eru hluti Suður-Klettafjalla og teygjast til norður frá Colorado inn í suðausturhluta landsins.  Stærsti hluti mið-suðurlandsins er hluti af Wyoming-lægðinni, sem er í rauninni margir dalir milli fjallgarða.  Austurhlutinn er hluti af Sléttunum miklu, sem er frjósamasti hluti landsins.  Hluti Svörtuhæða (granít) er í norðausturhorninu.

Helztu árnar eru:  Mississippi-fljótið, Snáká, Grænaá, Norður-Platte-á, Belle Foruche-á, Yellowstone-á, Bighorn-á og Púðurá.  Margar ánna hafa grafið sig djúpt niður í landslagið og myndað ægifögur gljúfur, s.s. Miklugljúfur, Snákárgljúfur, Yellowstone-árgljúfur og Laramie- og Vindárgljúfur.  Yellowstone-áin státar af tveimur þekktum og vinsælum fossum.  Stærstu vötnin eru Yellowstone- og Jackson-vötn, bæði í Norðvestur-Wyoming.  Meðal stærstu manngerðu lónanna eru Flaming Gorge, Glendo, Seminoe, Pathfinder og Boysen.

Loftslag er að mestu kalt og hálfþurrt.  Sumur eru oftast stutt og heit og vetur kaldir og langir.  Hitamunur milli þessara árstíða er mikill.  Meðalárshitinn er á bilinu -1,7°C í Klettafjöllunum í norðvesturhluta landsins til 10°C meðfram suðausturlandamærunum.  Lægsta skráða hitastig er -52,8°C (1933 í Jackson Hole) og hið hæsta 45,6°C (1900 í Bighorn-lægðinni).  Wyoming er eitthvert þurrviðrasamasta fylki BNA.  Eitt veðurfarseinkenna landsins er vindasöm Wyoming-lægðin, þar sem engir fjallgarðar eru til að skýla henni.

Flóra og fána.  Skóglendi þekur u.þ.b. sjötta hluta landsins.  Tæplega helmingur þess er arðbær til nýtingar (fura og greni).  Mikið er um runnagróður og stuttvaxnar grastegundir.  Dýralífið er fjölbreytilegt (wapitielgir, elgir, fjallafé, fjallageitur, svartbirnir, grábirnir, fjallaljón, antilópur, sléttuúlfar, greifingjar, kanínur og sléttuhundar).  Meðal fjölda fuglategunda eru haukar, fálkar og ernir.  Urriði veiðist í fjallaánum.

Auðlindir, framleiðsla, iðnaður.  Námuiðnaðurinn stendur undir 23% vergrar þjóðarframleiðslu.  Helztu jarðefnin eru kol, olía, gas, sódi, járngrýti, úran, fosfat og leir.

Landbúnaðurinn nemur u.þ.b. 2% þjóðarframleiðslunnar.  Helzt er stunduð nautgripa og sauðfjárrækt og talsvert framleitt af mjólkurvörum.  Sauðfjárbúskapur er mikilvægur og framleiðsla ullar.  Helztu uppskerur eru fóður, sykurrófur, bygg og hveiti.

Tekjur af skóganýtingu eru litlar.  Næstum allt nýtilegt timbur er mjúkviður, sem fer að mestu til pappírsgerðar.

Iðnaðurinn nemur aðeins 4% af vergri þjóðarframleiðslu.  Helztu framleiðsluvörunar eru olíu- og kolavörur, efnavara, vélbúnaður til iðnaðar, timbur og trévörur, matvæli, prentað efni og útgáfustarfsemi.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM