Samkvæmt manntalinu 1990 voru íbúarnir 453.588 og hafði
fækkað um 3,4% næstliðinn áratug. Á áttunda áratugnum var þar engu að
síður mesta mannfjölgun í BNA. Meðalfjöldi íbúa á hvern ferkílómetra
var 2. Hvítir 94,2%, negrar 0,8% auk 9.426 indíána, 2.806
Kyrrahafseyinga og Asíumanna. Helztu hópar indíána í fylkinu voru
shoshone og arapaho og 25.750 manns voru af spænskum uppruna.
Menntun og menning. Fyrsti skólinn í Wyoming var stofnaður 1852 í
Fort Laramie. Árið 1869 voru fyrstu fræðslulögin sett og einnig lög
um tekjuöflun til reksturs skólakerfisins. Fjórum árum síðar
endurskoðaði þingið fræðslukerfið og samræmdi kennslu í barna- og
gagnfræðaskólum. Í lok níunda áratugar 20. aldar voru grunnskólar 404
með 97.100 nemendur auk 2.500 í einkaskólum. Þá voru 9 æðri
menntastofnanir í landinu með 29.200 stúdenta. Hinar helztu voru
Wyoming-háskóli (1886) í Laramie, Casper-háskóli (1945) í Casper,
Austur-Wyoming-háskóli (1948) í Torrington og Sheridan-háskóli (1948)
í Sheridan.
Mörg safna landsins sýna list og muni frá dögum forsögulegra
frumbyggja og landnámstímanum. Meðal hinna helztu eru Buffalo Bill
sögumiðstöðin í Cody. Þar er Buffalo Bill-safið og Whitney-listasafnið
með vestrænni list. Þá má einnig nefna Wyoming ríkissafnið í Cheyenne
og Wyoming landnemasafnið í Douglas.
Áhugaverðir staðir eru margir og merkilegir. Hinir helztu eru
Yellowstone þjóðgarðurinn og Grand Teton þjóðgarðurinn. Þar að auki
hefur margt varðveitzt frá landnámstímanum. Nokkur merkileg virki
hafa verið endurbyggð, s.s. Fort Laramie National Historic Site í Fort
Laramie, Fort Bridger ríkissafnið í Fort Bridger, Fort Fetterman
(1867) í Douglas og Fort Caspar í Caspar. Meðal annarra söguslóða eru
Oregon Ruts State Historical Site og Register Cliff State Historic
Site, báðar í Guernsey, og Sjálfstæðiskletturinn nærri Caspar.
Íþróttir og afþreying. Fjöllin, slétturnar, skógarnir, stöðuvötnin og
árnar gefa kost á öllum möguleikum til íþrótta og afþreyingar, sem
hægt er að hugsa sér (gönguferðir, dýraveiði, útilegur, siglingar,
stangveiði, útreiðar, golf og tennis). Skífuskotfimi er víða æfð og
skotfélög (rifflar og skammbyssur) eru vinsæl. Skíðaíþróttin nýtur
vaxandi vinsælda. Helztu skíðasvæðin eru í Jackson Hole í Teton
Village, Snow King Mountain í Jackson og Meadowlark í Worland.
Bændagisting (á stórum búgörðum) og villireiðar (rodeo) njóta vaxandi
vinsælda. |