Æðsti embættismaður er fylkisstjóri, sem er kosinn í
almennum kosningum til 4 ára í senn án nokkurra framboðstakmarkana.
Aðrir helztu embættismenn, sem eru einnig kosnir í almennum kosningum
til 4 ára eru: Varafylkisstjóri, innanríkisráðherra, dómsmálaráðherra,
fjármálaráðherra og menntamálaráðherra.
Þingið starfar í öldungadeild (33; 4 ár) og fulltrúadeild (99; 2 ár).
Forseti öldungadeildar og forseti fulltrúadeildar eru kosnir hvor í
sinni deild. Fylkið á tvö sæti í öldungadeild og níu sæti í
fulltrúadeild sambandsþingsins í Washington DC og ræður 11 kjörmönnum
í forsetakosningum.
Allt frá árinu 1854, þegar einn fyrstu funda lýðveldisflokksins var
haldinn í Ripon, fram á sjötta áratug 20. aldar stóð hann við
stjórnvölinn í fylkinu. Robert M. La Follette var fylkisstjóri
lýðveldisflokksins á árunum 1901-06 við góðan orðstír fyrir
umbótaáætlanir og aðgerðir. Þá var hann kosinn til setu í
öldungadeild sambandsþingsins og árið 1924 var hann
forsetaframbjóðandi framfaraflokksins. Joseph R. McCarthy komst í
sviðsljósið vegna harðra viðbragða sinna og krossferðar gegn
kommúnistum í BNA, þegar hann sat í öldungadeild sambandsþingisins á
sjötta áratugi 20. aldar. Á síðasta áratugi aldarinnar var Wisconsin
tveggja flokka fylki. Fylgi demókrata byggir aðallega á þéttbýlinu og
lýðveldisflokkurinn á meira fylgi í dreifbýlinu. Kjörmenn fylkisins
studdu Franklin D. Roosevelt í þremur kosningum til embættis forseta
BNA (1932-1940) en studdu og styðja að öllu jöfnu fremur frambjóðendur
lýðveldisflokksins til þessa embættis. Árið 1992 náðu demókratar
meirihluta í þingkosningum. |