Wisconsin sagan Bandaríkin,


SAGAN
WISCONSIN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Frá 7000 f.Kr. til 1600 e.Kr. var Wisconsin-svæðið byggt indíánum ýmissa menninga.  Flestir voru þeir veiðimenn, sem stunduðu smáræktun.  Á 17. öld leiddi ófriður milli ættkvíslanna í austurhluta Norður-Ameríku til fólksflutninga inn á Wisconsin-svæðið.  Meðal innflytjenda voru sac- eða sauk-, fox- og potawatomi-indíánar.  Menominee- og winnebago-indíánarnir, sem voru þar fyrir voru líklega afkomendur eldri menningarsamfélaga þar.

Frakkarnir Étienne Brulé, sem kannaði strandsvæði Superior-vatns á árunum 1621-23, og Jean Nicolet, sem er talinn hafa náð til Grænaflóa í Michigan-vatni árið 1634, voru fyrstu Evrópumennirnir í Wisconsin.  Í kjölfarið komu aðrir landkönnuðir og trúboðar.  Frakkar réðu skinnaverzluninni í Wisconsin til ársins 1763, þegar Bretar náðu henni undir sig um hríð þar til Ameríkanar tóku við snemma á 19. öld.  Indíánarnir urðu æ háðari þessum viðskiptum og drógust inn í stríðin seint á 18. öldinni (franska-indíánastríðið 1754-63; sjálfstæðisstríðið við hlið Breta).  Um það leyti, sem Bandaríkin fengu yfirráðin yfir Wisconsin, voru indíánar næstum útdauðir á svæðinu.

Wisconsin varð fylki í BNA strax að loknu sjálfstæðisstríðinu 1783 en heildaryfirráð náðust ekki fyrr en virki voru byggð og mönnuð við Grænaflóa og Prairie du Chien árið 1816.

Á þriðja áratugi 19. aldar löðuðust námumenn frá Missouri, Kentucky og öðrum svæðum að blýnámunum í suðvesturhluta Wisconsin og þar reis fyrsta varanlega byggðin í landinu.  Svarthaukastríðið 1832 var lokatilraun indíána til að hindra yfirráð Ameríkana og nokkrir samningar, sem voru gerðir við þá á árunu milli 1829 og 1848, færðu BNA öll yfirráð.  Landsala hófst á fjórða áratugnum og önnur og stærri bylgja landnema settist að á svæðinu við vatnið, margir bændur frá öðrum hlutum BNA og borgaskipuleggjendur frá Nýja-Englandi og New York.  Þegar Wisconsin varð hérað árið 1836 voru íbúarnir 11.700 talsins.  Árið 1850 voru þeir orðnir 305.400.  Suður- og Norðurríkjamenn tókust á um völdin í héraðsstjórninni.  Árið 1848 var fallizt á stjórnarskráruppkast, sem var svo vel gert, að það er enn í gildi.

Á tímabilinu 1848 til 1915 olli fjöldi innflytjenda frá Evrópu og Kanada miklum breytingum í Wisconsin.  Þjóðverjar, Norðmenn og Pólverjar voru fjölmennastir.  Árið 1870 fór íbúafjöldinn yfri eina miljón.

Undirstöður efnahagslífsins fóru að mótast seint á 19. öldinni og snemma á hinni 20.  Eftir 1880 fóru margir hveitiræktarbændur að snúa sér að nautgriparækt og mjólkurframleiðslu, sem var óháðari verðsveiflum og því hagstæðari fyrir efnahagslífið.  Smá fjölskyldubýli voru undirstaða kröftugra dreifbýlissamfélaga.  Á þessum tíma óx þungaiðnaður og framleiðsluiðnaður verulega í Milwaukee og öðrum borgum við sunnanvert Superior-vatn.  Þegar dró úr nýtingu skóga seint á 19. öldinni, hljóp vöxtur í pappírsframleiðslu meðfram Fox- og Wisconsin-ánum.

Um aldamótin 1900 fór stjórnmálalífið að aðlagast efnahagsþróuninni.  Lýðveldisflokkurinn hafði haft tögl og hagldir síðan sjálfstæðisstríðinu lauk en á síðasta áratugi 19. aldar fór að gæta vaxandi óánægju með íhaldsama og spillta stjórn þeirra, einkum í borgum og á nokkrum landbúnaðarsvæðum.  Þetta olli klofingi í flokknum og óánægða fólkið krafðist umbóta í stjórnmálalífinu og styrkrar stjórnar í efnahagsmálum.  Þessi armur flokksins náði völdum við kosningu Robert M. La Follette sem landstjóra árið 1900.

Eftir fyrri heimsstyrjöldina dró úr straumi innflytjenda en íbúafjöldinn var rúmlega 3 miljónir árið 1940.  Árið 1930 fór íbúafjöldi í þéttbýli fram úr fjöldanum í dreifbýli.  Heimskreppan hægði verulega á eða stöðvaði umbótaaðgerðir stjórnvalda.  Árið 1934 stofnaði Robert La Follette yngri, sem tók við sæti föður sins í öldungadeild Bandaríkjaþings, og bróðir hans, sem var búinn að þjóna í þrjú kjörtímabil sem fylkisstjóri, framfaraflokkinn.  Flokkur hóf þegar aðgerðir gegn áhrifum kreppunnar, stuðlaði að betri samningsaðstöðu verkalýðsfélaga, bjargaði bændum frá gjaldþroti með skuldbreytingaleiðum, stofnaði til margs konar opinberra verkefna og kom í gegn fyrstu lögum um atvinnuleysisbætur í BNA.

Árið 1946 var flokkurinn leystur upp og meðlimir hans reyndu árangurslaust að ná yfirráðum í lýðveldisflokknum.  Í þessum átökum tókst einhverjum umdeildasta stjórnmálamanni í Wisconsin og síðar á Bandaríkjaþingi, Joseph McCarthy, að sigra La Follette, öldungardeildarþingmann, í kosningum.  Ungir framfarasinnar komu sér fyrir í röðum demókrata.  Með stuðningi verkalýðsfélaganna tókst þeim að jafna stöðu flokkanna skömmu fyrir 1950 og koma þannig á fót öflugu tveggja flokka kerfi í landinu á ný.  Á síðasta áratugi 20. aldar voru báðir flokkarnir ötulir í stuðningi við einstaklingsfrelsið, sem var og er einkenni stjórnmálalífsins í fylkinu.

Flóðin í Mississippi-fljótinu og öðrum ám í miðvesturfylkjunum ollu gífurlegu tjóni í fylkinu árið 1993.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM