Milwaukee Wisconsin Bandaríkin,


MILWAUKEE
WISCONSIN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Milwaukee er borg í Wisconsin-fylki við siglingaleið St Lawrence til og frá Vötnunum miklu, mikilvæg hafnarborg og miðstöð viðskipta og iðnaðar (vélbúnaður, málmvörur, matvæli, prentað efni, raf- og rafeindatæki og efnavara).  Þarna er einnig markaður landbúnaðarhéraðs, sem framleiðir mjólk, korn og ávexti og stórar bruggverksmiðjur.  Nafn borgarinnar er úr Potawatomi-máli og þýðir Furndarstaðurinn við vatnið.

Helztu menntastofnanir borgarinnar eru Marquette-háskóli (1864), Wixconsin-Milwaukee-háskólinn (1955), Concordia-háskólinn (1881), Læknaskólinn (1970, Lista- og hönnunarstofnunin (1974) og Verkfræðiháskólinn (1903).  Meðal menningarmiðstöðva eru Almenningssafnið (náttúrufræði og saga fylkisins) og Borgarlistasafnið.  Borgin rekur symfóniuhljómsveit, ballett, og Milwaukee Repertory-leikhúsið.  Kirkja hl. Jósafats (1897-1901) er eina pólska basilíkan í Norður-Ameríku.  Sóknarbörn hennar, aðallega verkamannafjölskyldur, byggðu hana í mynd Péturskirkjunnar í Róm úr ýmsu afgangsefni.  Helztu íþróttalið borgarinnar eru the Brewers (hafnarbolti) og the Bucks (körfubolti).

Fyrir landnám hvíta mannsins bjuggu margar ættkvíslir indíána á þessu svæði.  Franskir trúboðar, sem komu á þessar slóðir síðla á 17. öldinni, fundu þarna fyrir Sauk-, Ojibwa-, Menominee-, Fox-, Mascouten- og Potawatomi-indíána á landi, sem Winnebago-indíánar nýttu fyrrum.  Fransk-kanadískir skinnaveiðimenn, undir forystu Solomon Laurent Juneau, settust þarna að árið 1818 en alvörubyggð fór ekki að þróast fyrr en 1833, þegar indíánarnir létu af kröfum sínum til landsins.  Eftir þrælastríðið hófst framleiðsla matvæla, járn- og stálvöru, vinnsla timburs, litun og bruggun.  Þarna þróaðist hreyfing sósíalista í kjölfar krafna um bætt kjör verkamanna og þrír borgarstjóranna, Emil Seidel (1910-12), Daniel W. Hoan (1916-40) og Frank P. Zeidler (1948-60), voru úr þeim hópi.  Umbætur, sem gerðu höfnina hafskipafæra, og opnun St Lawrence leiðarinnar 1959 gerðu Milwaukee að alþjóðlegri hafnarborg.  Árið 1993 veiktust 281.000 manns vegna mengaðs neyzluvatns og sex létust.  Áætlaður íbúafjöldi 1990 var rúmlega 628 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM