Wisconsin land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
WISCONSIN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál fylkisins er 169.653 ferkílómetrar (23. í stærðarröð BNA).  Sambandsstjórnin á 5,4% landsins.  Það er nokkurn veginn ferhyrnt í laginu, 515 km frá norðri til suðurs og 475 km frá austri til vesturs.  Hæð yfir sjó nær frá 177 m við Michigan-vatn upp í 595 m á toppi Timms-hæðar í miðnorðurhlutanum.  Meðalhæð yfir sjó er 320 m.  Strandlengjur við Vötnin miklu er 1.085 km.

Wisconsin er skipt í fjórar landfræðilegar einingar:  Superior-upplandið, Auraslétturnar, Driftless-svæðið og láglendið austan Vatnanna miklu.  Norðurhluti Wisconsin er á Superior-upplandinu, sem er suðurhluti Kanadaflekans.  Þar þekja grýttir jökulaurar og öldur kristallaðan berggrunn.  Landslagið er prýtt fjölda áberandi jökulaldna, jökulvatna og hnöttóttum granít- og kvarzhæðum, sem tróna 30-90 m yfir umhverfið.

Suðvestan Superior-upplandsins eru Auraslétturnar, flatar og öldóttar, með eldri og minna grýttum jökulaurum og öldum.  Við suðausturjaðar þessa svæðis er flöt slétta, sem er vatnsbotn hins horfna Wisconsin-ísaldarjókullónsins.

Driftless-svæðið nær inn í suðvesturhluta fylkisins.  Þar er lítið um jökulminjar aðrar en set, sem fyllti flesta dali fyrra landslags.  Þetta er eitthvert hrjúfasta og fegursta svæði fylkisins, einkum þar sem Mississippi-fljótið fellur í 60-180 m djúpu gljúfri.

Láglendið við Vötnin miklu austanverð nær yfir mestan austurhluta landsins.  Þar eru mjúklega öldóttar sléttur með góðum jarðvegi til ræktunar.  Innlendis frá Michigan-vatni er Ketiljökulaldan með norður-suðurstefnu.  Hún er meðal athyglisverðustu jökulaldna í heimi vegna fjölbreytilegs landslags.

Helztu vatnsföll landsins eru Mississippi-fljót, Visconsin-áin, Flambeau-áin, Svará, Chippewa-áin og St Croix-áin.  Fjöldi stuttra áa fellur til Superior-vatns og Menominee-, Peshtigo-, Wolf- og Fox-árnar ásamt lækjum og bunum fellur til Michigan-vatns.  Fjöldi stöðuvatna er rúmlega 8000.  Winnebago-vatn er stærst (555 ferkílómetrar).  Græniflói er hluti Michigan-vatns.

Loftslag.  Rakt meginlandsloftslag ríkir í fylkinu.  Sumur eru heit í suðurhlutanum en svöl annars staðar.  Vetur eru kaldir víðast í landinu.  Í Milwaukee í suðausturhlutanum er meðalhiti janúar -7°C og júlí 21,1°C.  Í La Crosse í vesturhlutanum eru sambærilegar tölur -8,9°C og 22,8°C.  Lægsta skráða hitastig er -47,8°C (1922 í Danbury) og hið hæsta 45,6°C (1936 í Wisconsin Dells).  Þrumuveður, sem gjöreyðandi skýstrokkar fylgja stundum, eru algeng á vorin og sumrin, aðallega í suðurhluta landsins.

Flóra og fána.  Skóglendi þekur u.þ.b. 43% landsins, hin stærstu í norðurhlutanum (hlynur, birki, óðjurt, fura, ösp, eik og hikkorí.  Algengir runnar bera bláber, júníber og stikilsber.  Meðal algengra blóma eru 20 tegundir fjólna.  Skógarfjólan er fylkisblómið.

Algeng villt dýr eru:  Dádýr, svartbirnir, greifingjar, rauð- og grárefir, sléttuúlfar, hérar, þefdýr, minkur, bifur og moskrotta.  Dýr í útrýmingarhættu eru timurúlfur, furumörður og kanadíska gaupan.  Algengir veiðifuglar eru fasanar, orrar og akurhænur.  Villtir kalkúnar eru komnir aftur á stjá eftir mikla ofveiði.  Meðal annarra algengra fuglategunda eru rauðbrystingar, músarindlar, svölur og fjöldi spörfugla.  Meðal fuglategunda í útrýmingarhættu eru hlöðuuglan, sléttuhænsn og skallaörninn.  Fylkið er viðkomustaður fjölda farfuglategunda.  Stangveiðimenn veiða helzt geddu, styrju, urriða o.fl. tegundir.

Auðlindir, framleiðsla, iðnaður.  Sandur og möl eru meðal verðmætustu jarðefnanna.  Leir, járngrýti, kopar, gull, silfur, blý, sink og mór eru einnig nýtt.

Landið er í flokki 10 helztu landbúnaðarfylkjanna.  Ræktunin byggist aðallega á nautgripum, svínum og kalkúnum.  Aðaluppskerutegundir eru maís, fóður, kartöflur, sojabaunir, hveiti, bygg, tóbak, rófur, baunir, gúrkur, epli, kirsuber og trönuber.  Minkarækt er stunduð víða og hunangsframleiðsla mikil.

Timburframleiðslan er mikil og byggist aðallega á harðviði (hlyn, álmi, baðmullartrjám, ösp og birki).  Skóglendin, sem eru mest nýtt, eru í eigu fyrirtækja.  Þau nýta helzt furu, greni og óðjurt og framleiða viðardeig til pappírsgerðar.

Fiskveiðar eru ekki miklar (hvítfiskur, urriði, karfi o.fl. tegundir).

Helztu framleiðsluvörur fylkisins eru:  Vélbúnaður til iðnaðar, pappír, málmvörur, matvæli, flutningatæki, rafeindatæki, frummálmar, prentað efni, efnavara, viðarvörur, plast og nákvæmnistæki.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM