Wisconsin íbúarnir Bandaríkin,


ÍBÚARNIR
WISCONSIN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Samkvæmt manntalinu 1990 voru íbúarnir 4.891.769 og hafði fjölgað um 4% næstliðinn áratug.  Meðalfjöldi íbúa á hvern ferkílómetra var 29.  Strjálbýli er mest í norðurhluta fylkisins.  Hvítir 92,2%, negrar 5% auk 38.986 indíána, 7.354 kínverja, 6.914 indverja, 5.618 Kóreumanna og 3.690 Filipseyinga.  Fólk af spænskum uppruna taldist u.þ.b. 93.200.

Menntun og menning.  Fyrsti barnaskólinn var stofnaður 1845 og fyrsti almenni framhaldsskólinn 1849.  Árið 1856 stofnaði Margaretta Schurz, eiginkona stjórnmálamannsins Carl Schurz, fyrsta barnaheimilið í BNA í Watertown.  Fyrsti iðnskóli BNA og námsflokkar voru stofnaðir 1911.  Snemma á 20. öld var búið að þróa menntakerfi fylkisins.  Seint á níunda áratugi 20. aldar voru grunnskólar 2.019 með 783.900 nemendur auk 119.200 í einkaskólum.

Fyrsta æðri menntastofnunin var Milton-framhaldsskólinn (1844) í Milton.  Í kringum 1990 voru þær orðnar 61 með 290.700 stúdenta.  Hin stærsta er Wisconsin-háskóli með 13 stóra útskóla, m.a. í Madison (1849), Milwaukee (1955), Eau Claire (1916) og Oshkosh (1871).

Milwaukee og Madison eru veigamestu menningarmiðstöðvar landsins en aðrar borgir, einkum háskólaborgir, eiga einnig áhugaverðar menningar- og listamiðstöðvar.  Almenningssafnið í Milwaukee státar af bezta náttúrugripasafni landsins.  Listamiðstöðin í Milwaukee og Elvehjem-listasafnið í Madison hýsa stór málverka- og höggmyndasöfn.  Listaverk tengd sögu fylkisins eru í Sögusafni ríkisins í Madison.

Áhugaverðir staðir eru m.a. Dells við Wisconsin-ána og Þjóðarströnd Postulaeyja með minjum um indíána og fyrstu landnemana. Í Aztalan ríkisgarðinum við Lake Mills er endurbyggt indíánaþorp og í Eðluhaugsríkisgarðinum við West Bend eru grafhaugar.  Gamla Wade-húsið í Greenbush er endurbyggð póstvagnakrá með safni gamalla vagna og sleða.  Gamlaheims Wisconsin við Eagle er útisafn með sýnishorn af bændabýlum, sem þýzkir, norskir, danskir og finnskir landnemar reistu á 19. öld.  Merk hús í fylkinu, sem ameríski arkitektinn Frank Lloyd Wright teiknaði ná meðal annars til heimilis hans, Taliesin East, við Spring Green, fyrsti kirkju únítara í Madison og skrifstofubyggingar Johnson Wax Company í Racine.  Bjórbruggun er mikilvæg fyrir efnahag fylkisins og skoðunarferðir í bjórverksmiðjur eru í boði í Milwaukee.

Íþróttir og afþreying.  Fjöldi stöðuvatna og vatnsfalla, strendurnar við Michigan- og Superior-vötnin og fjöldi almenningsgarða og skóglenda gefa kost á fjölbreytilegri útivist og afþreyingu (gönguferðir, útilegur, sund, siglingar, golf, dýraveiðar og stangveiði á sumrin og á veturnar stundar fólk skíða- og skautaíþróttir, snjósleða- og gönguskíðaferðir).  Fjöldi hátíða er haldinn ár hvert.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM