Seattle er borg í Washington-fylki milli Puget-sunds
og Washington-vatns. Hún
er fjölbýlasta borg fylkisins og stendur á nokkrum hæðum og er þekkt
fyrir fagurt útsýni og umhverfi.
Union-, Washington- og Grænavatn eru innan borgarmarkanna.
Fjöll Olympic-þjóðgarðsins gnæfa í vestri og Þrepafjallgarðurinn
(Cascade Range) með Rainier-fjalli er til austurs. Meðfram Elliott-flóa og sunnar, meðfram Duwarnish-ánni,
eru viðskipta- og iðnaðarhverfi borgarinnar.
Íbúðabyggðin er aðallega uppi á hæðunum. Stórborgarsvæðið nær yfir útborgirnar Everett,
Bellevue, Tacoma og Renton.
Seattle er mikil hafnarborg og
miðstöð viðskipta og iðnaðar (flugvélar, hugbúnaður og líftækni).
Boeing er stærsti vinnuveitandinn í Renton og Tacoma og
Microsoft er stórt fyrir tæki á markaðnum.
Ferðaþjónusta, fiskveiðar og vinnsla, viðhald skipa, opinber
starfsemi og starfsemi hersins eru veigamiklar tekjulindir.
Nærliggjandi millilandaflugvöllur, Seattle-Tacoma þjónar þessu
stóra svæði. Stór og góð
höfnin skiptist í innrihöfn á Washington-vatni og Union-vatni, sem
er líka flughöfn fyrir sjóflugvélar, og ytrihöfn í Puget-sundi.
Skipaskurðurinn, sem er kenndur við Washington-vatnið og Hiram
M. Chitttenden-slaufurnar tengja hafnaraðstöðuna.
Lacey V. Murrow-flotbrúin og Evergreen Point-flotbrúin tengja
Seattle við svæðin austan Washington-vatns og ríkisrekið ferjukerfi
annast flutninga til og frá Kitsap-skaga, eyjunum í Puget-sundi og
Viktoríu í Brezku-Kólumbíu í Kanada.
Geysistór ráðstefnumiðstöð var opnuð árið 1988.
Helztu æðri
menntastofnanir Seattle eru Fylkisháskólinn (1861), Cornish-listaháskólinn
(1915), Griffin-háskóli (1909), Seattle-Kyrrahafsháskólinn (1891) og
Borgarháskólinn (1891).
Seattle-miðstöðin
var vettvangur Heimssýningarinnar 1962 (21. aldar sýningin) en þar er
nú Borgaróperan, sem hýsir einnig ballettinn og
symfóníuhljómsveitina. Bagley
Wright-leikhúsið hýsir leikhópinn Seattle Repertory Theatre.
Seattle Center Playhouse hýsir leikhópinn Intiman Theatre og
Charlotte Martin er borgarleikhús barnanna.
Aðrir áhugaverðir staðir eru m.a.
Kyrrahafs-vísindamiðstöðin, Barnasafn Seattle, Geimnálin (185m há),
Iðnaðar- og sögusafnið, Henry-listasafnið og Thomas Burke
ríkisminjasafnið (indíánaminjar).
Þarna eru líka Norræna safnið og Flugsafnið.
Sunnan miðborgarinnar er Pike Place-markaðurinn og
Landnematorgið, sem eru verzlunarhverfi.
Í alþjóðlega hverfinu eru Wing Luke minningarsafnið, Nippon
Kan-leikhúsið, sem er þjóðarminnismerki, og Konungshvelfingin
(1976), sem er leikvangur notaður til tónleikahads og vörusýningar (heimavöllur
úrvalsliðs Mariners í körfubolta og Seahawks ruðningsliðsins).
Listasafn Seattle (1991) í grennd við Pike Place-markaðinn
hýsir frábærrt safn afrískrar- og norðuramerískrar indíánalistar.
Upprunalega safnið í Sjálboðaliðagarðinum (Volunteer Park)
er nú notað fyrir asíska list.
Borgin
styrkir eða rekur Dýragarðinn og Sædýrasafnið og fjölda
almenningsgarða. Uppgötvunargarðurinn
(Discovery Park; 216 hektarar) er hinn stærsti í borginni.
Þar er menntamiðstöð indíána The Daybreak Star.
Trjásafn Borgarháskólans nær til trjá- og runnategunda
víða að í veröldinni (japanskur garður, mýrlendi o.m.fl.).
Mismunandi hátíðir eru haldnar reglulega allt árið um kring,
s.s. Norðvestur þjóðháttahátíðin, Bumbershoot-listahátíðin og
Kvikmyndahátíðin.
Snohomish- og Suquamish-indíánar bjuggu í þessum landshluta áður
en byggð hvítra manna hófst. Árið
1852 fluttust hvítir landnemar frá Alki Point, þar sem þeir settust
að árinu áður, inn á núverandi miðborgarsvæði Seattle.
Bærinn var nefndur eftir Suquqmish-höfðingjanum Seattle.
Sögunarmylla var reist árið 1853 og nýting hinna
gríðarstóru skógarsvæða hófst.
Byggðin óx hægt í fyrstu en eftir að meginlandsjárnbrautin náði
til Tacoma árið 1883 hófst uppgangstími með mikilli fjölgun íbúa.
Kínverskir verkamenn hrúguðust til landsins upp úr 1860 og um
miðjan níunda áratug 19. aldar voru kínverjar orðnir 500. Hvíta fólkið óttaðist að þetta ódýra vinnuafl
kostaði það vinnuna og efnt var til óeirða gegn kínverjunum.
Hinn 6. júní 1889 brann miðbærinn til kaldra kola.
Hann var endurbyggður og Landnematorgið státar enn þá af
mörgum byggingum frá þessum tíma. Þegar gullæðið beindi för fólks til Yukon og Alaska,
var Seattle hlið þessara landsvæða og birgðastöð gullgrafara
eftir 1890. Á þessum
tíma fjölgaði íbúum Seattle úr 37.000 (1889) í 327.000 (1910).
Árið 1910 þjónuðu fjórar járnbrautir á
meginlandsleiðinni Seattle og opnun Panamaskurðarins árið 1914 og
skipaskurðarins, sem er kenndur við Washington-vatn, nokkrum árum
síðar, efldi enn viðgang borgarinnar.
Þá þegar var Seattle orðin alþjóðleg deigla fólks,
Norðurlandabúa, Japana, kínverja o.fl.
Heimsstyrjöldin fyrri jók
á umferð um höfnina. Eftir
síðari heimsstyrjöldina fór að bera æ meira á iðnaði tengdum
geimferðum og eldflaugum. Boeing-fyrirtækið
hóf rekstur á svæðinu fyrir stríðið og þróaði m.a. Boeing 707,
sem var bylting í farþegafluti í heiminum.
Íbúar borgarinna voru flestir á sjötta áratugi 20. aldar
(575.000) en síðan fækkaði þeim vegna flutninga til úrborganna.
Á áratugnum 1980-90 beindist straumurinn aftur til borgarinnar,
þegar fjöldi nýrra fyrirtækja kom til skjalanna (Microsoft o.fl.). Áætlaður íbúafjöldi árið 2012 var rúmlega 600 þúsund.
Seattle er nýr
áfangastaður Icelandair. |