Washington land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
WASHINGTON

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál fylkisins er 184.674 ferkílómetrar (18. í stærðarröð BNA).  Sambandsstjórnin á 29,6% landsins.  Fylkið er nokkrurn veginn ferhyrnt í laginu, 380 km frá norðri til suðurs og 555 km frá austri til vesturs.  Það nær frá sjávarmáli upp í 4.393 m hæð yfir sjó á tindi Rainier-fjalls.  Meðalhæð yfir sjó er í kringum 518 m.  Strandlengjan við Kyrrahafið er 253 km.

Washington skiptist í fjórar landfræðilegar einingar:  Strandfjallgarðarnir, Puget-lægðin, Cascade-fjöll og Columbia-hásléttan.  Vestuhluti fylkisins er hluti strandfjallgarðanna.  Í suðvesturhlutanum eru Willapa-hæðir, lægsti hluti fjallgarðanna.  Þar rís landið hæst í 948 m.y.s.  Olympic-fjöll, norðan Chehalis-dalsins, rísa einna hæst fjallanna við Kyrrahafið.  Olympus-fjall er hæst (2.424m).  Þetta jökulgrafna fjalllendi með djúpum dölum og snævi þöktum tindum er meðal fegurstu hluta strandfjallgarðanna.
Austan strandfjallgarðanna er Puget-lægðin, sem teygist eftir fylkinu endilöngu.  Hæsti punktur hennar er í 150 m hæð yfir sjó og víðast er hún flatlend, þótt sums staðar séu jökulruðningssvæði.

Austan Puget-lægðarinnar er hinn jarðfræðilega flókni Cascade-fjallgarður.  Sunnan Rainier-svæðisins er eldbrunnið flatlendi með keilulaga tindum (Adams-fjall og Helens-fjall).  Norðurhluti fjallgarðsins er granítmassi með stærstu daljöklum fylkjanna sunnan landamæra Kanada.  Hluti þessa svæðis er innan Norður-Cascades-þjóðgarðsins.
Columbia-hásléttan er í suðausturhluta fylkisins.  Hún er í raun stór lægð, sem er þakin stórum hraunflákum.  Árnar Columbia og Snáká hafa grafið sig djúpt niður í landslag hásléttunnar.  Suðausturhlutin hennar, Palouse-hæðir, er þakinn frjósömum áfoksjarðvegi og því eitthvert bezta landbúnaðarsvæði fylkisins.  Allrasuðaustast eru hin tiltölulega lágu Bláfjöll.  Útverðir Klettafjalla teygjast yfir norðausturhorn fylkisins.  Nokkrir tindar þeirra eru hærri en 2.134 m.

Helztu vatnsföll fylkisins eru Columbia-áin (stærst í vesturhluta BNA) og þverár hennar (Snáká, Spokane, Wenatchee og Yakima), Chehalis, Cowlitz, Nisqually og Skagit.  Puget-sund er fimmtungur af flatarmáli Erie-vatns og tengist Kyrrahafi.  Inn úr því teygjast margir firðir.  Chelan-vatn er langt og mjótt jökullón í Cascade-fjöllum, stærsta náttúrulega stöðuvatn fylkisins.  Stór manngerð lón urðu til að baki stíflnanna í Columbia-ánni (Franklin D. Roosevelt-lón og Banks-lón.

Loftslagið er mjög mismunandi frá vestri til austurs.  Vesturhlutinn nýtur milds og raks loftslags en austan Cascade-fjalla er svalara og þurrara.  Meðalárshitinn er á bilinu 10,6°C við Kyrrahafsströndina til 4,4°C í norðausturhlutanum.  Lægsta skráða hitastig er -44,4°C (1968) og hið hæsta 47,8°C (1961).

Flóra og fána.  Gróður er mjög fjölbreytilegur í fylkinu.  Skóglendi þekur helming landsins (greni, sedrusviður, ýmsar furutegundir, óðjurt, burknar og mosi).

Meðal fjölda villtra dýrategunda eru:  birnir, elgir, fjallaljón, villikettir, fjallageitur dádýr, bifrar, minkur, mörður, moskrotta, vísill, íkornar og broddgeltir).  Fuglalíf er fjörugt (krákur, lævirkjar, finkur, lynghænur, sléttufálkar, mávar, sendlingar, tjaldar, kríur og skarfar).  Fyrir ströndinni er urmull tegunda (túnfiskur, stórlúða, rækjur, ostrur, kræklingur, lax o.fl.).  Í vötnum og ám er lax, regnbogasilungur, urriði og hvítgedda.
Auðlindir, frameiðsla, iðnaður.  Námuiðnaðurinn nemur innan við 1% vergrar þjóðarframleiðslu.  Helztu auðlindir í jörðu eru blý, sink, magnesium, gull, kol, sandur og möl, gips kísilgúr, kalk, ólivín og silfur.

Landbúnaðurinn stendur undir u.þ.b. 3% vergrar þjóðarframleiðslu.  Uppskera bænda byggist aðallega á hveiti, fóðri, humli, kartöflum, sykurrófum, baunum og blómknöppum.  Washington er fremsti framleiðandi epla í BNA og auk þess er mikið ræktað af kirsuberjum, plómum, vínberjum, perum og bláberjum.  Kvikfjárræktin gefur af sér mjólkurvörur, nauta- og kindakjöt.

Skógarhögg og skógrækt er stóriðnaður. Doglasfura og óðjurt eru mikilvægustu trjátegundirnar.

Fiskveiðar og vinnsla eru mikilvægir atvinnuvegir, þótt þeir nái ekki 1% vergrar þjóðaframleiðslu (lax, ostrur, krabbategundir, rækjur, kræklingur, stórlúða, lúða, túnfiskur, þorskur, steinfiskur, ufsi og sverðfiskur).

Iðnaðurinn nemur u.þ.b. 17% vergrar þjóðarframleiðslu (flutningatæki, timbur, pappír, matvæli, vélbúnaður til iðnaðar, frummálmar, prentað efni og nákvæmnistæki).

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM