Virginíu er stjórnað í anda stjórnarskrárinnar frá
1970/1971. Æðsti embættismaðurinn er fylkisstjóri, sem er kosinn í
almennum kosningum til 4 ára í senn og sami frambjóðandinn má ekki
þjóna lengur en tvö samfelld kjörtímabil. Varafylkisstjórinn er
einnig kosinn til 4 ára en honum eru ekki sett framboðstakmörk.
Dómsmálaráðherra er einnig kosinn í almennum kosningum en
fylkisstjórinn skipar í önnur embætti, s.s. innanríkisráðherra,
forseta herráðsins, fjármálaráðherra o.fl.
Þingið starfar í öldungadeild (40; 4 ár) og fulltrúadeild (100; 2 ár).
Það er elzta þing BNA. Virginía á tvö sæti í öldungadeild og 11 sæti
í fulltrúadeild sambandsþingsins í Washington DC og ræður 13
kjörmönnum í forsetakosningum.
Virginíubúar hafa mikil áhrif á stjórnarfar BNA og þau voru einna mest
á síðasta hluta 18. og fyrri hluta 19. aldar. Demókratar voru í
forystu frá 1880-1970. Öldungadeildarþingmaður þeirra í
Bandaríkjaþingi, Harry Flood Byrd, sat þar fyrir þeirra hönd frá 1933
til 1965. Kjörmenn fylkisins hafa oftast stutt frambjóðendur
lýðveldisflokksins í forsetakosningum síðan snemma á sjötta áratugi
20. aldar. Í nóvember 1989 kusu Virginíubúar L. Douglas Wilder fyrsta
þeldökka fylkisstjórann í sögu BNA. |