Virginia land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
VIRGINÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál fylkisins er 110.771 ferkílómetrar (35. í stærðarröð BNA).  Sambandsstjórnin á 7,5% af landinu.  Fylkið er líkt þríhyrningi í laginu, 710 km frá austri til vesturs og 320 km frá norðri til suðurs.  Hæð yfir sjó nær frá sjávarmáli upp í 1.746 m á toppi Roger-fjalls í suðvesturhlutanum.  Meðalhæð yfir sjó er nálægt 290 m.  Strandlengjan er u.þ.b. 180 km (5.335 km við lægstu sjávarstöðu með öllum eyjum).

Vigriníu er skipt í fimm landfræðilegar einingar:  Strandsléttuna, Piedmont-hásléttuna, Bláfjöll, Dala- og hryggjasvæðið og Cumberland-fjöll.

Strandsléttan við Atlantshafið nær yfir u.þ.b. fimmtung landsins.  Undir henni er sandur, setlög og leir.  Austurhlutin hennar er á sunnanverðum Delmarva-skaganum.  Vesturhlutinn nær yfir fjögur nes með árósum á milli.  Hann er hæðóttur (60-90m).  Víðast er jarðvegur á þessu flæðilandi ófrjósamur.  Þarnar er fjöldi mýra, þ.m.t. hluti Great Dismap Swamp í suðausturhlutanum.

Piedmont-hásléttan nær yfir u.þ.b. þriðjung landsins.  Berggrunnur hennar er myndbreytt berg og hraun.  Landslagið er svipað strandsléttunni en hæðirnar eru öllu hærri á hásléttunni vestanverðri (200m yfir umhverfið).  Austurhluti svæðisins endar í hlíðarbrún, sem mynda flúðir og fossa í ánum, sem falla til strandar.  Jarðvegurinn er leirkenndari og nokkuð frjósamari en á Strandsléttunni.

Bláfjallasvæðið er mjótt belti myndbreytts bergs, sem trónir hæst í fylkinu (Rogers-fjall og Whitetop-fjall).  Svæðið er mjóst nyrzt og breikkar sunnan Roanoke.

Undir Dala- og hryggjasvæðinu eru fellingasetlög.  Sandsteinn myndar hryggi, sem teygjast upp í 455 m yfir dalina.  Þeir skerast niður í kalkstein og leirflöguberg.  Á þessu svæði er Virginíudalur eða Stóridalur, sem kvíslast í marga smærri.  Þeirra á meðal er Shenandoah-dalur í norðri.

Cumberland-fjöll eru hluti Allegheny-hásléttunnar og líkjast Dala- og hryggjasvæðinu nema að þau ná yfir stærra svæði.  Jarðvegur beggja svæða er þunnur og ófrjósamur nema þar, sem hann hefur myndast á kalkundirlagi.

Helztu ár fylkisins eru Potomac, Rappahannock, York, James, Roanoke (Staunton), Shenandoah (þverá Potomac), New, Tennessee, Clinch og Holston.

Chesapeake-flói er u.þ.b. 3.915 ferkílómetrar að flatarmáli.  Meðal nokkurra náttúrulegra stöðuvatna er Drummond (stærst; í miðju Great Dismal Swamp mýrlendinu).  Stíflur í ánum mynda nokkur stór lón (John H. Kerr, Smith-fjallalónið; bæði í Roanoke-ánni).

Loftslagið er rakt og jaðartrópískt nema í norðvesturhltuanum, þar sem það er rakt og temprað.  Loftslagið er mismunandi milli svæða en meðalhitinn lækkar frá suðaustri til norðvesturs.  Tvö svæði skera sig verulega úr.  Loftslagið á suðaustanverðri Strandsléttunni verður fyrir áhrifum frá Atlantshafinu, þannig að þar eru færri heitir og kaldir dagar, minni snjókoma og lengri ræktunartími en annars staðar í fylkinu.  Vegna hæðar yfir sjó eru heitir dagar færri í Cumberland-fjöllum en víðast annars staðar í landinu.  Meðalhiti janúar í Norfolk, á suðaustanverðri Strandsléttunni, er 4,7°C og í júlí 25,8°C.  Í Pennington Gap í fjalllendinu suðvestanlands er meðalhitinn í janúar 2,2°C og í júlí 23,1°C.  Lægsta skráða hitastig er -34,4°C (1985 í Mountain Lake-líffræðistöðinni á suðvesturlandinu) og hið hæsta 43,3°C (1900 í Columbia og 1954 við Balcony-fossa).  Fellibyljir og skýstrokkar eru fátíðir.

Flóra og fána.  Skóglendi þekur u.þ.b. 40% landsins (eik, fura, túlipanatré, beyki, hlynur, kastanía, víðir, hikkorí, gúmmítré o.fl.).  Meðal fallegra blómplantna eru fjallalárviður, alparós og fjólur.

Meðal algengra dýrategunda eru:  Dádýr, rauð- og grárefur, þvottabjörn, þefdýr, pokarotta, kanína, jarðsvín, íkorni og moskrotta.  Svartbirnir eru upp til fjalla í vesturhlutanum.  Meðal algengra fuglategunda eru endur, gæsir, lynghænur, orrar og kalkúnar.  Margar farfuglategundir hafa vetrardvöl við Chesapeake-flóa.  Í sjónum má m.a. finna krabba, ostrur, hörpudisk, bassa síld, bláfisk, lúðu o.fl.  Í vötnum og ám eru bassar, karfar, sólfiskur og silungur.

Auðlindir, framleiðsla, iðnaður.  Helztu jarðefni, sem unnin eru í fylkinu:  Biksteinn, byggingargrjót (granít og kalksteinn), sandur, möl, náttúrugas, leir, blý, sink, kýanít, feldspat, gips, maríugler, úran og vermikúlít.

Helztu landbúnaðarafurðir eru:  Nautakjöt, mjólkurvörur, fóður, tóbak, kjúklingar, svínakjöt, lambakjöt, upp, egg og kalkúnar.  Uppskera bænda byggist á jarðhnetum, sojabaunum, maís, hveiti, byggi, kartöflum, gúrkum, tómötum, eplum og ferskjum.

Skóglendið gefur af sér talsvert timbur (eik, ösp, hikkorí, fura og kýpressa) og u.þ.b. helmingur framleiðslunnar fer til pappírsgerðar.

Virginía var í flokki 10 fremstu fiskveiðifylkja BNA í kringum 1990 (skelfiskur: hörpudiskur, kræklingur og krabbi auk lúðu, sjóbirtings og síldar).

Helzlu framleiðsluvörur fylkisins eru:  vefnaðarvörur, efnavörur, prentað efni, rafeindatæki, matvæli, vélbúnaður, húsgögn, timbur, gúmmí- og plastvörur.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM