Heildarflatarmál Vermont er 24.903 ferkílómetrar (45. í
stærðarröð BNA). Sambandsstjórnin á 6% landsins. Fylkið er gróflega
líkt ferhyrningi í alginu, 255 km frá norðri til suðurs og 135 km frá
austri til vesturs. Hæð yfir sjó er á bilinu 29 m við Champlain-vatn
í norðvesturhlutanum til 1.339 m á toppi Mansfield-fjalls í
norðurhlutanum. Meðalhæð yfir sjó er 305 m.
Landslag er hið fjölbreytilegasta í Nýja-Englandsfylkjunum og fylkið
liggur hvergi að sjó. Landfræðilega skiptist það í fimm svæði:
Hvítufjöll, Uppland Nýja-Englands, Grænufjöll, Champlain-dal og
Taconic-fjöll.
Hvítufjallasvæðið er í norðausturhlutanum. Það er hálent og hrjúft
granítsvæði, sem teygist inn í New Hampshire. Þarna er meðalhæð yfir
sjó 365m og stök fjöll (monadnocks) tróna upp í rúmlega 1.006 m.
Uppland Nýja-Englands er í austurhlutanum. Það er hæðótt og djúpt
skorið straumhörðum ám, sem renna til Massachusetts. Berggrunnurinn
er flókin blanda myndbreytts bergs og stökum granítfjöllum (Ascutney í
Windsor og Spruce í Groton), sem tróna yfir hæðirnar. Meðfram
Connecticut-ánni er frjósamur jarðvegur.
Grænufjöll í miðhlutanum eru fellingafjöll með norður-suðurstefnu.
Norðan Rutland eru tveir samsíða fjallshryggir og sunnantil, þar sem
forn berggrunnurinn er sýnilegur á yfirborðinu, eru fjöllin lík flatri
hásléttu með ám (West og Deerfield), sem falla um djúpa dali.
Champlain-dalur í norðvesturhlutanum er tiltölulega flatlendur með
setlagaberggrunni (sand- og kalksteinn). Þar tróna stök fjöll (Snákfjall
í Addison >305m). Þetta svæði er vel fallið til ræktunar, því
jarðvegurinn er ekki grýttur og súr.
Taconic-fjöll eru tiltölulega flókið jarðfræðifyrirbrigði í
suðvesturhlutanum. Bergið er víðast umbreytt og tengt marmara- og
hellugrýtisbeltum fylkisins. Hæsti tindurinn er Equinox, sem trónir
yfir borginni Manchester í þröngum Vermont-dalnum. Margir líta á hann
sem skilin á milli Taconic-fjalla og Grænufjalla.
Helztu vatnsföll fylkisins eru: Connecticut, Hudson, Winooski,
Lamoille og Otter Creek, sem er lengsta á landsins. Aðalþverár
Connecticut-árinnar eru White, West, Waits, Williams, Black og
Passumpsic.
Stöðuvötn eru mörg. Hið stærsta er Champlain-vatn, sem teygistinn í
New York og Quebec. Memphremagog-vatn er næststærst og hluti þess er
í Quebec. Stærsta stöðuvatnið, sem er innan fylkismarkanna er
Bornoseen-vatn í grennd við Rutland. Í norðausturhlutanum er fjöldi
vatna.
Loftslagið. Vetur eru langir og sumur stutt og hitamunur milli
þessara árstíða er mikill, meiri en víðast annars staðar á
Nýja-Englandssvæðinu. Kaldast er uppi til fjalla og í
norðausturhlutanum og hlýjast er í dölunum. Í St Johnsbury í
norðausturhlutanum er janúar kaldastur (-8,1°C) og júlí heitastur
(20,8°C). Í Rutland í miðhlutanum eru sambærilegar tölur -5,8°C og
20,8°C. Lægsti skráði hiti er -45,6°C (1933 í Bloomfield, na) og hinn
hæsti 40,6°C (1911) í Vermont í suðausturhlutanum. Snjókoma á veturna
er víðast lítil en sums staðar í fjallendinu er meðalúrkoman 3.175 mm
á ári. Fellibyljir og skýstrokkar eru fátíðir í landinu.
Flóra og fána. Næstum fjórðungur landsins er vaxinn skógi (askur,
beyki, birki, hikkorí, hlynur, eik, fura og greni). Meðal blómplantna
eru anemónur, brönugrös rósir og fjólur.
Meðal villtra dýra eru: Dádýr, elgir, svartbirnir (fáséðir), gaupur,
sléttuúlfar, bifrar, moskrottur, otrar, kanínur, íkornar og
þvottabirnir. Í Champlain-vatni veiðist lax, urriði, gedda og karfi.
Bleikja og regnbogasilungur eru í ám og lækjum.
Auðlindir, framleiðsla, iðnaður. Kopar, tin, járn, silfur mangan og
gull hefur verið numið lengi en öllum námugreftri lauk eftir 1950,
þannig að ekki hefur verið hreyft við birgðum af asbesti, maríugleri,
marmara, graníti, hellugrjóti, sand og möl.
Landbúnaðru er tiltölulega smár í sniðum en engu að síður mikilvægur
efnahag fylkisins. Helztu afurðir hans eru mjólk, nautakjöt, egg,
fóður, epli og hlynsíróp.
Skógnýting er líka smá í sniðum en mikilvæg. Timbur er aðallega nýtt
til pappírsgerðar, í húsgötn og borðvið.
Iðnaðurinn er mikilvægasta atvinnugreinin. Helztu framleiðsluvörurnar
eru rafeindatæki, vélbúnaður til iðnaðar, prentað efni, pappír og
pappírsvörur, vörur úr steini og viði, matvæli, nákvæmnistæki
flutninga- og geimferðatæki. Mikið er framleitt af örnum. |