Samkvæmt manntalinu 1990 voru íbúar fylkisins 562.758
og hafði fjölgað um 10% næstliðinn áratug. Meðalfjöldi íbúa á hvern
ferkílómetra var 23. Hvítir 98,6%, negrar 0,3% auk 1.650 indíána, 679
kínverja, 563 Kóreumanna og 529 indverja. Rúmlega 3.700 voru af
spænskum uppruna.
Menntun og menning. Samkvæmt stjórnarskránni frá 1777 skyldu vera
barnaskólar í öllum borgum og bæjum og menntaskóli í hverri sýslu.
Árið 1823 var fyrsti kennaraskólinn stofnaður í Concord. Seint á
níunda áratugi 20. aldar voru grunnskólar 336 með 94.800 nemendur auk
6.500 í einkaskólum. Þá voru æðri menntastofnanir 22 með 35.900
stúdenta (Bennington-háskólinn (1932) í Bennington og Vermont-háskóli
(1791) í Burlington).
Mörg söfn Vermont sýna ameríska list og minjar frá landnámstímanum.
Helztu söfnin eru: Bennington-safnið, Sheldon-listasafnið í
Middlebury, Robert Hull Fleming-safnið í Burlington, Sögufélagssafnið
í Montpelier, Fairbanks-safnið og stjörnuathugunarstöðin í St
Johnsbury og Shelburne-safnið, sem er endurbyggt landnemaþorp með 35
húsum í Shelburne.
Áhugaverðir staðir. Víða eru sögufræg heimili: Fæðingarstaður
Chester A. Arthur forseta í Fairfield, fæðingarstaður Calvin Coolidge
forseta í Plymouth. Sögufrægir vígvellir: Bennington Battle Monument
(til minninginar um sigur í orrustu gegn Bretum 1777, minnismerki í
grennd við Sharon, þar sem mormónaleiðtoginn Joseph Smith fæddist.
Íþróttir og afþreying. Fjöllin, þjóðgarðar, almenningsgarðar og árnar
gefa kost á dýraveiðum, stangveiði, siglingum, útilegum, gönguferðum
og golfi. Skíðaíþróttin er mjög vinsæl, enda eru 25 skíðasvæði í
fylkinu. Þjóðarskógur Grænafjalls í miðsuðurhlutanum er vinsælt
útivistarsvæði. |