Heildarflatarmál fylkisins er 219.902 ferkílómetrar
(13. í stærðarröð BNA). Sambandsstjórnin á 60% af landinu. Það er
líkt ferhyrningi í laginu en efra hornið hægra megin vantar. Það er
445 km langt frá austri til vesturs og 555 km frá norðri til suðurs.
Hæð yfir sjó er frá 610 m meðfram Beaverdam-gljúfri allrasuðvestast
til 4.123 m á Kings-tindi í Uinta-fjöllum í norðausturhlutanum.
Meðalhæð yfir sjó er nálægt 1.859 m.
Utah er skipt í þrjár landfræðilegar einingar: Klettafjöll, Colorado-sléttuna
og Lægðina miklu. Háreistir fjallgarðar, sem teygjast inn í norður-
og austurhluta fylkisins eru útverðir Klettafjalla. Wasatch-fjallgarðurinn,
austan Stóra-Saltvatns, hefur norður-suðurstefnu. Hann myndaðist við
fellingahreyfingar eyðimerkurjarðskorpunnar. Uinta-fjallgarðurinn
hefur austur-vesturstefnu. Ótrúlega fagurt landslag hans var aðallega
mótað af ísaldarjöklum. Sunnar er hin gríðarstóra Colorado-háslétta,
sem nær yfir u.þ.b. helming landsins. Þetta er hrjúft og auðnarlegt
svæði með fjölda fagurra gljúfra, sem árnar hafa grafið í mjúk
setlögin (Bryce, Zion og Gray). Lægðin mikla nær yfir vesturþriðjung
landsins. Rammi hennar að norðan, austan og vestan er fjalllendi. Á
flatlendi Lægðarinnar tróna lágir fjallgarðar. Flötu svæðin eru
gamlir botnar stöðuvatna og þar eru nú miklar birgðir steinsalts.
Helztu árnar eru Colorado og tvær aðalþverár (Green og San Juan),
Snáká og Sevier-á. Stærstu náttúrulegu stöðuvötnin eru Stóra-Saltvatn
og Utah-vatn, sem eru leifar miklu stærra stöðuvatns, Bonneville-vatns,
sem fyllt Lægðina miklu að mestu. Yfirborð þessara vatna breytist með
loftslaginu (þurrka- og úrkomuskeiða). Stóra-Saltvatn er
afrennslislaust og salt. Stærsta uppistöðulón landsins er Powell í
Coloradoánni.
Loftslagið. Vegna breiddarlegu og hæðar yfir sjó eru hitasveiflur
miklar í landinu. Á sumrin er heitt á daginn, nema hátt uppi í
fjöllum, og tiltölulega kalt á nóttunni. Vetur eru alls staðar kaldir
nema í suðvesturhorninu. Meðalárshiti er frá 0°C í Uinta-fjöllum til
16,1°C í suðvesturhlutanum. Lægstu skráðar hitatölur eru -56,1°C
(1985) og hinar hæstu 47,2°C (1985). Mikið snjóar í Wasatch-fjöllum á
veturna. Regns gætir aðallega í tengslum við þrumuveður á takmörkuðum
svæðum, sem valta oft skyndilegum flóðum.
Flóra og fána. Vegna fjölbreytilegs landslags og loftslags er fjöldi
dýra- og plöntutegunda mikill. Grasafræðingar hafa fundið rúmlega
4.000 tegundir plantna í fylkinu, þ.á.m. fjölda tegunda runna,
sverðlilja og kaktusa. Skóglendi þekur u.þ.b. 28% landsins (fura,
einir, greni, ösp o.fl.).
Meðal algengra dýrategunda eru: Múldýr (skóglendi), antilópur, elgir,
stórhyrnt sauðfé, svartbirnir, víslar, moskrottur, bifrar, greifingjar,
þefdýr, merðir, refir, fjallaljón, gaupur, sléttuúlfar, kanínur,
sléttuhundar, fjöldi eðlu- og snákategunda (eyðimerkur). Mikill
fjöldi tegunda farfugla á leið um fylkið. Helztu veiðifuglar eru
endur, mávar, hegrar og pelikanar. Í ferskvatni eru bassar, urriði,
hvítfiskur og karfi.
Auðlindir, framleiðsla, iðnaður. Kopar er verðmætasta jarðefnið, sem
er unnið í fylkinu en gull og silfur koma næst. Önnur jarðefni eru:
Kol, blý, sink, olía, grjót, sandur, möl, leir, flúor, gips,
magnesium, kvikasilfur, molybdenum, pottaska, úran, salt og vanadium.
Landbúnaðurinn nemur 1,4% af vergri þjóðarframleiðslu. Helztu afurðir
hans eru: Hveiti, fóður, mjólkurvörur, nautakjöt, lambakjöt og
kjúklingar.
Iðnaðurinn nemur 16% vergrar þjóðarframleiðslu. Helztu
framleiðsluvörurnar eru vélbúnaður til iðnaðar, flutningatæki,
nákvæmnistæki, matvæli og rafeindatæki. |