Samkvæmt manntalinu 1990 var íbúafjöldinn 1,722.850 og
hafði fjöldað um 17,9% næstliðinn áratug. Meðalfjöldi íbúa á hvern
ferkílómetra var 8. Aðalþéttbýlið var í norðurhlutanum. Hvítir
93,8%, negrar 0,7% auk 24.093 indíána (navajo, ute, gosiute eða
shoshone o.fl.), 6.500 Japanar, 5.322 kínverjar, 2.797 Víetnamar og
2.629 Kóreumenn. Spænskættað fólk taldi 84.600.
Menntun og menning. Mormónskir landnemar í Saltavatnsdal stofnuðu
fyrsta skólann árið 1847. Núverandi skólakerfi má rekja aftur til
1895, þegar löggjafinn fól borgar- og bæjarráðum að standa straum af
og reka almenningsskóla. Skömmu fyrir 1990 voru grunnskólar 718 með
437.400 nemendur auk 10.900 í einkaskólum. Þá voru æðri
menntastofnanir 14 með 114.800 stúdenta. Meðal hinna helztu þeirra
eru: Utah-háskóli, Tækniháskóli Utah í Salt Lake City (1948),
Westminster-háskóli (1875) í SLC, Brigham Young-háskóli (1875) í
Provo, Tækniháskóli Utah í Provo (1941), Ríkisháskóli Utah (1888) í
Logan, Weber fylkisháskólinn (1889) í Ogden og Suður-Utah
ríkisháskólinn (1897) í Cedar City.
Salt Lake City er miðstöð menningar fylkisins. Þar eru m.a. Hansen
stjörnuskoðunarstöðin, Hogle dýragarðurinn, Alþjóðlegi friðargarðurinn,
Salt Lake listasafnið (heimalistamenn), Sögufélagssafnið, Náttúrugripa-
og listasafn Utah-háskóla, Minningarsafn landnemanna og Kirkjusögu- og
listasafnið. Springville listasafnið er í Springville og lista-,
fornminja- og náttúrugripasöfn eru í Provo.
Áhugaverðir staðir eru margir, þ.á.m. Zion þjóðgarðurinn og Bryce-gljúfursþjóðgarðurinn.
Víða eru sögulegir staðir og minjar í tengslum við indíána, mormóna og
náttúruundur. Musteristorgið í Salt Lake City er umkringt
Mormónamusterinu, tónlistarhöllinni (Tabernacle) og öðrum byggingum.
Býkúpuhúsið í borginni, byggt 1855, var heimili Brigham Young. Í
Newspaper Rock-ríkisgarðinum eru fornar steinristur indíána.
Novenweep-þjóðarminnismerkið í suðausturhorni fylkisins varðveitir
klettabústaði indíána. Á sögustaðnum Golden Spike National Historic
Site er minnst lagningar járnbrautar þvert yfir meginlandið, sem lauk
1869.
Íþróttir og afþreying. Þjóðarskógar og garðar, fjöll stöðuvötn og
vatnsföll gefa kost á margs konar útivist og afþreyingu (tjaldferðir,
dýraveiðar, stangveiði, útreiðar, gönguferðir og vetraríþróttir).
Skíðasvæði eru nokkur, s.s. Sundance í Provo, Alta í Alta, Snowbird
skíða- og sumardvalarsvæðið í Snowbird og Powder Mountain í Eden.
Bryce-gljúfur, Glen-gljúfur og Zion-þjóðgarðurinn eru vinsæl
útivistarsvæði. |