Texas sagan Bandaríkin,


SAGAN
TEXAS

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fjöldi indíánaættkvísla með mismunandi menningu bjó á Texassvæðinu áður en Evrópumenn komu til sögunnar.  Coahiultekar voru hirðingjar í suðurhlutanum, þar sem oftast var lítið um veiðidýr og karankawar öfluðu sér fæðu á landi og úr sjó.  Caddo-ættkvíslirnar voru þróaðri og stunduðu landbúnað með fasta búsetu í austurhlutanum.  Meðfram Rio Grande notuðu jumanar áveitur til ræktunar og apachar og tonkawar veiddu vísunda á vestursléttunum.  Síðar bættust comanchar, cherokee-, wichita og aðrir flokkar indíána við með sína menningu.

Spænsk og mexíkósk yfirráð.  Fyrstu spænsku landkönnuðirnir, sem hættu sér inn á þessi svæði, voru þar á ferðinni nokkrum árum eftir ferðir Kólumbusar.  Álvar Núnez Cabeza de Vaca og félagar hans urðu skipreka og bjuggu í nokkur á með karankawa-indíánum.  Francisco Vásquez de Coronado kannaði Háslétturnar í Texas frá núverandi Lubbock til norðurs inn í Kansas á árunum 1539-42.  Nokkurn veginn samtímis var leiðangur Luís Moscoso á ferð meðal caddo-indíána í Austur-Texas.  Þessum leiðöngrum tókst ekki að finna auðæfin, sem leitað var að, þannig að Spánverjar snéru sér annað og létu þessi svæði afskiptalaus í rúmlega heila öld.  Áhugi þeirra vaknaði á ný, þegar Robert Cavelier, sieur de La Salle, sem stofnaði St Louis-virkið við Matagorda-flóa árið 1684 og lýsti Texassvæðið eign Frakka.

Spánverjar brugðust þannig við, að þeir stofnuðu trúboðsstöðvar á búsvæðum caddo-indíánanna í austurhlutanum árið 1690.  Árið 1722 var komið þar á héraðsskipulagi.  Samtímis var komin byggð í San Antonio í austurhlutanum, í grennd við núverandi Golid, en að öðru leyti var landið strjálbýlt hvítum mönnum.  Áruð 1820, næstum þremur öldum eftir fyrstu, spænsku könnunarferðirnar, var fjöldi spænskra landnema ekki nema u.þ.b. 2000.

Enskættaðir Ameríkanar komu á þessar slóðir í kringum aldamótin 1800 en straumur þeirra jókst ekki verulega fyrr en Stephen Austin og aðrir nýlendumenn hófu að reisa byggðir eftir 1820.  Spænsk yfirvöld leyfðu þessi landnám og síðar mexíkósk (eftir að Mexíkó fékk sjálfstæði árið 1822), þótt margir framámenn í Mexíkó efuðust um þessa stefnu.  Eftir að Bandaríkjastjórn bauðst til að kaupa Texas og óánægðir nýlendumenn reyndu að stofna sjálfstætt lýðveldi, Fredonía, í Austur-Texas 1827, takmarkaði Mexíkóstjórn frekara landnám Bandaríkjamanna verulega.  Engu að síður voru enskættaðir Ameríkanar orðnir stærsti hópur íbúanna (ca 24.000; þ.m.t. 4000 þrælar), þegar uppreisnin í Texas hófst.

Þróunin í landinu var hröð undir stjórn Mexíkós en uppreisnin brauzt út haustið 1835, þegar Antonio López de Santa Anna afnam stjórnarskrá landsins og gerðist einræðisherra.  Texasbúar, bæði af enskum og spænskum uppruna, unnu frækna sigra í upphafi og hröktu Mexíkóher suður fyrir Rio Grande í kringum 1835.  Leiðtogar í Texas voru andsnúnir sjálfstæði en lýstu sig trúa mexíkósku stjórnarskránni og höfnuðu Santa Anna.

Þegar mexíkóski herinn réðist af fullu afli inn í Texas um vorið undir stjórn Santa Anna, var útlitið dökkt fyrir Texasbúa.  Virkin Alamo og í San Antonio féllu í marz eftir að varnarmenn þeirra höfðu barizt til síðasta manns og næstu vikurnar braut Mexíkóher allar varnir á bak aftur í suðurhluta Texas.  Á meðan á bardögum stóð í marz, héldu leiðtogar Texas ráðstefnu í Washington-on-the-Brazos, þar sem þeir sömdu stjórnarskrá og sjálfstæðisyfirlýsingu og stofnuðu lýðveldið Texas.  Þeir skipuðu Sam Houston yfirmann hersins.  Hinn 21. apríl 1836 sigraði Texasher Mexíkómenn í orrustunni við San Jacinto, fangaði Santa Anna og luku uppreisninni með fullum sigri.

Næstu níu árin var Texas stjórnað sem frjálsu ríki án viðurkenningar Mexíkóstjórnar.  Bandaríkin, Bretland og Frakkland viðurkenndu stjálfstæði Texas, sem hvatti til aðflutnings landnema frá BNA.

Flestir Texasbúar voru hlynntir aðild að BNA.  Margir Bandaríkjamenn voru andsnúnir aðild enn eins þrælafylkis og sáu fram á hernaðarátök við Mexíkó, ef úr yrði.  Engu að síður var Texas samþykkt sem hluti BNA árið 1845 og lokastaðfesting þess var samþykkt 1846.  Texasbúar voru mjög virkir þátttakendur í Mexíkóska stríðinu, sem brauzt út nokkrum vikum síðar, samþykktu málamiðlun um núverandi vesturlandamæri fylkisins og héldu áfram að hvetja til frekara landnáms.  Í kringum 1860 mátti rekja íbúadeigluna til flestra Evrópulanda og Mexíkós, þótt flestir íbúanna hefðu flutzt frá öðrum Suðurríkjum BNA og 30% þeirra voru þrælar.

Texas fylkti sér með Suðurríkjunum, þegar borgara/þrælastríðið brauzt út og var að mestu birgðastöð fyrir herinn allt stríðið, þar sem lítil átök urðu á landi þess.  Að stríðinu loknu þurfti ekki að byggja eins mikið upp í fylkinu og í öðrum Suðurríkjum.  Spennan í stjórn- og kynþáttamálum var mikil og mörg vandamál komu upp.  Stjórn lýðveldisflokksins, sem sigurvegararnir komu á fót, stjórnaði með vizku og þolinmæði og smám saman fóru brotin að gróa og hagsæld að aukast á ný.  Demókratar náðu aftur völdum í kringum 1874 og héldu þeim, þrátt fyrir nokkur stjórnmálaátök, næstu 100 árin.

Áratugirnir eftir enduruppbygginguna voru ár framfara, vaxtar og breytinga.  Í kringum 1880 var búið að brjóta indíána á bak aftur og koma þeim fyrir á verndarsvæðum og járnbrautir voru lagðar um allt fylkið.  Nautgriparæktin færði Texasbúum miklar tekjur á endurreisnartímanum og nokkuð lengi eftir hann en aðalundirstaða efnahagslífsins var baðmullin.  Íbúafjöldinn fimmfaldaðist á árabilinu 1860-1900 og 80% íbúanna bjuggu í dreifbýli eða þorpum og bæjum.

20. öldin.  Eftir aldamótin varð þróunin hraðari og breytingar meiri.  Landbúnaðurinn hélt áfram að vera ein aðalundirstaða efnahagsins en samtímis óx iðnvæðing þar til fylkið varð eitt hið iðnvæddasta í BNA.  Olíufundir í Spindletop í grennd við Beaumont árið 1901 voru aðalhvatar hennar.  Á þriðja áratugnum voru komnar upp olíuhreinsunarstöðvar meðfram eftir hluta strandlengju fylkisins.  Í síðari heimsstyrjöldinni var byggður upp iðnaður í tengslum við framleiðslu flugvéla og rafeindaiðnaður og framleiðsla búnaðar til geimferða hófst á sjöunda og áttunda áratugnum.

Iðnvæðingin olli örum vexti borga og mikilli fjölgun íbúa.  Á árabilinu 1970-90 tvöfaldaðist íbúafjöldinn og rúmlega það.

Alla 20. öldina jókst orðstír Texas sem auðugs lands vegna olíunnar, iðnaðarins, landbúnaðarins.  Þrátt fyrir allan þennan auð, eru meðallaun neðan meðaltalsins í BNA og mjög víða í fylkinu skrimtir margt fólk langt fyrir neðan fátækramörk.  Það verður ekki auðvelt að halda efnahagnum í sama horfi í framtíðinni, því stöðugt gengur á olíubirgðir í jörðu og vatnsbirgðir í vesturhlutanum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM