Texas land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
TEXAS

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál Texas er 695.676 ferkílómetrar.  Það er næststærsta fylki BNA og stjórnin í Washington DC á 1,6% landsins.  Það er nokkurn veginn þríhyrnt í laginu, 1285 km frá norðri til suðurs og 1245 km frá austri til vesturs.  Hæðin er frá sjávarmáli við Mexíkóflóa upp í 2666 m á tindi Guadalupe í vesturhlutanum.  Meðalhæð yfir sjó er 518m.  Strandlengjan er u.þ.b. 691 km við Mexíkóflóa.  Þar eru eyjarnar Galveston, Matagorda og Padre.

Landfræðilega skiptist Texas í fjórar einingar:
Lægðina og fjallasvæðið í vesturhlutanum með mörkin við Pecos-ána í austri og Rio Grande í vestri.  Þar rísa há fjöll upp af hásléttunni og djúp gljúfur efri hluta árinnar Rio Grande eru kóróna fegurðar þess.

Slétturnar miklu ná yfir mestan miðhlutann og ræmuna í norðri.  Þær eru í mismunandi hæð yfir sjó, allt frá 215 m austantil til rúmlega 1219 m á Llano Estacado (Stikusléttunni) við landamærin að Nýju-Mexíkó.  Slétturnar eru trjálausar og þurrar og enda í suðri í hæðóttu landslagi og Edwards-hásléttunni.

Osage-slétturnar með frjósömum jarðvegi.  Þar er stunduð mikil ræktun með og án áveitna (aðallega hveiti og baðmull).  Þær teygjast suður frá Oklahoma inn í miðhluta Texas.  Jarðvegurinn í austurhlutanum er dökkur.  Í vesturhlutanum er talsverð kvikfjárrækt.

Vesturflóasléttan nær yfir u.þ.b. 40% fylkisins í austurhlutanum.  Hún er lág og flatlend frá sjávarmáli upp í u.þ.b. 90 m.  Sendinn jarðvegurinn er frjósamur og lofthiti og nægileg úrkoma gera hana að góðu ræktarlandi.

Helztu árnar í Texas eru:  Rio Grandi (landamærin að Mexíkó), Nueces, Colorado, Brazos, Trinity, Neches, Canadian og Rauðá.  Margar ánna hafa verið stíflaðar og fjöldi manngerðra lóna hafa myndazt (Amistad- og Falcon-lónin í Rio Grande, Texoma, Wright Patman, Tawakoni og O’ the Pines í norðausturhlutanum).  Lón sjá flestum borgum miðhluta landsins fyrir neyzluvatni.  Sölt stöðuvötn og eru algeng í Lægðinni og fjallasvæðinu.

Loftslag er næstum hitabeltiskynjað í Neðri-Rio Grande-dalnum og hálfeyðimerkurlegt í suðvesturræmunni.  Mestur hluti landsins nýtur raks, jaðartrópísks loftslags.  Sumrin eru heit um allt land, 31°C í Galveston og 34°C í Amarillo (fer oft yfir 38°C).  Lægsti vetrarhiti í Galveston 9,4°C og -4,4°C í Amarillo.  Lægsta skráð hitastig í Texas er -30,6°C (1899 í Julia í norðurhlutanum og 1933 í Seminole í norðvesturhlutanum) og hið hæsta 48,9°C (1936 í Seymour í norðurhlutanum).  Fellibyljir valda skaða í strandhéruðum við Mexíkóflóa og hvirfilbyljir inni í landi.

Flóra og fána.  Austast eru þéttir skógar og eyðimerkursvæði í suðvesturhlutanum.  Skóglendi nær yfir 8% landsins (eik, gúmmítré, fura, einir, meskít og fjallasedrus).  Kaktus vex víða í hæðóttu landslagi og alls staðar í Lægðinni og fjalllendinu.  Tegundir villtra blómplantna eru rúmlega 4000.

Meðal fjölda villtra dýrategunda eru:  kanína, þefdýr, pokarotta, þvottabjörn, beltisdýr (armadillo), kalkúnar, dádýr, fjallaljón, gaupa, sléttuúlfur og rauðúlfur.  Hvergi í BNA eru fleiri nautgripir, sauðfé og hestar.  Tegundafjöldi snáka er rúmlega 100 (16 þeirra eitraðir).  Í ám og vötnum eru bassi, karfi og sólfiskur.  Talsvert er veitt af rækju og ostru úti fyrir ströndinni.

Fjöldi fuglategunda er í kringum 400 (söngtrönur sjaldgæfar).  Kattartegund (ocelot), jaguarondi og houston-froskur eru í útrýmingarhættu.

Auðlindir, framleiðsla, iðanaður.  Texas er aðalframleiðslufylki olíu- og olíuvöru og náttúrugass í BNA.  Talsvert er unnið af salti, brennisteini, kolum, hráefni í sement, grjóti, sand, möl, leir, gipsi, maríugleri, magnesíum, helíum, járngrýti, míka, úran, pottösku, blýi, molybdenum, tini, tungsten og sínki.

Landbúnaður er mikilvægur og Texas er í öðru sæti fylkjanna í framleiðslu landbúnaðarafurða (baðmull, sorghum, vatnsmelónur, kál, spínat, angóruull, mjólkurvörur, hestar, lambakjöt, geitur, nautakjöt, kjúklingar, svín, maís, hveiti, hey, hrísgrjón, hafrar, jarðhnetur, pekanhnetur, sojabaunir, sítrusávextir, grænmeti, sykurrófur, sykurreyr, gulrætur, tómatar, kartöflur og laukur).

Texas er í fremstu röð fylkja, sem nýta skóga sína.  Mest nýtta trjátegundin (80%) er fura, sem er notuð til framleiðslu pappírs, bjálka og borðviðar.

Fiskveiðar eru mikilvægar.  Einkum er gert út á skelfisk (rækjur 95% og ostrur).  Helztu fisktegundir eru snapper, lúða og túnfiskur.

Iðnaðurinn er mikilvæg fyrir efnahagslífið.  Helztu framleiðsluvörur eru flutningatæki, vélbúnaður til iðnaðar, rafeindatæki, málmvörur, efnavörur, hreinsuð olía, kolavörur, matvæli, vefnaðarvörur, vörur úr steini, gler, leirmunir, prentað efni, gúmmí- og plastvörur, timbur, húsgögn, pappír og nákvæmistæki.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM