Houston Texas Bandaríkin,


HOUSTON
TEXAS

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Houston er innlandshafnarborg og stjórnsýslusetur Harris-sýslu í Suðaustur-Texas, tengd Houston skipaskurðinum við Mexíkóflóa og vatnaleiðinni við Galveston 82 km suðaustar.  Hún er stærsta borg fylkisins og háhýsi hennar gnæfa yfir flatri Flóasléttunni, sem liggur 12 m yfir sjávarmáli.  Antonio López Santa Anna, hershöfðingi, jafnaði fyrstu byggðin, sem þróaðist á þessu svæði (Harrisburg, 1826), við jörðu í apríl 1836, þegar hann var að elta Sam Houston og Texasherinn, sem var á undanhaldi.  Viku síðar laust herjunum saman skammt utan núverandi borgar í orrustunni við San Jacinto, Santa Anna var handsamaður og Texas losnaði úr greipum Mexíkóa.

Bræðurnir Augustus C. og John K. Allen frá New York keyptu land nærri hinni brunnu Harrisburg í ágúst 1836 og hófu auglýsingaherferð fyrir framtíðarverzlunarsvæði þar.  Tveimur mánuðum síðar tókst John Allen að fá yfirvöld til að flytja fyrsta þjóðþing hins nýja Texaslýðveldis til nýju borgarinnar, sem hann skírði í höfuð fyrsta forseta þess, Sam Houston.  Þessari ákvörðun var breytt síðar, þannig að þingið starfaði þar aðeins í tvö ár (1837-39).

Borgarstæðið var í mýrlendi og gulufaraldrar þjökuðu íbúana, þannig að bærinn óx hægt sem hafnarbær.  Í þrælastríðinu var þar miðstöð þeirra, sem stunduðu viðskipti og flutninga í trássi við hafnbann Norðurríkjanna.  Árið 1862 komust Norðurríkjamenn hvað næst borginni, þegar þeir lögðu Galvestoneyju undir sig en Suðurríkjamenn ráku þá fljótlega á braut.  Árið 1863 voru höfuðstöðvar þriggja Suðurríkjanna, Texas, Nýju-Mexíkó og Arizona.

Borgin þróaðist sem miðstöð 12 járnbrauta árið 1891 og eftir að fellibylur og flóð höfðu valdið miklum skaða í Galveston árið 1900 varð Houston aðalhafnarborg fylkisins.  Fyrsta bryggjan var byggð árið 1840 og breikkun og dýpkun Buffalo Bayou hófst 1869 (nú hluti Houstonskurðarins).  Snemma á níunda áratugi 20. aldar fóru u.þ.b. 80 miljónir tonna af vöru um þessa stóru höfn á ári.

Árið 1901 fannst olía á þessu svæði og veruleg iðnvæðing kom í kjölfarið.  Houston varð mikilvæg miðstöð olíu- og gasvinnslu og samtímis miðstöð rannsókna og þróunar í geimvísindum.  Olían, gasið, brennisteinn, kalksteinn og salt sköpuðu einhverja fjölbreyttustu iðnaðarborg veraldar þarna við skipaskurðina.  Lyndon B. Johnson geimferðastjórnstöðin (1961) er rúmlega 36 km suðaustan borgarmiðjunnar í grennd við stöðuvatnið Clear Lake.  Umhverfis borgina er mikið ræktað af hrísgrjónum, baðmull og nautgripum.

Helztu æðri menntastofnanir Houston og nágrennis eru Rice-háskólinn (1891, Houstonháskóli (1927), Baptistaháskólinn (1960), Suðurháskóli (1947) og Háskóli hl. Tómasar (1947).  Heilbrigðismiðstöð Texas (1945) er geysistór kjarni sjúkrahúsa, læknaskóla og rannsóknarstofnana.  Houston er ein fárra bandarískra borg, sem rekur symfóníuhljómsveit, listdanshópa, óperu og leikhús með atvinnumönnum.  Félagsmiðstöð Houston hýsir m.a. Jesse H. Jones leiklistarhöllina (1966), symfóníuhljómsveitina (1913), óperuna og listdanshópana auk Geimhetjuhallarinnar og Alley-leikhúsið (1968).  Astrodomain er glæsileg afþreyingarhöll, sem var byggð á sjöunda áratugi 20. aldar.  Hún hýsir m.a. stóran íþróttaleikvang (heimavöll Astros hafnarboltaliðsins), Astrohöllina (stór sýningarhöll; gripasýningar; ótemjureiðar og fjölleikahús) og Astroheim (skemmtigarður).  Dýragarðurinn, Náttúruvísindasafnið og Burke Baker-stjörnuhvelfingin eru í Hermanngarðinum og meðal annarra menningarstofnana eru Listasafnið og Samtímalistasafnið.  Millilandaflugvöllurinn var opnaður árið 1969.  Áætlaður íbúafjöldi á Stór-Houstonsvæðinu árið 1995 var rúmlega 3,7 miljónir.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM