Fort Worth er veigamikil miðstöð
samgangna og fjölbreytt iðnaðarborg í Texas (farartæki, lyf, matvæli,
tölvur, olíuvörur og eldsneyti.
Þar er Kristni fylkisháskólinn (1873), Wesley-háskólinn
(1891), Suðvestur-baptista-guðfræðiskólinn (1908) og Beinalækningaháskólinn
(1970). Meðal margra
menningastofnana eru Will Rogers minningarmiðstöðin, Amon Carter-safnið
og Fort Worth-vísinda- og sögusafnið. Alþjóðleg keppni í píanóleik, kennd við Van Cliburn,
er haldin á fjögurra ára fresti.
Árið 1849 var byggð herstöð
til að vernda landnema gegn árásum Comance-indíána. Hún var nefnd eftir William Jenkins Worth hershöfðingja,
sem tók þátt í Mexíkóstríðinu og byggðin varð viðkomustaður
á Chisholm-leiðinni, sem var m.a. notuð til nautgriparekstrar til
Kansas. Lagning járnbrautarinnar 1876 efldi atvinnu- og efnahagslíf
byggðarinnar, sem varð markaðsborg fyrir nautgripi og síðar kornvöru.
Nútímaiðnvæðing borgarinnar hófst, þegar olía fannst í jörðu
í næsta nágrenni árið 1920. Í síðari heimsstyrjöldinni elfdist hagur borgarinnar enn
vegna þarfa hersins og byggingar herstöðvar. Áætlaður íbúafjöldi
1990 var tæplega 448 þúsund. |