Dallas Texas Bandaríkin,


DALLAS
TEXAS

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Dallas er næststærsta borg Texas (Houston er stærri) og hin áttunda í röðinni í BNA.  Hún er ein mikilvægasta miðstöð viðskipta, fjármála og vörudreifingar í suðvesturhluta BNA og hún er einnig mikil iðnaðarborg (rafeinda- og raftæki, flutningatæki, matvæli og útgáfustarfsemi).  Með tengslum við smáborgirnar allt umhverfis og Fort Worth lítið eitt vestar er Dallas í flokki með stærstu stórborgarsvæðum BNA.  Verzlun og viðskipti, banka- og tryggingastarfsemi eru veigamiklir atvinnuvegir.  Á svæðinu umhverfis borgina eru þrír flugvellir, þ.á.m. Dallas-Fort Worth millilandavöllurinn miðleiðis milli borganna, sem er meðal hinna annríkustu í öllu landinu.

Land borgarinnar nær yfir 608 ferkílómetra svæði og þar er fjöldi grænna bletta og belta.  Helztu söfn borgarinnar eru Listasafnið (1903) og Náttúrugripasafnið (1936).  Í lok þrælastríðsins var Deep Ellum (Deep Elm) hverfið aðalviðskiptamiðstöð borgarinnar með hverfum negra allt um kring.  Viðskiptahverfið blómstraði fram á fjórða áratug 20. aldar og á síðari hluta aldarinnar var hafizt handa við endurnýjun þess.  Pythian Temple (1916; arkitekt William Sydney, tengdasonur Booker T. Washington) var vettvangur Hinna svörtu riddara Pythias.  Texasleikvangurinn er heimavöllur Dallas Cowboys (ruðningur en Dallas Mavericks (hafnarbolti) og Dallas Stars (íshokkí) leika á Reunion-leikvanginum.

Helztu æðri menntastofnanir borgarinnar eru Suður-meþódistaháskólinn (1911), Baptistaháskólinn (1965) og Suðvestur-læknaháskólinn (1943).  Þar að auki er vel á annan tug skóla á stórborgarsvæðínu, s.s. Dallasháskóli (1956), Texasháskóli (1969; í Irving) o.fl.  Borgin rekur sína eigin symfóníuhljómsveit og óperu.  Leiklistarmiðstöðin (1959) er eina leikhúsið, sem arkitektinn Frank Lloyd Wrigh hannaði, og Monrton H. Meyerson symfóníumiðstöðina (1989) hannaði I.M.Pei.

Frakkar heimsóttu Anadrako-indíánana á svæðinu reglulega á 18. öld til að verzla við þá en byggð á Dallassvæðinu hófst fyrst árið 1841, þegar John Neely Brian settist þar að.  Upprunalegt heimili hans (bjálkakofi) var endurbyggt og er nú í Borgargarðinum.  Fimm árum síðar var sprottið upp þorp, sem fékk nafn fyrrum varaforseta BNA, George Dallas.  Vöxtur byggðarinnar var hægur en tók smáfjörkipp, þegar franskir og svissneskir iðnaðarmenn fluttust þangað frá La Réunion, þar sem landnám mistókst, árið 1858.  Á áttunda áratugi 19. aldar voru lagðar nokkrar járnbrautir, sem efldu efnahag Dallasbúa.  Árið 1890 var Dallas orðin stærsta borg Texas.

Á fyrsta þriðjungi 20. aldar var verzlun með baðmull og aðrar landbúnaðarafurðir grundvöllur efnahagslífsins.  Samtímis óx starfsemi á sviðum banka- og tryggingarmála fiskur um hrygg og frumkvöðlar í bankastarfseminni lánuðu fé til olíuborunar með veði í væntanlegri olíu.  Árið 1930 fannst stóra olíusvæðið í Austur-Texas, suðaustan borgarinnar og Dallas varð að mikilvægri olíuborg.  Aðalvöxtur borgarinnar hófst eftir 1950 með miklu aðstreymi fólks og aukinni iðnvæðingu og flutningum.  John F. Kennedy, forseti BNA, var myrtur í borginni í nóvember 1963.  Áætlaður íbúafjöldi 1990 var rúmlega 1 miljón.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM