Austin Texas Bandaríkin,


AUSTIN
TEXAS

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Austin er höfuðborg Texas og Travis-sýslu (1840) í miðsuðurhluta fylkisins, þar sem Colorado-áin fellur fram af Balcones-brúninni.  Fyrsta byggðin þarna við ána hét Waterloo.  Hún var valin höfuðborg lýðveldisins Texas árið 1839 og nafni hennar var breytt til heiðurs frumkvöðuls lýðveldisstofnunarinnar, Stephen F. Austin.  Austin fékk borgarréttindi árið 1840 með 856 íbúa.  Árið 1842 var innrás frá Mexíkó yfirvofandi og ríkisstjórnin fluttist til Houston.  Íbúar Austin voru staðráðnir í að halda höfuðborgartitlinum og neituðu að láta flytja skjalasafn ríkisins brott.  Ríkisstjórnin snéri aftur til Austin 1845 samtímis inngöngu Texas í ríkjasamband BNA.  Þinghús Texas var byggt úr bleiku graníti 1888 í mynd Capitol (þinghússins í Washington) eftir að fyrra þinghús úr timbri brann 1881.  Þar er safn um sögu lýðveldisins og Bandalags suðurríkjanna.

Borgin óx og dafnaði sem miðstöð viðskipta með landbúnaðarafurðir eftir að Houston- og Texasjánbrautin var lögð 1871.  Virkjun Colorado-árinnar og bygging flóðvarnargarða á fyrri hluta 20. aldar efldu iðnvæðingu.  Borgin varð einnig miðstöð rannsókna- og þróunarverkefna fyrir herinn og neyzluvörumarkaðinn.  Aukin starfsemi menntastofnana, s.s. Texasháskóla (1883), var einnig mikill aflvaki.  Meðal annarra mikilvægra menntastofnana eru Houston-Tillotson-háskólinn (1875), Háskóli hl. Edwards (1885), Concordia-háskólinn (1926) og Almenni háskólinn (1972).  Þegar dimma tekur, er miðborgin lýst gervitungsljósi með kvikasilfurslömpum, sem var komið fyrir efst á 27 háum turnum (1894).  O.Henry-safnið er í fyrrum bústað rithöfundarins (1885-95) og Elísabet Ney-safnið hýsir safn höggmynda hennar.  Franska sendiráðið (1841) var byggt á síðustu dögum lýðveldisins Texas.  Lyndon Baines Johnson-bókasafnið (1971) er á svæði Texasháskóla.

Hæðótt landið vestan Austin er útivistar- og afþreyingarsvæði með keðju uppistöðulóna, s.s. Town Lake og Lake Austin, sem teygist gegnum borgina.  Óvenjulegir hellar, klettaröðlar og lindir eru víða á þessu svæði.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 (Austin-San Marcos) var tæplega 1.050.000.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM