Þetta
gamla trúboðavirki í San Antonio hefur verið kallað „vagga
frelsisins i Texas”. Rúmlega
180 manns létu þar lífið í tápmikilli og hugdjarfri vörn þess og
heróp þeirra: „Munið Alamo”, varð nægileg hvatning fyrir
hermennina, sem börðust fyrir sjálfstæði Texas í orrustunniu við
San Jacinto. Upphaflega var
Alamo trúboðsstöðin San Antonio de Valero, sem var stofnuð 1718.
Árið 1793 lagðist trúboð og kirkja þar af.
Þegar orrustan átti sér stað, var kirkjan þaklaus rúst með
eins metra háum varnarmúr umhverfis og rúm fyrir
1000 manns til varnar. Þar
var orrustan háð.
San Antonio var undir yfirráðum Texasbúa árið 1835, þegar
Mexíkóher réðist á Alamo. Aðeins
144 hermenn, flestir sjálfboðaliðar, voru skildir eftir til að verja
borgina. þeir voru undir
stjórn W.B. Travis sveitarforingja.
Hinn 22. febrúar 1836 komu nærri 5000 mexíkóskir hermenn
undir stjórn Santa Anna til San Antonio.
Travis og James Bowie töldu nauðsynlegt að verja Alamo til að
hindra frekari landvinninga hers Santa Anna.
Daginn eftir tóku Bandaríkjamennirnir sér stöðu í virkinu
og undirbjuggu sig undir árás Mexíkóhersins.
Santa Anna dró upp gunnfána og krafðist skilyrðislausrar
uppgjafar. Þessari kröfu
var svarað með fallbyssuskoti úr virkinu. Þá hófu fallbyssur Mexíkóa upp raust sína.
Daginn áður hafði David Crockett og nokkrir skotmanna hans frá
Tennessee komið til að ganga í lið með varnarliðinu.
Hinn 1. marz komu fleiri sjálfboðaliðar frá Conzales með
James Butler Bonham. Umsátrið
stóð í 12 daga. Morguninn
6. marz réðust nokkur þúsund Mexíkóa á virkið.
Þeir þeyttu herlúður, sem táknaði, að mexíkósku
hermennirnir ættu ekki að gefa nein grið og skilja engan verjendanna
eftir á lífi.
Einu eftirlifendurnir voru 16 konur og börn.
Nálega 1600 Mexíkóar féllu.
Alamo er friðlýst og framan við það er minnismerki um
hetjurnar, sem féllu. |