Heildarflatarmál fylkisins er 109.158 ferkílómetrar (36. í stærðarröð
BNA). Sambandsstjórnin á 5,1% landsins, sem er nokkuð líkt tígli í
laginu. Mestu vegalengdir frá austri til vesturs eru 700 km og frá
norðri til suðurs 185 km. Hæð yfir sjó er frá 54 m meðfram
Mississippifljóti til 2.025 m á toppi Clingmans Dome í austurhlutanum.
Meðalhæð yfir sjó er 274 m.
Landinu er skipt í fjórar landfræðilegar einingar: Bláfjöll,
Appalachia-hásléttuna, Miðlágsléttuna og Strandsléttu Mexíkóflóa.
Austasti hluti fylkisins nær inn á Bláfjallasvæðið. Þar er landið
hæst og landslag hrjúfast. Hæstu tindarnir eru í Unaka-fjöllum
meðfram suðausturmörkunum. Mestur hluti svæðisins er þakinn skóglendi
og jarðvegur er þunnur, grýttur, lítið eitt súr og víðast lítt
nýtilegur til ræktunar. Vestast er Dala- og hryggjasvæðið. Þar eru
lágir, samhliða hryggir með breiðum dölum á milli. Jarðvegurinn þar
er nokkuð frjósamur.
Appalachia-hásléttan og Miðlágsléttan eru í miðju fylkinu. Hin
fyrrnefnda, einnig kölluð Cumberland, er prýdd flattypptum fjöllum,
skornum mjóum og djúpum dölum. Jarðvegur er þunnur, sendinn og
miðlungsfrjór. Hin síðarnefnda nær yfir Nashville-lægðina, sem er
umkringd hálendisbrúninni. Hún er öldótt slétta með kringlóttum hæðum,
sem eru sumar sérkennilegar í laginu.
Stærsti hluti Vestur-Tennessee er lágöldótt og flatlend Strandslétta
Mexíkóflóa. Þar er jarðvegur víðast sendinn eða miðlungs til mjög
frjósamur árframburður. Vesturmörk hennar eru við Mississippi-fljót.
Þar eru lægðir þaktar frjósömum árframburði, sem eru frábært
ræktarland, séu þær ræstar fram.
Næstum allt fylkið er innan Mississippi-lægðarinnar og þangað rennur
allt vatn bæði beint og óbeint. Meðal þveráa Tennessee-árinnar í
fylkinu eru Holston, French Broad, Little Tennessee, Clinch, Hiwassee,
Duck og Stóra-Sandá. Helztu árnar, sem eiga upptök á Bláfjallasvæðinu
(Cumberland), eru Stones og Harpeth.
Manngerð lón eru ekki færri en 25. Þeirra á meðal eru Kentucky,
Pickwick, Chickamauga, Watts Bar, Douglas, Cherokee og Norris. Í
Bláfjallaánum eru m.a. Barkley, Old Hickory og Cordell Hull.
Reelfoot-vatn í norðvesturhluta fylkisins er stærsta náttúrulega
stöðuvatnið. Það myndaðist í jarðskjálftum á tímatilinu 1811-12.
Loftslagið er temprað með hlýjum, rökum sumrum og svölum vetrum.
Yfirleitt lækkar meðalhiti með hæð yfir sjó. Meðalárshiti í Nashville
og Knoxville er 15,6°C. Lægsta skráð hitastig er -35,6°C (1917 í
Mountain City) og hið hæsta 45°C (1930 í Perryville).
Flóra og fána. Næstum helmingur landsins er þakinn skógi, að mestu
lauftrjám. Tegundir eru rúmlega 150 og hinar helztu eru: askur,
beyki, álmur, kastanía, hlynur, túlipanaösp (fylkistréð), valhnetutré,
sedrusviður, fura og greni. Meðal algengra blómplantna eru azalea,
hornviður, fjallalárviður, iris (fylkisblómið), júdasartré og alparós.
Algengustu villtu dýrin eru svartbirnir, dádýr, pokarottur, refir,
kanínur, þefdýr og íkornar. Nokkrar fuglategundanna eru: Bláfugl,
kráka, orri, haukur, hermikráka (fylkisfuglinn), rauðbrystingur og
kalkún. Margar farfuglategundir ferðast meðfram Mississippi-fljóti.
Einu eitruðu snákarnir í fylkinu eru koparhaus, skröltormur og nokkrar
aðrar tegundir. Veiðifiskar eru helztir; Bassi, krappi, gedda,
urriði og bramafiskur.
Auðlindir, framleiðsla, iönaður. Námugröftur nemur minna en 1% af
vergri þjóðarframleiðslu. Helztu jarðefnin eru tjörukol, fosfat,
eðalsteinar, kalksteinn, marmari, sink, leir, sandur, möl, kopar,
silfur, gas og olía.
Landbúnaður nemur 1,5% vergrar þjóðarframleiðslu. Helztu afurðir eru
nautakjöt, mjólkurvörur, svínakjöt, kjúklingar, egg, sojabaunir, tóbak,
fóðurvörur, vaðmull, maís, hveiti, sorghum, baunir, tómatar, epli og
ferskjur. Hestarækt er talsverð á Nashville-svæðinu.
Nýting skóga byggist aðallega á hikkorí, gulfuru, rauð- og hvíteik og
túlípanaösp. Framleiðsla timburs, húsgagna og pappírs er mikilvæg
fyrir efnahaginn.
Stór og smá stöðuvötn og lón landsins skapa kjöraðstæður til fiskveiði
en eru ekki veigamikill þáttur atvinnulífsins. Talsvert er ræktað af
fiski í fylkinu (s.s. urriði).
Iðnaðurinn nemur 24% vergrar þjóðarframleiðslu. Helztu
framleiðsluvörur eru: Efnavörur, vefnaðarvörur, vélbúnaður til
iðnaðar, flutningatæki, matvæli, bílar, rafeindatæki, pappír, prentað
efni, ál og frummálmar |