Wounded Knee Suður Dakóta Bandaríkin,


WOUNDED KNEE
SUÐUR-DAKOTA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Wounded Knee er þorp og gljúfur við Furuhryggsverndarsvæðið í Suður-Dakota.  Það var var vettvangur tveggja bardaga milli indíána og Bandaríkjahers.

Hinn 29. desember 1890 var rúmlega 200
Sioux-indíánum, mönnum, konum og börnum, slátrað þar í árás Bandaríkjahers í orrustunni við Wounded Knee.  Þessi atburður markaði endanlegan sigur á indíánum.  Teton sioux-indíánarnir voru orðnir örvilnaðir vegna þess, að verndarsvæðí þeirra var minnkað verulega eftir 1880, þannig að þeir gátu ekki aflað sér matar.  Því brugðust þeir vel við paiute-spámanninum Wovoka, sem lofaði þeim brotthvarfi hvíta mannsins og endurheimt landa sinna og afturhvarfs til veiðilendna þeirra, þar sem þeir gætu haldið áfram að veiða vísunda sér til framfæris, ef þeir fremdu sérstaka dansa og trúarsiði.  Þeir fólust í Draugadansi, sem olli ótta og grunsemdum hermanna og herforingja sambandshersins og hann upprætti þessa hreyfingu.  Í þeim aðgerðum, hinn 14. desember, var indíánahöfðinginn Sitting Bull drepinn við handtöku og nokkur hundruð fylgjenda hans flúðu til svæðisins Badlands til að komast undan.  Þeir voru álitnir hættulegir og óvinveittir vegna flóttans frá verndarsvæðinu og fylktu sér að baki Big Foot, höfðingja, sem lá banaleguna vegna lungnabólgu.  Þeir gáfust upp fyrir hersveit 7. riddaraliðssveitar hersins kvöldið 28. desember.  Þeim var smalað í stíu við Wounded Knee um nóttina eftir að flestir þeirra höfðu verið afvopnaðir og voru umkringdir hernum.  Þá kom til handalögmála við ungan indíána, sem vildi ekki afhenda riffil sinn.  Skoti var hleypt af í hópnum umhverfis þá, sem voru að slást, og ungur hermaður féll.  Þá varð skrattinn laus og sambandshermenn hófu skothríð á indíánahópinn með rifflum og vélbyssum.  Indíánarnir höfðu aðeins kylfur og hnífa, sem þeir höfðu falið í ábreiðum sínum.  Flýjandi indíánar voru eltir uppi og nokkrir þeirra voru drepnir í nokkurra kílómetra fjarlægð frá herbúðunum.  Ekki er ljóst, hve margir indíánar voru drepnir, því kynbræður þeirra fluttu marga þeirra brott, en 144 þeirra, þ.m.t. 44 konur og 16 börn, voru grafnir í fjöldagröf næsta vor, þegar veður gerði hernum kleift að komast til Wounded Knee á ný.  Talið er, að u.þ.b. 30 sambandshermenn hafi fallið í þessari orrustu.

Hinn 27. febrúar 1973 fóru u.þ.b. 200 félagar í
Amerísku indíánahreyfingunni til Wounded Knee, lögðu verndarsvæðið undir sig undir forystu Russels Means og Dennis Banks og lýstu stofnun sjálfstæðrar Ogala Sioux-þjóðar.  Þeir neituðu að hverfa á brott fyrr en Bandaríkjastjórn yrði við kröfum þeirra um skipun nýrra leiðtoga ættkvíslanna, endurskoðun allra samninga við indíána og rannsókn öldungadeildar sambandsþingsins á meðferð allra indíána í BNA.  Stórt lið alríkislögreglumanna umkringdi svæði indíánanna og umsátur hófst.  Því lauk 8. maí, þegar indíánarnir létu af hendi vopn sín og fóru frá Wounded Knee með loforð um samningaviðræður um umdeild mál.  Á meðan á umsátrinu stóð, féllu tveir indíánar og einn alríkislögreglumaður var særður alvarlega, því ýmist töluðust gagnaðilar við eða skiptust á skotum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM