Heildarflatarmál fylkisins er 199.745 ferkílómetrar (17. í stærðarröð
BNA). Sambandsstjórnin á 5,5% landsins. Fylkið er nokkurn veginn
ferhyrnt í lögun, 395 km frá norðri til suðurs og 610 km frá austri
til vesturs. Hæð landsins er frá 294 m við Stórasteinsvatn í
norðausturhlutanum til 2.207 m á tindi Harney Peak í Svörtuhæðum.
Meðalhæð yfir sjó er því u.þ.b. 671 m.
Suður-Dakota er skipt í þrjú landfræðileg svæði: Miðláglendið,
Slétturnar miklu og Svörtuhæðir. Austurþriðjungur landsins er innan
Miðláglendis miðvesturhluta BNA. Það er öldótt jökullandslag með
fjölda stöðuvatna og tjarna. Hærra svæði milli James og Big Sioux-ánna
er þakið dökkum og frjósömum fokjarðvegi, sem gerir það hið
afrakstursmesta til ræktunar. Miðláglendið endar í 90-120 m hárri
brún í vestri. Vestan hennar, í mið- og vesturhluta landsins, eru
Slétturnar miklu. Ísaldarjöklarnir flöttu þennan hluta þeirra austan
Missouri-fljóts, þannig að svæðinu svipar til Miðláglendisins. Vestar,
þar sem jöklar fóru ekki yfir, eru djúpir dalir þveráa Missouri-fljóts,
sem eru aðskildir með flötum röðlum, allt 150 m yfir dalbotnunum.
Allravestast eru Svörtuhæðir, graníttindar, sem tróna upp í 1.220 m
yfir umhverfinu. Umhverfis hið stóra Svörtuhæðasvæði eru hvassir
hryggir úr setlögum, sem fellingahreyfingar hafa hrönglað upp.
Helztu vatnsföll fylkisins eru Missouri-fljótið og þverár hennar
(Grand, Moreau, Cheyenne, Bad og White), James-áin, Big Sioux-áin,
Rauðá og Minnesota-áin. Stærstu náttúrulegu stöðuvötnin í
jökullægðunum í norðausturhlutanum er Traverse- og Stórasteinsvatn.
Manngerð lón eru víða stærri (Oahe-lón, Francis Case-lón og Louis og
Clark-lón, öll í Missouri-fljóti).
Loftslagið. Í fylkinu ríkir ómengað meginlandsloftslag, heit sumur og
kaldir og harðir vetur. Meðalárshiti er á bilinu 5°C í
norðausturhlutanum til 9,4°C í suðvesturhlutanum. Lægsta skráð
hitastig er -50°C (1936) og hið hæsta 48,9°C (1936). Austurhluti
fylkisins er í fremur röku lofti en vesturhlutinn er
hálfeyðimerkurlegur og þurr. Snjókoma er að meðaltali lítil en
stórhríðar eru algengar á veturna.
Flóra og fána. Fyrir landnám hvíta mannsins var mestur hluti landsins
grasi vaxinn. Austantil uxu hávaxnar grastegundir á steppunum en
vestantil voru þær lágvaxnar. Um aldamótin 2000 þöktu skóglendi u.þ.b.
3% af heildarflatarmálinu. Laufskógaræmur, aðallega baðmullarösp og
víðitegundir, vaxa meðfram ánum. Stærstu skóglendin eru á
Svörtuhæðasvæðinu í suðurhlutanum (fura, greni og einir).
Allt fram undir aldamótin 1900 reikuðu stórar hjarðir vísunda um stóru
slétturnar í landinu en nú eru hinir fáu, sem eftir lifa, í Custer
ríkisgarðinum. Urmull dádýra lifir góðu lífi í Svörtuhæðum og skógi
vöxnum dalbotnum um land allt. Antilópur og múldýr eru vestan
Missouri-fljótsins. Sléttuúlfar, greifingjar, gaupur, þvottabirnir,
sléttuhundar og kanínur eru algengar tegundir víðast hvar. Suður-Dakota
er vinsælt meðal fuglaveiðimanna, sem eltast við fasana og fjölda
tegunda farfugla.
Auðlindir, framleiðsla, iðnaður. Námugröftur nær 1% af vergri
þjóðarframleiðslu. Homestake-gullnáman er einhver hin auðugasta í
BNA. Hún er í Lead í Svörtuhæðum. Mikið er grafið upp af sandi og
möl í öllum hlutum fylkisins. Meðal annarra jarðefna má nefna úran,
kopar, blý, silfur, olíu, surtarbrand og kvartz.
Landbúnaður á 13% í vergri þjóðarframleiðslu (nautgripir,
svín, sauðfé) og skilar af sér ýmsum afurðum (nautakjöt, svínakjöt,
mjólkurvara og lambakjöt). Uppskeran er aðallega hafrar, rúgur, maís,
hveiti og hey (alfalfa).
Nýting skóga er veigamikill iðnaður (timbur, pappír og girðingastaurar).
Helztu trjátegundirnar, sem eru nýttar, eru ponderosafura og
baðmullarösp.
Iðnaðurinn á 10% í vergri þjóðarframleiðslu. Helztu framleiðsluvörur
eru matvæli, vélbúnaður til iðnaðar, timbur, rafeindatæki, málmvörur,
nákvæmnistæki, prentað mál og samgöngutæki. |