Suður Karólína sagan Bandaríkin,


SAGAN
SUÐUR-KARÓLÍNA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Helztu hópar indíána, sem bjuggu á Suður-Karólínusvæðinu áður en Evrópumenn hófu landnám, voru cusabo, catawba, yamasee og cherokee.  Spánverjar urðu fyrstir til að kanna strönd landsins og þeir komu upp bráðabirgðabyggð í Georgetown árið 1526.  Franskir húgenottar reyndu árangurslaust að setjast að á Parris-eyju árið 1562 og Spánverjar byggðu þar virki árið 1566.

Spænsu byggðirnar entust ekki og snemma á 17. öld lögðu Englendingar Virginíusvæðið í norðri undir sig.  árið 1629 veitti Karl I Englandskonungur Sir Robert Heath leyfisbréf fyrir svæðinu, sem er nú Norður- og Suður Karólína.  Þegar leyfisbréfið rann út árið 1663 gaf Karl II út leyfisbréf til 18 landeigenda.  Einn þeirra var Anthony Ashley Cooper, síðar fyrsti jarlinn af Shaftesbury, sem samdi síðar grunnstjórnarskrána með John Locke.  Hún var undirstaðan undir yfirráðum landeigenda, sem réðu öllu í lífi leiguliða.  Þing nýlendunnar hafnaði þessari stjórnarskrá síðar.  Charlestown, fyrsta varanlega enska byggðin, var stofnuð 1670 og Norður-Karólína fékk sérstaka stjórn eftir 1712.  Deilur og árekstrar landeigenda og hagsmuna almennings leiddu til uppreisnar árið 1719 og beinna yfirráða brezku krúnunnar.  Suður-Karólína dafnaði á þessum tímum vegna mikilla viðskipta með skinnavöru, hrísgrjón og litunarefni (indigo).

Íbúar Suður-Karólínu tóku virkan þátt í sjálfstæðisstríðinu.  Þeir hröktu Breta frá Moultrie-virkinu árið 1776 en misstu Charleston í sókn brezkra hersveita undir stjórn Henry Clinton hershöfðingja árið 1780.  Eftir stríðið spruttu upp deilur milli gömlu byggðanna í strandhéruðunum og nýju byggðanna inni í landi, þar sem Skotar og Írar voru fjölmennir.  Afleiðingar þessara deilna urðu flutningur höfuðborgarinnar frá Charleston til Columbia.
Snemma á 19. öld hélt plantekrubúskapur áfram að þróast.  Flutningakerfi fylkisins, vegir, vatnaleiðir og járnbrautir, var bætt og aukið.

Þegar tímar liðu, óx stuðningur við þrælahaldið og andstaða gegn utanaðkomandi afskiptum af því.  John C. Calhoun, öldungadeildarþingmaður, varð aðalmálsvari réttinda fylkjanna og málefna Suðurríkjanna.  Suður-Karólína varð fyst til að segja sig úr lögum við BNA (20. desember 1860) og árásin á Sumpter-virkið í Charleston Harbor 12. apríl 1861 markaði upphaf borgara/þrælastríðsins.  Suður-Karólína sparaði ekki kraftana fyrir málstað Suðurríkjanna í stríðinu og varð fyrir miklum stríðsköðum.  William T. Sherman, hershöfðingi Norðurríkjanna, réðist með her sínum inn í fylkið snemma árs 1865, brenndi Columbia og skildi alls staðar eftir sig sviðna jörð.

Suður-Karólína varð sambandsfylki á ný árið 1868 með skilmálum sambandsstjórnarinnar um nýja stjórnarskrá, sem veitti negrum kosningarétt.  Negrar voru kosnir til embætta í fyrsta skipti en mikil óreiða og spilling ríkti í stjórnsýslunni.  Árið 1876 kusu hvítir íbúar Wade Hampton hershöfðingja í fylkisstjóraembættið og brotthvarf sambandshersins markaði lok enduruppbyggingarinnar.

Búrbónar, íhaldsmenn, sem aðhylltust jákvæðrar stefnu í viðskiptum og efnahagsmálum, réðu að mestu þar til Benjamin R. Tillman varð fylkisstjóri 1890.  Að baki honum stóðu umbótamenn á sviði landbúnaðar, sem stóð höllum fæti líkt og annars staðar í Suðurríkjunum.  Vaxandi óþolinmæði dreifbýlisfólks og bænda olli falli Búrbóna.  Umbótamennirnir kynntu fjölda leiða, þ.á.m. nýja stjórnarskrá, sem afnam kosningarétt negra.

Heimskreppan á fjórða áratugi 20. aldar var íbúum fylkisins þung í skauti.  Árið 1948 studdu kjörmenn fylkisins Strom Thurmond fylkisstjóra til forsetaembættisins, m.a. til að mótmæla stefnu demókrata í kynþáttamálum.

Suður-Karólína, Mississippi og Georgía tóku höndum saman í framlínu andstöðunnar gegn baráttuhreyfingum negra á sjötta og sjöunda áratugnum.  Árið 1951 hóf James F. Byrnes fylkisstjóri langtímaumbætur í skólakerfi negra en studdi jafnframt andstöðu gegn afskipum sambandsstjórnarinnar af kynþáttamálum.  Stjórnarskrárbreyting, sem var samþykkt 1952, leysti fylkisstjórnina undan skyldu til að reka almenna skóla.  Á árunum 1955-56 voru samþykkt nokkur lagafrumvörp gegn auknum réttindum negra.  Löggjöf og dómstólar sambandsstjórnarinnar og mótmælaaðgerðir negra leiddu loks sameiningar í almenna skólakerfinu og kosningaréttar negra á sjöunda áratugnum.

Aukin fjölbreytni í undirstöðugreinum efnahagslífsins, sem hófst á fyrri helmingi 20. aldar, var orðin áþreifanleg á áttunda áratugnum.  Breiðastar þessara nýju stoða voru varnarmannvirki og samningar við sambandsstjórnina, ferðaþjónusta og nýr iðnaður í minni bæjum og dreifbýli, kom í stað framleiðslu vefnaðarvöru og húsgagna.  Íbúum fylkisins fjölgaði hægt og bítandi úr 2,2 miljónum árið 1950 í u.þ.b. 2,6 miljónir árið 1970 og 3,5 miljónir 1990.  Á níunda áratugnum urðu miklar umbætur í félagslegri þjónustu.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM