Suður Karólína land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
SUÐUR-KARÓLÍNA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Suður-Karólína nær frá Atlantahafi upp í Appalachia-fjöll í norðvesturhorni landsins.  Heildarflatarmálið er 82.898 ferkílómetrar og þar með hið 40. í stærðarröð BNA.  Sambandsstjórnin á 6,1% landsins.  Fylkið er nokkurn veginn þríhyrnt í laginu, 445 km frá austri til vesturs og 340 km frá norðri til suðurs.  Það nær frá sjávarmáli upp í 1.085 m hæð á tindi Sassafras-fjalls í norðvesturhlutanum og meðalhæð yfir sjó er u.þ.b. 107 m.  Strandlengjan er 301 km og skorin fjölda fjarða og ögra.  Fyrir ströndinni eru margar eyjar Sea Island-eyjaklasans.

Landinu er skipt í þrjár landfræðilegar einingar:  Strandsléttuna, Piedmont-hásléttuna og Bláfjöll.  Strandsléttan nær yfir u.þ.b. helming landsins.  Suðurhluti hennar er prýddur Sjóeyjum fyrir ströndinni.  Á milli þeirra og meginlandsins eru saltmýrar, lón og sund.  Yfirborð sléttunar er næstum flat en hækkar smám saman inn í land.  Þær eru mjög mýrlendar.  Undir yfirborðinu eru aðallega sandur og leir.  Jarðvegur er víðast sendinn og ljós en dökkur mór og leðja sums staðar í votlendi.

Innri jaðar strandsléttunnar, sem liggur um Columbia-borg, er kallaður fossalínan.  Þar myndast fossar og flúðir í ám frá Piedmont-hásléttunni.  Berggrunnur hennar er harður (granít, hellugrjót og forngrýti).  Yfirborðið er öldótt og jarðvegurinn víðast rauðleytur.  Landið hækkar frá u.þ.b. 150 m við fossalínuna upp í 300 m við norðvesturmörkin.  Þaðan hækkar landið bratt á Bláfjallasvæðinu, sem er aðallega úr forngrýti.

Þrjár meginmóður falla suðaustur eftir landinu.  Pee Dee er þeirra mest (norðausturhlutinn).  Vatn til Santee-árinnar safnast víða að í miðhlutanum.  Savannah-áin myndar næstum öll landamærin að Georgíu.  Meðal annarra helztu vatnsfalla má nefna Lynches, Edisto og Saluda.  Fylkið státar ekki af stórum, náttúrulegum stöðuvötnum en mörg lón hafa verið mynduð með stíflugerð í ám.  Þeirra á meða eru Marion í Santee-ánni, Moultrie í Cooper-ánni og Clark Hill og Hartwell-lónin, bæði að hluta í Georgíu, í Savannah-ánni.

Loftslagið er rakt og jaðartrópískt nema á Bláfjallasvæðinu, þar sem ríkir rakt meginlandsloftslag.  Hitabeltisloftslagið byggist á suðlægri legu landsins, láglendinu, nálægð Golfstraumsins og Appalachia-fjöllum, sem skýla láglendinu fyrir ísköldum loftmössum frá miðju meginlandsins.  Meðalhiti janúar í Charleston á Atlantshafsströndinni er 9,2°C og í júlí 26,7°C.  Sambærilegar tölur frá Piedmont-hásléttunni eru 5,8°C og 24,8°C.  Lægsta skráða hitastig er -28,9°C (1977 í Caesars Head í norðvesturhlutanum) og hið hæsta 43,9°C (1925 í Blackville og Calhoun Falls í vesturhlutanum og árið 1954 í Camden í miðhlutanum).  Snjókoma er sjaldgæf nema í Bláfjöllum.  Stundum geisa fellibyljir og skýstrokkar, sem valda miklu tjóni.

Flóra og fána.  Upprunalega var allt landið þakið skógi en núna u.þ.b. 60% (fura, eik, gúmmítré, hikkorí, magnolía, kýpressa, tupelo, pálmar, beyki, hlynur.  Algengustu blómplöntur eru m.a. azalea, maríuvöndur, fjallalárviður og fjóla.

Algengar dýrategundir eru dádýr, pokarotta, kanína og þvottabjörn.  Mikið er um farfuglategundir við ströndina, einkum endur og gæsir.  Inni í landi er fjöldi annarra tegunda.  Í ám og vötnum eru bassi, karfi, krappi og urriði og í sjónum m.a. kræklingur, ostrur, rækjur, krabbar og síld (shad og menhaden).

Auðlindir, framleiðsla, iðnaður.  Suður-Karólína er eina fylki BNA vestan Mississippi-fljóts, þar sem gull er grafið úr jörðu.  Önnur verðmæt jarðefni eru m.a. leir, vermikúlít (líkt vikri), sandur, grjót, kaólín, granít, kalksteinn, mór, míka og eðalsteinar.

Helztu landbúnaðarafurðir eru tóbak, nautakjöt, kjúklingar, sojabaunir, mjólkurvörur, egg, svínakjöt, maís, hveiti, hafrar, bygg, tómatar, baunir, jarðhnetur, ferskjur, epli og baðmull.

Nýting skóga er veruleg og rúmlega 75% hennar er mjúkviður, sem er aðallega breytt í timbur og pappír.

Fiskveiðar byggjast aðallega á skelfiski (rækja, krabbi, ostrur og kræklingur).  Einnig er talsverð útgerð tengd veiðum ferskvatnsfiska.

Iðnaðurinn er mikilvægasta atvinnugreinin.  Helztu framleiðsluvörur eru vefnaðarvörur, efnavörur, vélbúnaður til iðnaðar, gúmmí, plast, rafeindatæki, pappír, flutningatæki, matvæli, glervörur og timbur.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM