Rhode Island sagan Bandaríkin,


SAGAN
RHODE ISLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Rhode Island var búsvæði indíána af ættkvíslum niantic, nipmuc, wampanoag og narragansett.  Englendingar, sem komu sér upp byggðum við Massachusetts-flóa skömmu eftur 1620, fluttust suður í Narragansett-sýslu næsta áratuginn.  Presturinn Roger Williams, sem var rekinn frá nýlendunni Massachusetts Bay vegna trúarskoðana sinna, stofnaði bæinn Providence á landi, sem var keypt af indíánunum 1636.  Fleiri trúarlegir flóttamenn settust að í Portsmouth (1638), Newport (1639) og Warwick (1643).  Massachusetts gerði kröfu til yfirráða hluta Rhode Island á fjórða og fimmta áratugi 17. aldar en Williams (1644) fékk leyfisbréf frá enska þinginu til viðurkenningar hinna fjögurra nýju byggða sem sérstakrar nýlendu Providence búgarðanna.  Kvekarar í leit að frelsi til að iðka trú sína komu sem óðast á sjötta og sjöunda áratugnum og gyðingar frá Barbados settust að í Newport.  Árið 1663 gaf Karl II konungur út nýjar tilskipanir um nýlenduna Rhode Island.  Þar var skýrt kveðið á um trúfrelsi og núverandi mörk hennar.  Á árunum 1675-76 tóku íbúarnir saman höndum við aðrar nýlendur í Nýja-Englandi til að sigrast á narragansett- og wampanoag-indíánum í stríði Filips konungs.

Sjálfstæðisstríðið.  Á 18. öld blómstraði viðskiptalífið í Rhode Island vegna útflutnings síróps, kjötvöru, ediks og mjólkurafurða.  Íbúarnir stunduðu hvalveiðar og þrælaverzlun og Newport varð að mikilvægri miðstöð viðskipta í Brezku-Ameríku.  Auðæfi margra kaupmanna borgarinnar byggðust á smygli og þegar brezka stjórnin hóf að beita viðskiptatakmörkunum á sjöunda áratugi 18. aldar, urðu íbúarnir strax fyrir barðinu á þeim.  Meðal fyrstu andstöðuviðbragða þeirra, áður en sjálfstæðisstríðið hófst, urðu við Narragansett-fjörð.  Með aðgerðum sínum gegn Bretum greiddu íbúarnir veginn fyrir fyrstu meginlandsráðstefnunni.  Þegar íbúar Massachusetts gerðu uppreisn árið 1775, sendi stjórn Rhode Island 1000 manna lið þeim til aðstoðar og skipulagði sjóher til að berjast við herskip Breta, sem lokuðu leiðinni til hafnar Newport.  Í maí 1776 samþykkti þing nýlendunnar aðgerðir til að rjúfa tengslin við brezku krúnuna og þingmenn undirrituðu sjálfstæðisyfirlýsinguna í Fíladelfíu 4. júlí.  Bretar hernámu Newport frá desember 1776 til október 1779 og stóðust sameiginlegar árásir Frakka og Ameríkumanna 1778.  árið 1780 og 1781 voru höfuðstöðvar franska hersins undir stjórn greifans af Rochambeau í borginni.

Eftir að fylkisbúum hafði tekizt að losa sig úr fjármálalegum og viðskiptalegum viðjum Breta voru þeir ekki reiðubúnir að afsala völdum og sjálfræði til sambandsstjórnarinnar.  Engu að síður samþykkti þing fylkisins loks stjórnarskrá BNA í maí 1790.  Afnám þrælahalds hófst með samþykkt laga í þá átt árið 1784.  Flestir negrar voru orðnir frjálsir menn árið 1807 en lítið lát varð á aðskilnaðarstefnunni.

19. öldin.  Kaupskip frá BNA sigldu alla leið til Eystrasalts, Kína, Indlands og Austur-Indía snemma á 19. öldinni og eftir 1840 hófust siglingar meðfram Kyrrahafsströndinni .  Eftir stríðið 1812 fór iðnvæðingin að hafa áhrif á viðskiptamunstrið, vefnaðariðnaðurinn í fyrstu.  Við þessar breytingar og aukna bankastarfsemi varð Providence mikilvægari borg en Newport.  Bættur efnahagur laðaði að fleiri innflytjendur.  Samkvæmt lögum frá 1663 nutu þeir ekki kosningaréttar, því hann var bundinn við landeigendur.  Stjórnarskránni var breytt 1843, þannig að hún veitti iðnverkafólki kosningarétt, ef það var fætt í landinu.  Íbúar fylkisins tóku afstöðu með Suðurríkjunum áður en borgara/þrælastríðið hófst en veittu Abraham Lincoln atkvæði sín árið 1860 til að halda ríkjasambandinu starfandi.  Eftir stríðið réðu viðskiptahagsmunir stjórnmálum fylkisins og Newport varð vinsæll sumardvalarstaður hinna ríku.

20. öldin.  Íbúadeiglan breyttist verulega um aldamótin 1900.  Írar, franskir Kanadamenn, Ítalar og Portúgalar tóku við af gömlu Norðurríkjamönnunum.  Lýðveldisflokkurinn hélt velli á stjórnmálasviðinu þar til kynþáttum fjölgaði í stjórnsýslu landsins á 20. öldinni.  Á þriðja áratugnum voru demókratar farnir að koma sér betur fyrir á þingi.  Þetta gerðist ekki átakalaust en úrslitin urðu þau, að demókratar snéru taflinu sér í vil.

Fylkið náði sér aldrei alveg eftir heimskreppuna og á síðustu tveimur áratugum aldarinnar var það meðal mestu atvinnuleysissvæða BNA.  Efnahagurinn rétti nokkuð úr kútnum við fjölgun starfa í opinberum og almennum þjónustugreinum samtímis áframhaldandi niðursveiflu í vefnaðariðnaði.  Snemma á tíunda áratugnum kom annað reiðarslag, þegar nokkrir ríkisbankar og fjármálafyrirtæki urðu gjaldþrota.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM